PIPAR\TBWA
FIMMTUDAGUR

ÞETTA VERÐUR SKEMMTILEGT

FIMMTUDAGUR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR

#45    16. janúar 2014
 
Já, 2014 verður skemmtilegt ár. Við erum sko alveg viss um það. Og skemmtilegheitin byrja strax með nýrri deild, nýjum verkefnum og nýjum samstarfsmanni. Það er líka einstaklega skemmtilegt og spennandi að vinna á auglýsingastofu þegar möguleikar í markaðsstarfi eru nánast óþrjótandi með ótal ólíkum miðlum og nýjum tæknilegum útfærslum.  
Svo verður PIPAR\TBWA 20 ára í sumar. Þetta getur ekki orðið annað en skemmtilegt ár!

 
Góða helgi,
starfsfólk PIPARS\TBWA

Adidas – Brazuca

Adidas er hér með frábæra gagnvirka auglýsingu fyrir heimsmeistaramótið í Brasilíu sem verður í sumar. 
Bolti keppninnar verður að þessu sinni Adidas-bolti sem nefnist Brazuca og að sjálfsögðu er mikið lagt í auglýsingar fyrir keppnisbolta stórmóts. Að þessu sinni er auglýsingin gagnvirk þannig að áhorfandinn getur brugðið sér í hlutverk boltans og horft á atburðarásina frá hans sjónarhorni, breytt um áttir, stoppað myndina, litið í kringum sig og gert allskonar skemmtileg trix. 
Einnig er hægt að velja sér leikmann og horfa á atburðarrásina frá sjónarhorni hvers og eins, mjög skemmtilegt og mjög raunverulegt og flott.
Hver vill ekki prófa að vera Schweinsteiger, Xavi eða sjálfur Messi í svona auglýsingu?
 


Nissan NISMO úrið

NISMO er sú deild innan Nissan sem hannar og þróar vélar og bíla fyrir akstursíþróttir eða einfaldlega þá sem vilja hraðskreiðari lúxusbíla. NISMO úrið er það fyrsta sinnar tegundar en úrið tengir ökumanninn beint við bílinn. Það liggur því beint við að úrið veiti ökumanninum upplýsingar um ástand bílsins, en það er bara brot af þeim möguleikum sem úrið býður upp á. Úrið veitir nefnilega upplýsingar um ástand vega og leiðir, auk þess sem ökumaðurinn getur jafnvel fengið upplýsingar um eigið ástand o.fl.

Framtíðin er núna

Landslagið í samfélagsmiðlum breytist ótrúlega hratt. Því er um að gera að fylgjast vel með ef markaðssetning á netinu á að ná árangri. Það sem skiptir öllu máli er hvernig þú talar við viðskiptavini. Og mundu að það er innihaldið sem vekur áhugann! Á þessu ári mun snjallsímanotkun aukast og ætti áhersla í hönnun að taka mið af því. Samfélagssíður eiga eftir að verða sérhæfðari og bloggsíður verða meira áberandi á ný þar sem fyrirtæki geta talað persónulega við viðskiptavini. Myndbönd eru góð leið til að koma skilaboðum áfram og verða vinsæll miðill og helst það í hendur með aukinni farsímanotkun. Það verður spennandi að sjá hvernig málin þróast árið 2014.
 

NÝ VERKEFNI PIPARS\TBWA

Happdrætti háskólans í 80 ár

Happdrætti háskólans fagnar 80 ára afmæli í ár, en fyrst var dregið árið 1934. Á þessum 80 árum hefur happdrættið fjármagnað yfir 20 byggingar Háskóla Íslands, margskonar viðhald og tækjakaup og eflt rannsóknarstofur skólans. Auk þess rennur föst upphæð árlega til Rannsóknamiðstöðvar Íslands, Rannís, sem ætlað er að treysta stoðir íslensks þekkingarsamfélags með stuðningi við rannsóknir, nýsköpun, menntun og menningu.
Það er með miklu stolti sem við kynnum þessa nýju auglýsingu, sem var gerð til að sýna svart á hvítu alla þá gríðarlegu uppbyggingu sem happdrættið hefur staðið fyrir í þágu menntunar í landinu. Hún var unnin í samvinnu við snillingana hjá RVX (Reykjavík visual effects) og Erla María Árnadóttir myndskreytir lagði til vatnslitateikningar. Óskar Einarsson samdi tónlist, Margrét Vilhjálmsdóttir leikkona las og Biggi Tryggva hljóðsetti.


