PIPAR\TBWA
FIMMTUDAGUR

NÝSKÖPUN

FIMMTUDAGUR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR

#55    6. nóvember 2014

 
Vandinn sem auglýsendur standa frammi fyrir í dag er eins og flestir vita sá að með tilkomu nýrrar tækni og miðla verður æ flóknara að ná til rétts markhóps fyrir hverja vöru. Sjónvarp, netborðar, útvarp, blogg, öpp. Snjallsímar, netið, fartölvur, spjaldtölvur. Úrvalið og fjölbreytnin eykst með hverju árinu sem líður. Það er því ljóst að kapphlaupið sem við stöndum frammi fyrir snýst í auknum mæli um nýsköpun og nýstárlegar hugmyndir sem vekja athygli. Hér á PIPAR\TBWA erum við ávallt opin fyrir nýjum leiðum sem gera viðskiptavinum okkar kleift að ná til og eiga farsæl samskipti við sína viðskiptavini. Hvernig getum við annars náð hæstu hæðum ef við setjum okkur ekki metnaðarfull markmið?


Góða helgi,
starfsfólk PIPARS\TBWA


Félagsleg áhrif


Á næstu árum mun verða umbylting í bransanum þegar fyrirtæki fara almennt að sjá hag sinn í því að taka ábyrgð á umhverfi sínu og samfélagi. Þetta er mat Lee Clow, framkvæmda-stjóra Media Arts hjá TBWA\ Worldwide, en hann telur að fyrirtæki muni í auknari mæli sinna markaðssetningu í þeim tilgangi að láta gott af sér leiða. Áhrifa þessa gætir í nýrri herferð fyrir Conservation International þar sem náttúran fær sína eigin rödd og útskýrir að hún muni lifa löngu eftir að við erum horfin á braut. Við þurfum ekki að bjarga jörðinni, við þurfum að bjarga okkur. Að vera ábyrgir samfélagsþegnar verður því að verða hluti af hegðun vörumerkja.
 


Nýjung frá Helsinki


Vinir okkar í TBWA Helsinki settu nýlega af stað nýstárlegt verkefni í formi sjónvarpsþáttaraðar í samvinnu við FremantleMedia, sem framleitt hefur þætti líkt og American Idol og America's Got Talent. Þáttaröðin, sem gerist á auglýsingastofu, er skrifuð og leikin en auglýsingarnar sem stofan framleiðir eru alvöru herferðir fyrir raunverulega viðskiptavini. Herferðirnar birtast svo fyrir utan þættina sjálfa en þar með blandast saman raunveruleiki og skáldskapur. Fyrir þetta verkefni tókst TBWA Helsinki að fá 10 af 15 stærstu auglýsendum í Finnlandi til þess að taka þátt en af þeim voru aðeins 3 viðskiptavinir TBWA Helsinki fyrir. Þetta áhugaverða verkefni hefur nú þegar verið selt til annarra landa enda sameinar það skemmtun og auglýsingamennsku á þann hátt að allir sem koma að verkefninu græða.
 


Nýmóðins samskipti


Hvernig fá fyrirtæki viðskiptavini sína til þess að eiga í samskiptum við sig og auka þar með sýnileika sinn? Ef marka má könnun stafrænu auglýsingastofunnar Moosylvania yfir þau 50 fyrirtæki sem neytendur elska mest, þá felst galdurinn í því að nýta samfélagsmiðlana til þess að tala við fólk, ekki til þeirra. Það merkilega var að fyrirtæki líkt og Pizza Hut og Oreo sem náðu ekki á listann í fyrra sinn, náðu hins vegar sæti þegar könnunin var endurtekin aðeins 9 mánuðum seinna. Það sem þessi fyrirtæki eiga sameiginlegt er að þau settu sér það sem markmið að stofna til persónulegs vinskapar við unga neytendur á samfélagsmiðlum og lét árangurinn ekki á sér standa.
 
