PIPAR\TBWA
FIMMTUDAGUR

SAMEINING

Lífið getur verið svo dásamlega óútreiknanlegt og skemmtilegt stundum. Okkur til mikillar ánægju hefur PIPAR\TBWA sameinast Janúar. Janúar varð til í upphafi árs við samruna auglýsingastofunnar Fítons og þriggja annarra fyrirtækja, Miðstrætis, Kansas og Skapalóns. Þær breytingar verða nú að vefstofan Skapalón verður sjálfstætt fyrirtæki að nýju, en hin fyrirtækin sem tilheyrðu Janúar hafa ásamt Auglýsingamiðlun sameinast okkur undir merkjum PIPAR\TBWA. Í fyrrakvöld flutti Piparfólkið af Tryggvagötunni með allt sitt hafurtask yfir í Kaaberhúsið í Guðrúnartúni, þar sem Janúarliðar voru fyrir – eins og sést í meðfylgjandi myndskeiði – og í gær var fyrsti formlegi vinnudagur hins sameinaða fyrirtækis. 

Það er að mörgu að huga þegar kemur að slíkum samruna en starfsfólk beggja fyrirtækja er gríðarlega spennt og við hlökkum svo sannarlega til að skrifa nýjan kafla í fjöruga sögu íslenskrar auglýsingagerðar. Mest hlökkum við þó að sjálfsögðu til þess að vinna hvert með öðru og sameina alla þá fjölmörgu krafta og hæfileika sem búa á báðum stöðum. Ef sólin myndi nú vera svo væn að skína aðeins meira á okkur þá yrði þetta ansi fullkomið sumar!

Góða helgi,
starfsfólk PIPARS\TBWA
NÝ VERKEFNI PIPARS\TBWA

Te & Kaffi 30 ára

Te & Kaffi fögnuðu 30 ára afmæli í lok apríl og óhætt er að segja að nóg sé um að vera hjá fyrirtækinu um þessar mundir. Nýr vefur og ný umbúðalína eru einna stærstu verkefnin sem við höfum unnið með Te & Kaffi. Nýju umbúðirnar miða að því að fræða neytendur betur um mismunandi vinnslu og eiginleika kaffitegundanna með því að setja stig brennslu, ristunar, jafnvægis og sýrni framan á pokann. Þegar kom að smíði nýs vefs var auðvelt að leggja áherslu á litríkar og skemmtilegar vörur Te & Kaffis þökk sé ótrúlega stóru og fallegu safni af myndum sem við höfðum úr að velja.
 

App fær ferska ásýnd

Við settum svip okkar á appið MODIO með nýju merki og ferskri ásýnd fyrir vef og prent. Verkefnið var einstaklega skemmtilegt þar eð MODIO er algjörlega nýtt fyrirbrigði á markaðinum. Appið gerir notendum á öllum aldri kleift að hanna og útfæra hvers kyns forynjur og furðuverur og prenta svo herlegheitin út með þrívíddarprentara. Slíkar græjur verða sífellt að-gengilegri sem kallar auðvitað á fjölbreytt markaðs- og kynningar-efni. Þar komum við til sögunnar með passlega hetjulegri hönnun í útliti og yfirbragði sem hentar þessu spennandi viðfangsefni.
 

Ársskýrsla ÁTVR

Ársskýrsla ÁTVR var unnin á vormánuðum. Sú ánægjulega staðreynd að ÁTVR varð hæst allra í Íslensku ánægjuvoginni endurspeglast í ljósmyndum skýrslunnar því viðskiptavinirnir sjálfir voru í aðalhlutverki ásamt starfsfólkinu og vínbúðunum. ÁTVR er aðili að UN Global Compact árið 2012, stærstu samtökum á sviði samfélagslegrar ábyrgðar fyrirtækja og tók skýrslan því mið af því. Ársskýrslan var fagurlega prentuð í Odda en ljósmyndirnar tók Vigfús Birgisson.

Lýsing fær nýtt útlit

Lýsing tók vorhreingerningarnar alla leið og skipti algjörlega um ásýnd í lok apríl. Fyrirtækið valdi okkur til samstarfsins og hannað var nýtt merki, útlit og umgjörð á öllu söluefni sem og húsamerkingar. Nýjar þjónustuleiðir litu dagsins ljós og þessa dagana eru þær kynntar viðskiptavinum með ýmsum hætti, meðal annars markpósti, prent- og vefmiðlum.
 
Mynd: mbl.is/Ó​mar Óskars­son
Að sameina fyrirtæki

Við fyrstu sýn virðast tölur um samruna fyrirtækja ekki vera upplífgandi. Sé hins vegar vel hugað að fjármálunum og þess gætt að markmið séu samræmd reynist aðeins eitt standa í veg fyrir að samruni gangi upp: Fyrirtækjamenning. Þessi tíðindi geta ekki annað en glatt okkur – já glatt því eins og flestir vita þá leggjum við sérstaka áherslu á góðan móral! Fyrst og fremst leggjum við þó áherslu á að við séum öll jafningjar sem vinna að sameiginlegu markmiði: Að vinna með viðskiptavinum okkar að því að ná árangri. Það er gaman! Við stefnum nú ótrauð að því að halda áfram að gera það sem við gerum best í sameiningu.
 Kíkt í Fítonblaðið

Í tilefni af sameiningu okkar kynnum við nýjan dagskrárlið: Kíkt í Fítonblaðið. Fyrsta Fítonblaðið kom út árið 2002 og var blaðið gefið út árlega í 11 ár. Tilgangurinn var m.a. sá að fá útrás fyrir sköpunargleði og hugmyndir starfsfólks en ekki síst til að skapa vettvang til að fjalla um auglýsinga- og markaðsmál og auðvitað sýna dálítið af verkefnum ársins. Þema þessa fyrsta blaðs var Nýtt Ísland en þar fengu hönnuðir frjálsar hendur við að hanna nýtt útlit fyrir Ísland. Reglurnar voru einfaldar, gera nýtt nafn og fána fyrir Ísland, enda vilja fáir heimsækja land sem nefnt er eftir ís. Hugmyndirnar voru af ýmsum toga en þær sem komu fram voru Fronce eða Frokkland, Friðland (Peaceland), Thule, Útland (Outland), EULAND, Grænland hf. og Paradís.

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
PIPAR\TBWA
Guðrúnartúni 8
105 Reykjavík
510 9000
pipar@pipar-tbwa.is
www.pipar-tbwa.is


Copyright © 2014 PIPAR\TBWA, All rights reserved.


afskrá netfang    breyta skráningu