PIPAR\TBWA
FIMMTUDAGUR

HVETJUM TIL FRAMFARA

FIMMTUDAGUR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR

#47    6. mars 2014
 

Konudagurinn var haldinn hátíðlegur þann 23. febrúar síðastliðinn en konunum á PIPAR\TBWA var að sjálfsögðu fagnað með blómum, söng og freyðivíni. Gleðinni er þó hvergi nærri lokið því alþjóðlegur dagur kvenna er 8. mars nk. en af því tilefni hyggst TBWA beina ljósi að afrekum kvenna. Okkur fannst þetta því vera kjörið tækifæri til að fagna, ekki aðeins konum, heldur auknum framförum í mannréttindabaráttu en líkt og Óskarinn sýndi síðastliðinn sunnudag er fólk í fjölbreytileika sínum, af hvaða kyni, kynhneigð og kynþætti sem er, að verða æ sýnilegra og því ber að fagna!
 

Góða helgi,
starfsfólk PIPARS\TBWA

Fjölbreytni á Óskarnum

Ef það er eitthvað þema sem hægt væri að nota um Óskarinn í ár væri það fjölbreytni. Kynnir hátíðinnar var að sjálfsögðu Ellen DeGeneres, sem er samkynhneigð og klæddist jakkafötum, auk þess sem margir sigurvegarar kvöldsins voru blökkumenn. Til að mynda var kvikmynd leikstýrt af blökkumanni valin besta mynd ársins í fyrsta sinn, blökkumaður hlaut verðlaun fyrir besta handritið í annað sinn og leikkonan Lupita Nyong'o var svo fyrsti Afríkumaðurinn til að hljóta Óskarinn.

Þá var Mexíkói, Alfonso Cuarón, í fyrsta sinn valinn besti leikstjórinn og Cate Blanchett nýtti sigur sinn til að ítreka að konur gætu borið aðalhlutverk kvikmynda jafn vel og karlmenn. Að lokum hlaut Jared Leto styttuna fyrir leik sinn sem transgender einstaklingur sem þjáist af HIV. Það eina sem við getum sagt er að heimur batnandi fer!

 

 


TBWA fagnar konum

TBWA-keðjan fagnar félagslegum, pólitískum og efnahagslegum afrekum kvenna þann 8. mars næstkomandi í tilefni af alþjóðlega kvennadeginum. Verkefnið er árlegt en að þessu sinni er þemað Inspiring Change, eða hvetjum til breytinga, en verkefninu er ætlað að styðja við framgöngu kvenna og þrýsta á að hrist sé upp í gömlum hefðum svo jafnrétti geti náðst. Þann 8. mars mun TBWA því setja í loftið stafræna mósaík þar sem konurnar í TBWA-keðjunni um heim allan deila því hvað eða hver hefur verið þeim innblástur svo þær geti jafnframt verið innblástur fyrir aðra. Það verður gaman að fylgjast með þessu verkefni en þess má geta að hönnunarstjórinn okkar, Selma Rut Þorsteinsdóttir, lagði sitt af mörkum við þetta verkefni. 

Valdamestu konurnar

Það er sorglegt en satt: samkvæmt könnunum eru aðeins 3 prósent þeirra sem gegna stjórnunar-störfum í auglýsingabransanum í Bandaríkjunum konur. Það þýðir þó ekki að valdamiklar konur sé ekki að finna í bransanum en auglýsingastofan Deutsch státar til að mynda af tveimur konum í stjórnunarstöðum, Lindu Sawyer sem er forstjóri Deutsch í Norður-Ameríku, og Kim Getty sem er meðeigandi og framkvæmdastjóri Deutsch LA.

Á meðan Sawyer er reynslubolti sem starfað hefur fyrir Deutsch í 25 ár er Getty stjarna á uppleið. Getty er yngsta manneskjan sem hefur verið gerð að meðeiganda í Deutsch LA en þökk sé framlagi hennar landaði Deutsch meðal annars samningum við fyrirtæki líkt og Playstation, Target og VW, sem vöktu verðskuldaða athygli með auglýsingum sínum um árið.

