PIPAR\TBWA
FIMMTUDAGUR

GULUR, RAUÐUR, GRÆNN OG BLÁR

FIMMTUDAGUR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR

#48    10. apríl 2014
 
Við höfum mörgu að fagna þennan aprílmánuð. Ekki aðeins er vorið er á næsta leiti heldur eru páskarnir rétt ókomnir, auk þess sem mánuðurinn er nýttur til að vekja athygli á þörfum málefnum. Þar fer fremst nýafstaðinn Blár apríl sem vakti mikla og verðskuldaða athygli á málefnum einhverfra barna. Þá má ekki gleyma því að nú stendur einnig yfir Grænn apríl sem vekur athygli á umhverfismálum en í þeim getum við ávallt gert betur. Við viljum að sjálfsögðu gera mánuðinn að Rauðum apríl enda erum við yfirmáta kát með nýja og stærri hæð. Við förum því glöð inn í sumarið!

Góða helgi,
starfsfólk PIPARS\TBWA


Grænn apríl


Í apríl fer fram umhverfisátakið Grænn apríl, sem sett var á laggirnar með það að markmiði að koma á framfæri við neytendur upplýsingum um vöru, þekkingu og þjónustu sem er græn og umhverfisvæn, sem og benda á fyrirtæki sem bjóða upp á slíkt. Átakið var sett af stað 2011 og hefur verið haldið árlega síðan.

Ný skýrsla um loftlagsbreytingar sem kom út á vegum nefndar Sameinuðu þjóðanna um loftlagsbreytingar sýnir svart á hvítu að við verðum að bregðast við, fyrr en síðar. Blessunarlega er ýmislegt sem við getum gert til þess að verða grænni, hvort sem við verðum duglegri við að flokka rusl, eða meðvitaðri um hvers konar vöru og þjónustu sem við nýtum okkur, líkt og þær sem eru góðar fyrir umhverfið og vottaðar sem slíkar.


Gulur apríl


Á PIPAR\TBWA er að finna helstu unnendur súkkulaðis á landinu öllu. Við gleðjumst því yfir að páskarnir eru framundan og við fáum bráðum að opna páskaeggin okkar og uppgötva hver málshátturinn er. Í þetta sinn hefur bæst við úrvalið því Spádómseggið hennar Siggu Kling er að sjálfsögðu komið í búðir en það geymir stjörnuspá og einstaka spá í hverju eggi fyrir þá sem vilja vita hvað framtíðin ber í skauti sér. Í dag gladdi Góa 200 súkkulaðigrísi með páskaeggjum! Það eina sem vinningshafar þurftu að gera til að fá páskaeggið sitt í hendurnar var að fylgjast með vísbendingunum á Facebook.
   


Blár apríl


Við á PIPAR\TBWA erum stoltir þátttakendur í söfnunarátakinu Bláum apríl, sem var hleypt af stokkunum í fyrsta sinn hér á landi í tilefni af alþjóðadegi einhverfu sem fram fer 2. apríl ár hvert. Átakinu er ætlað að vekja fólk til vitundar um einhverfu og að safna fé sem rennur óskert til styrktar málefnum sem hafa bein áhrif á börn með einhverfu. Í tilefni dagsins klæddist fólk á öllum aldri bláu auk þess sem byggingar voru lýstar í bláum lit. 

Rannveig okkar var ein af skipuleggjendum þessa mikilvæga verkefnis en hana mátti sjá víða í fjölmiðlum af þessu tilefni ásamt 6 ára einhverfum syni hennar, honum Benedikt. PIPAR\TBWA hannaði útlit og lógó sem dreifðist víða á Facebook þökk sé stuðningi fólks við átakið.
 
FRÉTTIR AF PIPAR\TBWA

Premis

Nethönnun hélt upp á 15 ára afmælið sitt á dögunum og tók í leiðinni upp nýtt nafn og útlit og heitir nú Premis. Fyrirtækið sérhæfir sig í rekstri tölvukerfa, hýsingu gagna, hugbúnaðarsmíði og allra handa kerfis- og forritunarlausnum fyrir smá og stór fyrirtæki.

Okkar reyndasti merkjahönnuður, Tryggvi Tryggvason, á heiðurinn að nýju merki Premis. Höfuðstöðvar Premis í Hádegismóum hafa verið merktar í bak og fyrir, auk þess sem sjónvarpsauglýsingar, útvarpsauglýsingar og ný heimasíða hefur litið dagsins ljós.
 

Hönnunarmars

Hönnunarmars var okkur sérstaklega hugleikinn þetta árið. Á Háskólatorgi var sýning um byggingasögu Háskóla Íslands, byggð á efni sem við unnum fyrir Happdrætti háskólans – en auk þess kynntu tveir af okkar mönnum, hönnuðirnir Ísak Winther og Haukur Már Hauksson nýjar vörur.

Haukur sýndi afskaplega skrautlegt og skemmtilegt „fata- og alls konar smáhlutahengi“ sem fengið hefur nafnið Skvetta. Ísak gerði það mögulegt að hlaða símann á handhægan hátt. Við erum stolt af okkar mönnum og óskum þeim til hamingju!
 


Föstu\Dans fögnuðurÞökk sé góðu gengi undanfarin ár hefur starfsmönnum stofunnar fjölgað töluvert og er nú svo komið að húsnæðið er hreinlega að springa utan af okkur. Við höfum því stækkað við okkur um heila hæð en starfsmenn fluttu nýlega allt sitt hafurtask upp á þriðju hæð. Önnur hæð mun hér eftir geyma fundarherbergi, ljósmyndastúdíó og kaffihús þar sem hægt verður að slaka á og snæða eftir miklar tarnir.

Áður en flutt var inn var hins vegar ákveðið að halda glæsilegt partí til að fagna stækkun stofunnar og nýta víðáttuna á tómri þriðju hæðinni. Hún var því nýtt til hins ýtrasta með dansi í hádeginu, gleði og glaum en gestum var boðið upp á grillaðar pylsur og að lokum kældir niður með ís áður en þeir héldu aftur til vinnu.
 
Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
PIPAR\TBWA
Tryggvagata 17
101 Reykjavík
510 9000
pipar@pipar-tbwa.is
www.pipar-tbwa.is


Copyright © 2014 PIPAR\TBWA, All rights reserved.


afskrá netfang    breyta skráningu