PIPAR\TBWA
FIMMTUDAGUR

TBWA

FIMMTUDAGUR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR

#53    4. september 2014

 
Það hefur líklega ekki farið framhjá þér að það hafa orðið töluverðar breytingar hjá okkur í sumar. Slíkt tekur að sjálfsögðu alltaf tíma en nú eru allir sestir í sætin sín og rútínan getur því blessunarlega tekið við. Þessu var fagnað ærlega með góðu partíi en þar kynntum við jafnframt alþjóðlega hluta stofunnar – hið fræga TBWA. Þökk sé TBWA höfum við aðgang að samstarfs-aðilum um heim allan og spennandi verkefnum líkt og Young Bloods þar sem við munum gefa ungu fólki tækifæri á að láta ljós sitt skína. Það er engin spurning að það eru áhugaverðir tímar framundan!

Góða helgi,
starfsfólk PIPARS\TBWA


PIPAR\TBWA fögnuður


Síðastliðinn föstudag tókum við okkur til og fögnuðum samruna okkar með hinu árlega PIPAR\TBWA partíi. Okkur til mikils heiðurs mætti einn af stofnendum TBWA keðjunnar og W-ið sjálft úr nafninu, Uli Wiesendanger, ásamt forstjóra TBWA í Danmörku, Claes Rasmussen. Í stuttu ávarpi fjallaði Uli um upphafsár TBWA auk þess sem Claes sagði frá norrænu samstarfi keðjunnar og upphafi TBWA hér á Íslandi. Þá var einnig sýnt sýnishorn af nýlegum verkefnum PIPARS\TBWA og verkefnið Young Bloods var kynnt auk þess sem gestir gerðu vel við sig í mat og drykk. Takk fyrir okkur!
 
NÝ VERKEFNI PIPARS\TBWA

Frumsýning

Hér frumsýnum við nýja auglýsingu fyrir Kringluna en henni var leikstýrt af Samma og Gunna hjá TrueNorth og var tökumaður Ari Magg. Hugmyndin var sú að færa ímynd Kringlunnar aftur inn í húsið og í þær verslanir og almenningsrými sem við þekkjum sem Kringluna. Þetta er gert með örsögu sem Halldóra Geirharðsdóttir les um ferð „okkar“ í Kringluna og allt sem slíkri ferð fylgir; fólkið sem maður rekst eða rekst ekki á, atvik sem kunna að henda mann o. fl. o.fl. Við erum að sjálfsögðu hæstánægð með afraksturinn!
 


Njóttu lífsins með Stöð 2

Stöð 2 minnir rækilega á sig um þessar mundir með veglegri ímyndarauglýsingu. Þar sjáum við alls konar einstaklinga sinna ólíkum hugðarefnum sínum, fólk sem á það sameiginlegt að njóta lífsins og þar kemur Stöð 2 sterk inn, enda fjölbreytt dagskrá í boði fyrir alla fjölskylduna. PIPAR\TBWA vann auglýsinguna með ákaflega fínum hópi fagfólks, m.a. Karli R. Lilliendahl framleiðanda og Kristófer Dignus sem leikstýrði auglýsingunni. 

 


Domino's í útrás

Domino's á Íslandi gerði sér lítið fyrir og varð Domino's í Noregi um síðustu helgi þegar fyrsti staðurinn opnaði með pompi og prakt í Osló. PIPAR\TBWA kom heldur betur við sögu og teiknaði alla grafík og setti rétta tóninn fyrir Domino's í Osló. Notast var við íslenska módelið og það staðfært fyrir vini okkar í Noregi. Við erum alveg himinlifandi með útkomuna og óskum Norðmönnum til hamingju með nýja staðinn – sem er víst bara einn af mörgum sem fyrirhugaðir eru í Noregi. Vel bekomme, Norge!
 


Ferskleiki Kristals

Ný auglýsingaherferð fyrir Egils Kristal fór í loftið vorið 2014. Herferðin samanstendur meðal annars af sjónvarps-, prent- og vefauglýsingum og sýnir nokkurs konar kolsýrða tilveru. Kolsýran umvefur allt og undirstrikar ferskleika vörunnar, auk þess sem hún vísar í hið sígilda slagorð, Það sést hverjir drekka Kristal. Auglýsingin var unnin í samvinnu við Pegasus og það var Reynir Lyngdal sem leikstýrði. 

 

Uli Wiesendanger og Claes Rasmussen

Arfleifð Uli Wiesendanger

París, 1970. Fjórir menn, hver frá sínu landi og með sitt sérsvið, ákváðu að stofna alþjóðlega auglýsingastofu til að bregðast við aðkallandi vandamáli; á þeim tíma áttu evrópskar stofur í mesta basli við að opna útibú í öðrum löndum vegna smæðar sinnar, tungumálaörðugleika og skilningsleysi á menningu annarra landa en þeirra eigin. Þetta voru Bandaríkjamaðurinn Tragos, Frakkinn Bonnange, Ítalinn Ajroldi og Svisslendingurinn Wiesendanger sem varð hönnunarstjóri hins nýja fyrirtækis. Stofan varð fljótt þekkt fyrir að fara óhefðbundnar leiðir og vinna náið með viðskiptavinum sínum eða eins og einn kúnni lýsti því; „Mitt fyrirtæki skiptir TBWA jafn miklu máli og þeirra eigið.“

Þessi kúnni var Absolut Vodka en þökk sé TBWA hefur herferðin sem sett var af stað árið 1981 slegið met fyrir að ganga óslitið lengst allra slíkra herferða. Hugmyndin var einföld, áherslan var lögð á lögun flöskunnar og allar auglýsingar innihéldu aðeins tvö orð, Absolut og annað sem skipt var út reglulega: Absolut perfection. Absolut clarity. Absolut heaven. Mismunandi útgáfur af þessari uppsetningu eru nú orðin mörg þúsund talsins. Á næstu 15 árum eftir að herferðin fór af stað jókst sala á Absolut Vodka um 14.900% en árið 1995 var Absolut Vodka kosið inn í Marketing Hall of Fame – sama ár og annar þekktur drykkur sem ber nafnið Coca Cola.
 


Nýtt app frá Instagram

Nýtt app frá Instagram, Hyperlapse, gerir fólki kleift að taka upp „time-lapse“, stutt myndbönd sem eru svo hraðað töluvert. Fyrirtæki hafa nú þegar tekið sig til og nýtt forritið í markaðsstarf sitt, þótt setja megi spurningamerki við hversu áhugaverð þau eru – það er ekki laust við að tónlistina vanti upp á til að skapa hughrif. Hyperlapse er hins vegar merkilegt fyrirbæri fyrir þær sakir að með því er hægt að framleiða myndbönd sem hristast ekki þó tekið sé upp á ferð, sem er tækni sem hefur hingað til verið rándýr. Forritið gerir því hverjum sem er það fært að taka upp myndbönd sem eru í tiltölulega miklum gæðum.