PIPAR\TBWA
FIMMTUDAGUR

AÐ LÁTA GOTT AF SÉR LEIÐA

FIMMTUDAGUR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR

#54    2. október 2014

 
Það er eitthvað afar ljúft við haustið. Það er aðeins farið að dimma og tími kominn á þykkar peysur og kertaljós. Rútínan hefst með skólasetningum og nýjum verkefnum á meðan laufin þyrlast um göturnar. Síðastliðinn áratug hefur haustið smám saman einnig orðið að tíma góðgerðarmála en það veitir okkur mikilvægt tækifæri til þess að láta gott af okkur leiða. Í sameiningu höfum við aðstoðað við söfnunarátök líkt og Á allra vörum, Bláan apríl og bakvarðasveit Landsbjargar, sem og jóla- og páskasafnanir Hjálparstarfs kirkjunnar. Nú síðast unnum við með Unicef að degi rauða nefsins sem tókst ótrúlega vel og munum við halda áfram að vinna að álíka verkefnum í framtíðinni. Það er nefnilega svo gott að gefa!


Góða helgi,
starfsfólk PIPARS\TBWA


Góðverk TBWA\SMP


TBWA\SMP í Fillippseyjum setti nýlega af stað fyrsta fljótandi auglýsingaskilti í heiminum. Þetta fegrunar- og hreinsunarverkefni, sem unnið var fyrir snyrtivörufyrirtækið Shokubutsu Hana og ána Pasig, er bæði ætlað að koma í veg fyrir að fólk hendi rusli í ána sem og að hreinsa hana en áin hefur verið líffræðilega dauð í 25 ár. Skiltið Clean river soon, er gert úr plöntum sem eru færar um að soga í sig eiturefni en slíkt kerfi getur hreinsað um 2–8 þúsund lítra vatns á hverjum degi. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem TBWA\SMP hefur látið sig umhverfi sitt varða því stofan fékk verðlaun fyrir herferð sína fyrir Boysen KNOxOUT 2012. Listamenn voru þá fengnir til að skapa listaverk úr málningu sem hreinsar andrúmsloftið en áhrifin voru þau sömu og ef 8.000 trjám hefði verið plantað.
 
NÝ VERKEFNI PIPARS\TBWA
Klukkað til góðra verka

Það var okkur sönn ánægja að leggja hönd á plóg á degi rauða nefsins, árlegri söfnun Unicef á Íslandi. Í ár var markmiðið að fjölga heimsforeldrum með því að fá núverandi heimsforeldra til að klukka vini og kunningja og skora þannig á þá að slást í hópinn. Hægt var að klukka í gegnum Facebook, en einnig var minnt á daginn með auglýsingum í öðrum miðlum. Árangurinn lét ekki á sér standa enda fór söfnunin fram úr björtustu vonum en um 3000 manns bættust í hóp heimsforeldra Unicef á meðan á átakinu stóð.
 

Áhersla á árangur

V Sport frá Ölgerðinni kom nýlega aftur á markað í nýrri og endurbættri útgáfu. Á sama tíma kynnti Ölgerðin annan íþróttadrykk til leiks, V Amínó, en drykkirnir innihalda efni sem eru nauðsynleg líkamanum, svo sem vítamín, steinefni og BCAA amínósýrur. Áhersla var lögð á þessi bætiefni við hönnun umbúðanna auk þess sem þægindi íþróttafólks voru auðvitað einnig höfð að leiðarljósi en flaskan er með stúttappa og fer vel í hendi. Þessir svalandi drykkir hjálpa íþróttafólki að einbeita sér að árangrinum. 
 

Öflugasta nettengingin

Snemma á árinu var ráðist í herferð fyrir Ljósleiðarann og Gagnaveitu Reykjavíkur. Þar var fjölskylda í aðalhlutverki sem átti í erfiðleikum með nettenginguna hjá sér. Nú er sama fjölskylda komin aftur á skjáinn í nýrri herferð þar sem fjölskyldumeðlimir reyna á táknrænan hátt að sannfæra heimilisföðurinn um kosti þess að skipta út koparþræðinum og fá sér Ljósleiðarann – enda um að ræða öflugustu nettengingu sem völ er á á Íslandi. Guðmundur Þór Kárason leikstýrði nýju sjónvarpsauglýsingunum.
 

Ný heimasíða Góu

Nýlega var ný og glæsileg heimasíða Góu sett í loftið en þar er að finna yfirlit yfir allar þær gómsætu vörur sem Góa býður upp á. PIPAR\TBWA sá um hönnun vefsins en þar er hægt að leggja inn pöntun, nálgast kynningarefni í góðri upplausn og sækja um styrki. Það var ekki alltaf auðvelt að hafa allt þetta nammi fyrir augunum meðan á framkvæmd stóð, enda erum við annálaðir nammigrísir, en við því er aðeins eins lausn: að næla sér í smá gotterí!

 

Meistarar í jafnvægi

Kristall styður dyggilega við bakið á íslenska landsliðinu sem keppir á Evrópumótinu í hópfimleikum, sem fram fer í Laugardalshöll dagana 15.–18. október. Fimleikar ganga auðvitað fyrst og fremst út á styrk og liðleika og við vildum að þetta tvennt kristallaðist í sjónvarps- og prentauglýsingum. Við fengum átta stelpur úr landsliðinu til að taka nokkur stökk fyrir framan myndavélina en það var hann Guðmundur Þór Kárason sem var á bak við linsuna. Íslendingum hefur farnast vel á hópfimleikamótum síðustu ára og því vonum við liðið nái frábærum árangri á heimavelli.
 

Gamla apótekið opnað

Nýlega voru gerðar gagngerar endurbætur á lyfjabúðinni við Melhaga. Búðin fékk nafnið Gamla apótekið en fyrirmynd að innréttingum og stíl var sótt í innréttingar Vesturbæjarapóteks sem starfrækt var á þessum stað áratugum saman. Allt auglýsinga- og kynningarefni tók einnig mið af gömlum stíl. Vörumerkið Gamla apótekið er löngu orðið vel þekkt fyrir vörur sem eru framleiddar eftir gömlum uppskriftum og hefð frá því um miðja síðustu öld. Í hinu nýja Gamla apóteki fá framleiðsluvörur Gamla apóteksins sérstakan heiðurssess.