PIPAR\TBWA
FIMMTUDAGUR

SUPER BOWL

FIMMTUDAGUR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR

#46    6. febrúar 2014
 

Stærsti auglýsingaviðburður Bandaríkjanna, Super Bowl, eða Ofurskálin, fór fram síðastliðinn sunnudag við mikinn fögnuð auglýsingafólks. Hvort sem íþróttaáhuginn er til staðar eður ei er spennandi að fylgjast með úrslitaleik bandaríska ruðningsins enda er auglýsingatíminn í hléinu sá dýrasti í heimi. Það er því ljóst að auglýsendur tjalda öllu sínu besta til en það er þó ekki öruggt að tilraunir þeirra gangi upp. Að þessu sinni voru ýmis trikk notuð til að ná athygli áhorfenda líkt og krúttlegur hvolpur, kynþokkafullur hreimur Breta, og frægð einstaklinga, með misgóðum árangri þó.

 

Góða helgi,
starfsfólk PIPARS\TBWA


Bestu Super Bowl auglýsingar ársins

Super Bowl er órjúfanlegur þáttur af sögu TBWA\Chiat\Day en árið 1984 frumsýndi stofan eina af frægustu auglýsingum í heimi í auglýsingahléi úrslitaleiksins. Henni var leikstýrt af leikstjóranum Ridley Scott og kynnti Apple Macintosh PC til sögunnar í fyrsta sinn. Auglýsingin markaði ákveðin tímamót í auglýsingabransanum og kemst enn á lista yfir áhrifamestu auglýsingar allra tíma. 
Starfsmenn TBWA\Chiat\Day hafa því óneitanlega mikla reynslu af Super Bowl auglýsingum en hönnunarstjórinn Alisa Wixom fer hér yfir það besta sem Super Bowl bauð upp á þetta árið.

 
FRÉTTIR AF PIPAR\TBWA

Tvær tilnefningar til Nexpo verðlauna

Í gær var tilkynnt hverjir keppa um NEXPO verðlaunin í ár og þar á PIPAR\TBWA tvær tilnefningar. Annarsvegar í flokki óhefðbundinna auglýsinga fyrir Sennheiser MOMENTUM – en þar settum við heyrnartól á styttur bæjarins og buðum upp á Instagram-leik í samstarfi við útvarpsstöðina X-ið. Hinsvegar er stofan sjálf tilnefnd í flokknum „Áhrifamesta fyrirtækið á samfélagsmiðlum“.

Við erum að vonum afskaplega glöð yfir þessum tilnefningum, enda er markmið NEXPO „að hampa því sem vel er gert í vef- og markaðsgeiranum og gefa því verðskuldað klapp á bakið“. Dómnefnd hefur valið tilnefningarnar og nú er það almennings að kjósa á milli þeirra.
 


PIPAR\TBWA á uppleið


Já  – við flytjum upp á næstu hæð! Stofan hefur fyrir löngu sprengt utan af sér húsnæðið hér á annarri hæðinni í Tryggvagötunni, vegna stöðugrar fjölgunar starfsfólks síðustu árin. Hingað til höfum við látið okkur hafa það að bæta við borðum, sitja þéttar og deila súrefninu bróðurlega á milli okkar. Sem hefur gengið prýðilega, enda starfsandinn til fyrirmyndar og fjölskyldustemningin sem myndast hefur í þéttleikanum afskaplega skemmtileg.

En nú dregur til tíðinda. Velferðarráðuneytið hefur flutt út af þriðju hæðinni og þangað munum við flytja með vorinu, í stærra rými, eftir gagngerar breytingar á húsnæðinu. Smiðirnir eru þegar byrjaðir að rífa niður veggi og við erum gríðarlega spennt. Við munum þó áfram halda annarri hæðinni en þar verða fundarherbergi, mataraðstaða og ljósmyndastúdíó.
 

