PIPAR\TBWA
FIMMTUDAGUR

GLEÐILEGA HÁTÍÐ

FIMMTUDAGUR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR

#56    4. desember 2014

 
Hvað þarft þú að afreka fyrir jólin? Framundan er einn annasamasti tími ársins, ekki síst fyrir okkur auglýsinga- og markaðsfólkið sem erum löngu byrjuð að plana hátíðarnar en eigum lokasprettinn enn eftir. Verkefnalistinn heimafyrir er ekki síður langur, það þarf að þrífa og skreyta, kaupa jólagjafir, baka smákökur, undirbúa jólamáltíðina og jólaboðið og komast í jólaskapið. Og þó. Jólin koma víst þó svo að allt sé ekki fullkomið og kannski getum við þess í stað rifjað upp hinn raunveruleika boðskap jólanna, gjafmildi og kærleika. Látið gott af okkur leiða og átt gleðileg jól með ástvinum okkar.

 

Gleðilega hátíð,
starfsfólk PIPARS\TBWA


Auglýsing ársins


Besta auglýsing ársins að mati Adweek verður senn ársgömul. Hugmyndin að herferð Newcastle Brown Ale, „If we made it“, kom til af því tilefni að fyrirtækið hafði ekki efni á að birta Super Bowl-auglýsingu. Þess í stað gekk herferðin út á myndband með leikkonunni Anna Kendrick þar sem hún hraunaði yfir fyrirtækið fyrir að hafa lofað henni slíkri auglýsingu en hætt við á síðustu stundu. Rúmlega tíu myndbönd voru framleidd og birt á netinu þar sem farið var yfir ferli auglýsingarinnar sem aldrei varð. Besta herferð ársins snérist því um að það var ekki farið af stað með neina herferð til að byrja með og náði fljúgandi ferð með því að gera almennt grín að bransanum og Super Bowl-æðinu í heild.


Jólaauglýsingar 2014 


Nú er hátíð í bæ! Þá eigum við ekki aðeins við jólin heldur þennan yndislega árstíma þegar vinsældakeppnin um bestu jólauglýsinguna hefst. John Lewis virtist í byrjun vera ókrýndur sigurvegari þegar sagan af vináttu ungs stráks við mörgæsina sína, Monty the penguin, var birt og tókst að bræða hjörtu hinna gallhörðustu. Keppninni var þó ekki lokið því Sainsbury's birti þar næst WW1 centenary, auglýsingu sem segir sögu hins fræga atviks þegar Bretar og Þjóðverjar lögðu niður vopn sín á jóladag í fyrri heimsstyrjöld og spiluðu vinalegan fótboltaleik. Það sem vinsælustu jólaauglýsingar hvers árs eiga nefnilega sameiginlegt er að þær eru tengdar við góðgerðarmálefni og er ætlað að hafa áhrif á hjartastrengina í tilefni hátíðanna.
 


Verslað á Instagram


Þrátt fyrir að samfélagsmiðlar séu góð leið til að kynna vörur og þjónustu hefur þó hitt reynst erfiðara, að gera notendum það mögulegt að versla þaðan beint. Það er t.a.m. erfitt á Instagram sem leyfir ekki að tenglum sé deilt með myndunum sem þar eru birtar. Like2Buy er forrit sem gerir tilraun til að leysa það með því að gera notendum kleift að smella á tengilinn sem fylgir prófíl hvers fyrirtækis og færast þar með yfir á eins konar gervi-Instagram. Þar fyrirfinnst varan og bókunarkerfi svo notandinn geti verslað samstundis. Forritið er nú þegar í notkun hjá bandarískum verslunarrisum líkt og Nordstrom og Gap. 
 
NÝ VERKEFNI PIPARS\TBWA

Safnað fyrir mýkri heimi

Jólapeysuátak Barnaheilla er farið af stað af fullum krafti. Fjöldi þjóðþekktra einstaklinga ætlar að klæðast jólapeysum við ýmis tilefni, en bara ef við erum dugleg að heita á þau. Meðal annars ætlar Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, að tilkynna vaxtaákvörðun í desember í jólapeysu og Vilborg Arna Gissurardóttir ætlar að gera sér lítið fyrir og ganga aftur á bak upp á Esju í jólapeysu. Í ár er safnað fyrir Vináttu, forvarnarverkefni Barnaheilla gegn einelti í leikskólum, þangað sem gjarnan má rekja rætur eineltis.
 


Alls, alls ekki Appelsín

Egils Grape hefur heldur átt undir högg að sækja og stóð jafnvel til að taka það af markaði. Eftir talsverð heilabrot var afráðið að snúa stöðunni upp í styrkleika, persónugera drykkinn og gæða karaktereinkennum sem eru um leið lýsandi fyrir bragðið. Þótt Grape þykist sátt í eigin flösku brýst biturleikinn fram og minnimáttarkenndin gagnvart „fullkomna systkininu“ Appelsíni er vandræðalega augljós. Og ekki minnkar biturðin í desember þegar öll athyglin fer á hina sívinsælu jólablöndu.
 


Olíssveinar til byggða

Olís vildi leggja áherslu á notalega stemningu í markaðsefni fyrir þessi jól. Af því tilefni hafa stöðvarnar verið skreyttar með aðventuljósum og „Olíssveinarnir“ eru tilbúnir í slaginn. Þeir Bensíndælir, Þurrkublaðaskiptir, Skyndibitaskenkir, Húddskellir, Gluggafægir og allir hinir sjá til þess í sameiningu að tankurinn verði ekki tómur þessi jólin, að enginn fari svangur út í umferðina og að bílstjórar horfi bjartsýnir fram á veginn. Olíssveinarnir munu taka sérstaklega vel á móti fólki allan desember.

 


Jólaútgáfa af Brennivíni

Í haust hölluðum við okkur hóflega að einni elstu flösku landsins, Brennivíninu. Afrakstur þeirrar vinnu mátti að nokkru leyti sjá á nýafstaðinni Iceland Airwaves-hátíð þar sem valdir barir voru merktir og skreyttir vörumerkinu og um leið boðið upp á ljúffenga Brennivíns-kokteila. Þá kom út á dögunum ný jólaútgáfa af Brennivíni í fagurrauðum jólalit. Í nýja víninu má, auk kúmens og annarra kryddtegunda, greina milda tóna sérrís og vanillu sem ætti að fullkomna hina íslensku jólastemningu. Gleðileg jól!

 


Gömul og góð frá starfsfólki 


Árið 2009 leit dagsins ljós skemmtilegur grænn froskur. Hann var hlýr og hress og skaust fljótt upp á stjörnuhimininn. Í hvert sinn sem froskurinn birtist sagði hann frá frábærri þjónustu eða vöru sem fékkst hjá Vodafone. Froskurinn sæti þroskaðist með hverju verkefni og varð færari og liprari í hreyfingum eftir því sem á leið og eignaðist meira að segja góðan froskavin sem kom stundum fram með honum. Frasar frosksins vinsæla límdust í umræðuna. Allir muna eftir „essasú?“. Þegar leið að jólum hlakkaði Vodafone froskurinn til eins og allir aðrir. Hann var mikil tilfinningavera og tengdi snjó að sjálfsögðu við jólin. Hver gerir það ekki?
 
Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
PIPAR\TBWA
Guðrúnartúni 8
105 Reykjavík
510 9000
pipar@pipar-tbwa.is
www.pipar-tbwa.is


Copyright © 2014 PIPAR\TBWA, All rights reserved.


afskrá netfang    breyta skráningu