PIPAR\TBWA
FIMMTUDAGUR

HM 2014

FIMMTUDAGUR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR

#50    12. júní 2014
 
Það er yfir mörgu að gleðjast þennan mánuðinn, hvort sem fólk er spennt yfir komandi sumarfríi, bjartsýnt á að veðrið muni leika við okkur í sumar (svo við getum loksins gleymt síðasta sumri) eða ánægt með að framundan er heill mánuður af þeirri gleði sem heimsmeistaramótið í fótbolta er. Það skiptir þó engu hvaða árstími er, því tækniframfarir eru ætíð handan við hornið með endalausum möguleikum, auk þess sem við getum ávallt fundið eitthvað til að kætast yfir (silfur í #hjólaðívinnuna). Við óskum þér gleðilegs sumars, glampandi sólar, glæsilegra grillpartía og ljúfra stunda.

Góða helgi,
starfsfólk PIPARS\TBWA


#WorldCup #JoinIn

Það er ekkert grín að vera fótboltastjarna. Þrátt fyrir frægðina, launin og aðdáun milljóna manna um heim allan er pressan á stjörnuleikmenn engu að síður ólýsanleg. Það er inntakið í auglýsingu TBWA\Chiat\Day fyrir Adidas þar sem Lionel Messi glímir við matraðir um keppinauta sína, sem og vonir sínar og drauma fyrir komandi heimsmeistaramót þar sem allra augu munu verða á honum. Messi kemur einnig við sögu í Gatorade-auglýsingu sem gerð var af LewLara\TBWA. Vinir okkar í Brasilíu tóku hins vegar annan og mun léttari pól í hæðina. Segðu satt, vekur HM í fótbolta ekki augljóslega upp minningar um teiknimyndina Öskubusku frá 1950?
NÝ VERKEFNI PIPARS\TBWA

Njóttu HM með KFC

Það skiptir ekki máli hvort um er að ræða gallharða fótboltaaðdáendur eða hina sem fylgjast aðeins með af rælni: HM er stórviðburður sem fæstir láta framhjá sér fara enda er hér á ferð frábært tækifæri til að gera sér glaðan dag. KFC hyggst gera gott áhorfspartí enn betra með HM vinafötunni þar sem vinir eru hvattir til að hittast, gæða sér á ferskum, safaríkum kjúkling og fylgjast með Messi, Neymar og Ronaldo leika listir sínar.

Af þessu tilefni var smellt í auglýsingu fyrir KFC þar sem vinir komu saman og nutu góðrar máltíðar saman en farið var um víðan völl, til að mynda alla leið upp á Úlfarsfell í veðurblíðunni. Hvað gerir maður ekki fyrir atburð sem gerist aðeins einu sinni á fjögurra ára fresti? Hér má svo sjá hvað fór fram á bak við tjöldin. 
 


Veldu þitt lið á HM

ÓB hefur sett af stað HM-leik þar sem þátttakendum gefst tækifæri til að ná sér í flottan eldsneytisafslátt fyrir það eitt að halda með sínu liði á HM. Leikurinn er einfaldur, þú velur þitt lið – eða það lið sem þú telur vera sigurstranglegast – og skráir þig til leiks á Facebook-síðu ÓB. Þegar liðið skorar mark færð þú 5 króna afslátt, til dæmis 3 mörk = 15 króna afsláttur. Þetta gildir daginn eftir hvern leik sem liðið þitt spilar.

Auglýsingarnar sem gerðar voru af þessu tilefni innihalda alls konar týpur fólks sem eiga það eitt sameiginlegt að halda með sínu landsliði af ákaflega mikilli ástríðu, með tilheyrandi andlitsmálningu, búningum og almennum hressleika. Það eina sem er eftir er að taka ákvörðun: Með hvaða liði heldur þú?
 

TBWA Worldwide

Að vera partur af alþjóðlegri keðju færir okkur stöku sinnum einstök tækifæri. Þökk sé frábæru prógrammi hjá TBWA vorum við fengin til þess að láta ljós okkar skína á Instagram-aðgangi þeirra undir tagginu #disruptagram. Þetta skemmtilega verkefni gengur þannig fyrir sig að TBWA-stofur um heim allan fá viku til þess að sýna frá sinni stofu og heimalandi og styrkja þar með tengslanet sitt. Í okkar viku fórum við um víðan völl, byrjuðum hoppandi kát í Hörpu, hjóluðum niður Laugaveginn, dáðumst að miðnætursólinni og Þríhnjúkum, grilluðum, spiluðum fússball og fórum að lokum í árshátíðarferð, svo dæmi séu tekin.  

 

Hjólað í vinnuna

Á PIPAR\TBWA er einvörðungu að finna annálað keppnisfólk og því var engin spurning um að átak líkt og #hjólaðívinnuna yrði tekið með trukki. Við játum það fúslega að við áttum ekki roð í fyrsta sætið (til hamingju Sabre!) en erum alveg á því að gott silfur sé gulli betra – eftir allt saman var það nógu gott fyrir hand-boltastrákana okkar. Fulltrúar okkar hjóluðu glaðir niður í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn í síðustu viku og tóku þar við verðlaunum fyrir góðan árangur en efstu þrír vinnustaðirnir í hverjum flokki fengu þar afhent verðlaun fyrir heildarfjölda kílómetra og hlutfall kílómetra. Svo tökum við gullið bara næst!

 

Stafræn auglýsingagerð

Það er endalaust hægt að rökræða hversu hratt tækninni fleygir fram, hvort rafbókin muni valda dauða bóka eða hvort sá tími muni senn renna upp að skipulögð sjónvarpsdagskrá líði undir lok. Eitt er víst að auglýsendur verða að vera á tánum ef þeir ætla að fylgja áframhaldandi þróun og ná til mögulegra viðskiptavina þar sem þeir eru. Þetta er tíminn fyrir hugmyndafólk og frumkvöðla að taka sénsinn og þróa nýjar leiðir í markaðssetningu. Nú þegar hafa stofur verið stofnaðar erlendis sem áhersla er lögð á ákveðnar stafrænar leiðir, til að mynda framleiðslu myndbanda í von um að þeim verði dreift sjálfkrafa og fái þar með víða útbreiðslu, framleiðslu GIF hreyfimynda sem auglýsingaefnis eða með því að undirbúa sig fyrir þann dag þegar öll okkar tæki, hvort sem um er að ræða ísskápinn eða úrið, munu tengjast hvert öðru.
 

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
PIPAR\TBWA
Tryggvagata 17
101 Reykjavík
510 9000
pipar@pipar-tbwa.is
www.pipar-tbwa.is


Copyright © 2014 PIPAR\TBWA, All rights reserved.


afskrá netfang    breyta skráningu