Slógu í gegn eftir Super Bowl

Í dag er ákaflega mikilvægt fyrir fyrirtæki sem vilja ná til neytenda sinna að vera með viðveru á samfélagsmiðlunum. Það dugir þó skammt án fylgjenda. Þetta árið sá bílatryggingafélagið Esurance sér leik á borði og keypti fyrstu auglýsingu eftir að leiknum lauk, í stað þess að birta í hléinu, sem sparaði þeim 1,5 milljón dollara. Í auglýsingunum var fólki sagt að „tvíta“ skilaboðunum #EsuranceSave30 með Twitter aðgangi sínum og þá gæti það unnið allan mismuninn sem Esurance sparaði sér.

Þetta skilaði ótrúlegu magni af „tvítum“ strax á fyrstu mínútunum eða um 200.000 og í það heila rúmum tveimur milljónum. Heppin stúlka var svo dregin út og því sjónvarpað í þætti Jimmy Kimmel þegar henni voru veitt verðlaunin. Esurance náði með þessu uppátæki að verða sýnilegasta vörumerkið á Twitter þennan dag og bætti við sig gríðarlegum fjölda fylgjenda í kjölfarið. Svona á að nota samfélagsmiðlana!

Notkun netfjölmiðla

Auglýsendur þurfa stöðugt að vita hvar best er að ná til fjöldans. Birtingadeildin okkar er sífellt á vaktinni og sökkvir sér ofan í markaðsrannsóknir af ýmsu tagi. MMR framkvæmir t.d. reglulegar mælingar á notkun almennings á helstu netfjölmiðlum landsins. Þær byggja á rafrænum teljaragögnum Modernus annars vegar og gögnum úr spurningakönnun MMR meðal almennings hins vegar.

Í nýjustu könnun MMR kom í ljós að mbl.is er vinsælasti netfjölmiðillinn en visir.is fylgir fast á eftir. Stakar fréttir virka betur, þannig fara t.d. fleiri inn á stakar fréttir á dv.is heldur en á forsíðuna. Jafnmargir fara inn á stakar fréttir á visir.is og dv.is í aldurshópnum „allir“ (18–80 ára). Þá kemur einnig fram að netnotkun minnkar um helgar, sérstaklega á laugardögum. Karlar eru meira á netinu en konur, konur eru frekar á lífsstílssíðum en karlar frekar á íþrótta- og viðskiptasíðum. Einnig er borin saman netnoktun allra (18–80) og „yngri hóps“ (18-50 ára) og þarf líklega ekki að koma neinum á óvart að netnotkun er talsvert meiri hjá yngri hópnum.


(Byggt á könnun MMR um notkun almennings á helstu netfjölmiðlum landsins).

Facebook fagnar 10 ára afmæli

Hvað hefur þú verið lengi á Facebook? Ótrúlegt en satt þá fagnar þessi sívinsæli samfélagsmiðill 10 ára afmæli sínu um þessar mundir. Facebook gerir nú notendum sínum kleift að samfagna þessum tímamótum með forriti sem geymir yfirlit yfir allt það besta af því sem þú hefur deilt með vinum þínum í gegnum árin. Þessar myndir, statusar og uppfærslur úr lífi þínu hafa verið tekin saman í einnar mínútu myndband sem þú getur að sjálfsögðu deilt með vinum þínum - á Facebook, en ekki hvað! Notendur sem eru ósáttir við þær myndir eða uppfærslur sem forritið velur (líkt og myndir af fyrrverandi, svo dæmi séu tekin) munu bráðlega geta nýtt sér uppfærslu á forritinu þar sem hver og einn getur valið hvað birtist í myndbandinu sínu.
 


 
„        
                                         Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
                    Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
PIPAR\TBWA
Tryggvagata 17
101 Reykjavík
510 9000
pipar@pipar-tbwa.is
www.pipar-tbwa.is


Copyright © 2014 PIPAR\TBWA, All rights reserved.