NÝ VERKEFNI PIPARS\TBWA

Ástarævintýri á netinu

Á Facebook-síðu Egils Appelsín spjallar Appelsín við vini sína og kunningja og deilir með þeim lífi sínu, líkt og til er ætlast á samfélagsmiðlum. Eftir að hafa skráð sig í samband með Malti tilkynnti parið með stolti að von væri á fjölgun í fjölskyldunni en barnið kom svo í heiminn 20. október síðastliðinn, eins og víðfrægt er orðið í fjölmiðlum. Öll sú athygli hefur þó ekki farið vel ofan í bitra, yngra systkinið, Grape.
 


Hótel Húsafell rís

Sumarið 2015 rís Hótel Húsafell, nýtt og glæsilegt hótel, í hjarta íslenskrar náttúru. PIPAR\TBWA sá um hönnun markaðsefnis en til að mynda var útbúið nýtt merki, sem og bæklingur og kynningarbás fyrir ráðstefnuna Vestnorden Travel Mart. Síðast en ekki síst var vefur hótelsins settur í loftið en þar var sérstök áhersla lögð á ævintýralega upplifun og fagra náttúru Húsafells.
 


Floridana – Lifðu vel

Nýlega var frumsýnd ný sjónvarpsauglýsing fyrir Floridana af því tilefni að þessir ljúffengu safar eru komnir í nýjar umbúðir. Við gerð auglýsingarinnar var litagleði safanna, sem og hreysti og vellíðan, í hávegum höfð enda eru safarnir bæði bragðgóðir sem og stútfullir af vítamínum sem eru nauðsynleg í dagsins önn. Það var okkar eigin Björn Jónsson sem lagði línurnar að verkefninu í upphafi en hugmyndin var unnin áfram með Gus Óla. Guðmundur Þór Kárason leikstýrði svo upptökunum af stakri snilld.
 


FM957 – #FM4LIFE

Á síðasta degi októbermánaðar settum við í loftið ímyndarherferð fyrir FM957. Við fengum til liðs við okkur nokkrar af lífsreyndustu fyrirsætum landsins til að sýna að það er hægt að hlusta á og hafa gaman af topp tónlist á hvaða aldri sem er, enda vitum við öll að aldur er afstæður. Það er heldur ekki loku fyrir það skotið að Nicki Minaj verði sjálf enn að flytja Anaconda þegar hún er komin á níræðisaldur. Eins og þessar auglýsingar bera með sér skemmtum við okkur stórkostlega við gerð þessara auglýsinga og þökkum FM957 fyrir frábært samstarf.
 


Markaðsverðlaun ÍMARK 2014


Markaðsverðlaun ÍMARK 2014, samtaka markaðsfólks á Íslandi, voru afhent í dag á Hótel Hilton þar sem forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, veitti markaðsmanni og markaðsfyrirtæki ársins 2014 verðlaunin. Fyrirtækin fimm sem voru tilnefnd til verðlaunanna Markaðsfyrirtæki ársins voru Ölgerðin, Össur, Íslandsbanki, Landsbankinn og Nova. Við óskum viðskiptavinum okkar hjá Ölgerðinni innilega til hamingju með aðra tilnefningu sína en fyrirtækið var jafnframt tilnefnt sem markaðsfyrirtæki ársins árið 2012.

Fulltrúar markaðsfyrirtækis ársins 2013, Domino's, voru að sjálfsögðu á staðnum og framkvæmdastjóri Domino's, Birg­ir Örn Birgisson, hélt tölu. Meðal þess sem kom fram var að Íslendingum þykja pizzur með eindæmum góðar, enda hefur salan hjá Domino's aukist jafnt og þétt undanfarin ár. Birgir minntist einnig á hvernig Domino's fór í útrás á árinu, en nú þegar hafa tveir nýir staðir verið opnaðir í Osló og stefnt er að því að opna fleiri staði á næstu misserum. Af því tilefni létum við útbúa lítið myndband fyrir verðlaunaafhendinguna þar sem Norðmaðurinn Kjell Harald fer yfir viðburðaríkt ár Domino's.
 
Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
PIPAR\TBWA
Guðrúnartúni 8
105 Reykjavík
510 9000
pipar@pipar-tbwa.is
www.pipar-tbwa.is


Copyright © 2014 PIPAR\TBWA, All rights reserved.


afskrá netfang    breyta skráningu