Við dobblum strákana okkar á EM

Enn og aftur eru strákarnir okkar í handboltalandsliðinu í eldlínunni og berjast nú um Evrópumeistaratitilinn í Danmörku. ÓB er að sjálfsögðu með í stemningunni sem fyrr og markamunur eftir sigurleiki Íslands ræður afslættinum til lykilhafa hjá ÓB og Olís daginn eftir. Nú er hinsvegar markamunurinn dobblaður.
Það varð uppi fótur og fit þegar flett var upp í orðabókinni og rifjað upp að sögnin að „dobla“, sem margir þekkja meðal annars úr bridds, væri skrifuð með einu b. Einhverjum fannst það ákveðin einföldun, aðrir voru sannfærðir um að þetta væri prentvilla, og enn aðrir neituðu hreinlega að skrifa undir eitt b. Það var því tekin sú örláta ákvörðun að dobbla béið líka. Hallgrímur Ólafsson er eins og áður í hlutverki þjálfarans – sem hefur nú safnað myndarlegu skeggi til að heita á strákana.

PIPAR\TRAVEL

PIPAR\TRAVEL er ný deild sem stofnuð var sérstaklega með það í huga að veita íslenskum ferðaþjónustuaðilum sérhæfða þjónustu í markaðsmálum. Enginn aðili með fulla þjónustu hefur sérhæft sig í þessari grein á Íslandi og okkur fannst því ástæða til að ráða bót þar á og anna eftirspurn ferðaþjónustufyrirtækja eftir markaðsþjónustu og -ráðgjöf.

Erlendir ferðamenn ákveða yfirleitt hvað þeir ætla að gera áður en þeir koma til landsins og flest fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa úr takmörkuðu markaðsfé að spila. Því er mikilvægt að straumlínulaga þjónustuna með stuttum boðleiðum og einfaldri, áhrifaríkri markaðssetningu. PIPAR\TRAVEL nýtir allar stoðdeildir PIPARS\TBWA til að sækja þá sérfræðiþekkingu sem hentar hverju verkefni fyrir sig; samfélagsmiðladeild, netmarkaðsdeild, birtingadeild, hugmynda- og textadeild, hönnunardeild og markaðsráðgjöf.

Unnar Bergþórsson hefur verið ráðinn verkefnastjóri PIPAR\TRAVEL. Velkominn Unnar!
 
Nýr liðsauki

Texta- og hugmyndadeild fékk liðsstyrk á fyrsta vinnudegi nýs árs þegar rithöfundurinn, ljóðskáldið og fyrrum fjölmiðlahundurinn Sigmundur Ernir Rúnarsson bættist í hópinn. Sigmund er óþarfi að kynna, svo lengi hefur hans geðþekka nærvera fylgt heimilum landsmanna á sjónvarpsskjánum.

Simmi hefur aldrei unnið á auglýsingastofu áður, en hefur margvíslega reynslu í farteskinu sem mun svo sannarlega nýtast vel hér á stofunni. Hann hefur verið blaðamaður á Vísi, ritstjórnarfulltrúi á Helgarpóstinum, þáttastjórnandi hjá Ríkissjónvarpinu, fréttamaður, varafréttastjóri og síðar fréttastjóri á Stöð 2, ritstjóri DV, þáttastjórnandi á SkjáEinum, fréttaritstjóri á Fréttablaðinu og setið á Alþingi eitt kjörtímabil. Hann hefur setið í stjórnum Blaðamannafélagsins og Dags íslenskrar tungu og verið formaður bæði verkefnisstjórnar Eyjafjarðar og stjórnar Leikfélags Akureyrar. Útgefnar bækur eftir hann, ljóðabækur og ævisögur, eru komnar yfir tuginn.

Við bjóðum Sigmund Erni velkominn til starfa.

Íslendingar uppgötva Vine

Það fór ekki framhjá neinum þegar Vine-stjörnurnar Jerome Jarre og Nash Grier sýndu sig í Smáralindinni á dögunum. Þessir ungu herramenn eru partur af nýrri kynslóð sem er mötuð af samfélagsmiðlum eins og Facebook, Instagram, Twitter, Snapchat og þeirra heimavelli sem kallast Vine. Vine er smáforrit sem byggist á því að maður tekur 6 sekúndna vídeó og póstar þeim í appinu, svo fylgist maður með fólki og lætur fylgjast með sér eins og í öllum hinum forritunum. Það sem gerir Vine skemmtilegt er að þar þarf mjög frjótt ímyndunarafl og góðar hugmyndir til þess að ná að gera eitthvað skemmtilegt á 6 sekúndum.