FRÉTTIR AF PIPAR\TBWA

Talandi um Óskarinn


Um áramótin frumsýndum við nýja sjónvarpsauglýsingu fyrir Happdrætti háskólans sem framleidd var í tilefni af 80 ára afmæli happdrættisins. RVX framleiddi með okkur auglýsinguna og Daði Einarsson var listrænn stjórnandi kvikunar (animation). Daði stýrði einmitt skömmu áður tæknibrelluteyminu hjá Framestore sem hlaut Óskarinn fyrr í vikunni fyrir tæknibrellurnar í Gravity, ásamt 6 öðrum Óskarsverðlaunum. Við sendum Daða og félögum okkar innilegustu hamingjuóskir. Hér má skoða auglýsingu okkar fyrir HHÍ og stutt myndband um gerð hennar.
 


Spádómsegg frá Góu


Það er ótrúlegt hvað tíminn líður en nú styttist hreinlega í páskana! Að þessu sinni mun Góa koma með nýjung á markaðinn en sælgætisframleiðandinn er kominn í samstarf við spákonuna þekktu, Siggu Kling. Sigga og Góa hafa í sameiningu útbúið svokallað Spádómsegg sem inniheldur, auk ljúffengs súkkulaðis, stjörnuspá fyrir hvert merki og sérstakan spádóm frá Siggu sem fyrirfinnst að sjálfsögðu inni í egginu sjálfu, í stað hins hefðbundna málsháttar.

Sigga Kling er þekkt fyrir jákvæðni og eiturhressan persónuleika en hún leggur áherslu á að við fáum öll að vera eins og við erum. Eina spurningin er: Hvaða spá ætli sé að finna í þínu Spádómseggi?
 


Engir fordómar


Eins og svo oft áður á þessum árstíma svífur Eurovision yfir vötnum hér á stofunni. Skýringin liggur að sjálfsögðu í framkvæmdastjóranum okkar Valgeiri Magnússyni, en í honum búa margir menn sem sinna fjölbreyttum hliðarverkefnum. Einn þeirra er umboðsmaðurinn Valli, sem nú heldur styrkri hendi utan um Pollapönkarana og undirbúning þeirra fyrir Danmerkurferðina í maí. PIPAR\TBWA mun því aðstoða við að koma íslenska framlaginu á framfæri í Evrópu. Þar að auki eigum við, eins og í fyrra, fulltrúa meðal bakraddasöngvara því samfélagsmiðlamógúllinn, Skálmaldarrokkarinn og Ljóti hálfvitinn, Snæbjörn Ragnarsson, Bibbi, mun skreyta baksviðið ásamt alþingismanninum og HAM-liðanum Óttari Proppé. Hver hefði trúað því? Áfram Valli! Áfram Pollapönk! Áfram Bibbi!
 


Ný vefsíða Nauthóls


Ný heimasíða Nauthóls sem hönnuð var hér á stofunni er komin í loftið. Þessi bjarti og fallegi veitingastaður státar af frábærri staðsetningu í nágrenni við helstu útivistarperlur höfuðborgarsvæðisins, Nauthólsvík og Öskjuhlíð. Staðurinn hefur yfir sér heilnæmt, létt og notalegt andrúmsloft og starfsfólkið leggur metnað í ferskt, fjölbreytt og vandað hráefni. Þá er einnig lögð mikil áhersla á umhverfisvernd og sjálfbærni og allt sem hægt er keypt beint frá býli. Það var Premis sem forritaði heimasíðuna. Við óskum Nauthóli til hamingju - og ekki síður með þá upphefð að vera fyrsta Svansvottaða veitingahúsið á Íslandi.
 

„        
                                         Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
                    Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.