PIPAR\TBWA
FIMMTUDAGUR

2015

FIMMTUDAGUR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR

#57    8. janúar 2015

 
Á þessum tíma árs er óhjákvæmilegt að fólk staldri við, líti til baka og taki stöðuna á því hversu vel hefur tekist til á árinu sem var að ljúka. Hvort sem vel hefur gengið eða illa er hægt að hugga sig við það að nýtt ár er runnið upp og að alltaf sé hægt að setjast niður, setja sér ný markmið og horfa bjartsýnn til framtíðar. Á auglýsingastofu er þetta gert með því að skoða efnið sem stóð upp úr á síðastliðnu ári og pæla í því hvaða þróun og stefnur munu lita nýja árið. Munum við öll ganga með Google Glass að ári liðnu? Getum við hvergi hreyft okkur án þess að tæknin fylgi okkur eftir hvert fótmál? Aðeins tíminn mun leiða það í ljós.

 

Góða helgi,
starfsfólk PIPARS\TBWA


Fréttir af Facebook


Janúar markar upphaf nýrrar stefnu á Facebook sem snýr að því að notendur sjái mestmegnis efni sem þeir hafa áhuga á í fréttaveitunni sinni. Það þýðir að færslur sem snúast aðeins um það að selja vörur eiga ekki lengur upp á pallborðið en þess í stað verða færslur sem fólk hefur gagn og/eða gaman af mun líklegri til þess að ná til notenda. Þessar breytingar koma á hæla þess að æ erfiðara er nú að ná til Facebook notenda án þess að borgað sé fyrir. Facebook er hins vegar einnig að bæta við frábærum fídus, svokölluðum „call to action“ hnappi, sem gerir fyrirtækjum kleift að bjóða upp á bókanir, heimsækja vefsíðu þeirra, gerast áskrifandi eða nota smáforrit með aðeins einum smelli.
 Það besta frá TBWA 


Í ár var fyrsti sigurvegari Lee verðlaunanna tilkynntur. Verðlaunin eru hugarfóstur Lee Clow, stjórnarformanns og framkvæmdastjóra TBWA\Worldwide, sem setti þau á laggirnar innan TBWA-keðjunnar um heim allan í þeim tilgangi að hvetja fólk til frábærra verka. Verkefni sem komu til greina voru til að mynda McDonalds1000 miles of Luca og Nissan og AmazonSigurvegarinn að þessu sinni var hins vegar Whybin\TBWA í Sidney sem framleiddi hraðbanka skreytta fyrir Gay Pride fyrir ANZ Bank, samstarfsaðila göngunnar þar í landi. Verkefnið vakti mikla og jákvæða athygli um heim allan og hlaut því verðlaunin, gyllta björninn, að þessu sinni.
 
 


Framtíð auglýsinga


Aðalsöguhetjan hleypur framhjá endalausum búðargluggum, ótal auglýsingaskiltum og heldur áfram leið sinni sem liggur inn á íþróttavöll. Á hverjum einasta stað blasa við henni auglýsingar sem eru sérsniðnar að henni. Þetta atriði úr kvikmynd gæti senn orðið að senu úr okkar eigin lífi því bráðum verður mögulegt að senda okkur rafræn skilaboð byggð á áhugamálum okkar og neytendahegðun hvert sem við förum. Enginn verður maður með mönnum nema taka reglulega selfie úr dróna og eiga nýjustu gagnvirku gleraugun/úrið sem geymir allar þær upplýsingar sem við gætum nokkurn tímann þurft á að halda. Mörkin á milli útgefins efnis og auglýsinga eru orðin að engu því allt sem þú lest eða horfir á er styrkt af vöru eða fyrirtæki. Framtíðin er núna.
 
NÝ VERKEFNI PIPARS\TBWA

Íslandsforeldri

Haustið 2014 leitaði Fjölskylduhjálp Íslands eftir aðstoð PIPARS\TBWA vegna söfnunarátaks fyrir verkefnið Íslandsforeldri. Barnafjölskyldum sem leita eftir mataraðstoð Fjölskylduhjálpar hefur fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár en í þeim matargjöfum hefur hingað til ekki verið svigrúm fyrir dýrari matvöru eins og fisk, ávexti og grænmeti. Íslandsforeldrar borga fasta styrktarupphæð að eigin vali mánaðarlega og fer sá peningur eingöngu í þessa tegund matvöru til að tryggja bágstöddum börnum á Íslandi fjölbreyttari fæðu og nauðsynleg næringarefni. Valinkunnur hópur íslenskra leikara gaf vinnu sína til verkefnisins.
 


Nýir heimar

Nine Worlds byggir á hinum níu heimum goðafræðinnar sem sameinaðir eru af trénu Aski Yggdrasils. Sá sem ferðast um þessa heima upplifir allt það sem land íss og elda hefur upp á að bjóða og meira til. Nine Worlds býður upp á einstakar og sérsniðnar ferðir um hraun, jökla og fossa með margvíslegri og ógleymanlegri afþreyingu. Hver og ein ferð er stíluð inn á óskir viðskiptavinarins sem jafnframt nýtur persónulegrar þjónustu allan sólarhringinn á meðan á ferðinni stendur. Mikil áhersla er lögð á fallegt myndefni í öllu kynningarefni fyrirtækisins en nafn og ásýnd fyrirtækisins var unnin af okkur en vefurinn af Skapalóni.
 


Það er svo gott að gefa

Eins mikið og við hlökkum til jólanna og allra hefðanna sem okkur þykir svo vænt um erum við flest meðvituð um að það eiga því miður ekki allir nóg til þess að halda gleðileg jól. Í tilefni hátíðanna var því ákveðið að bjóða upp á Aðventufötur á KFC þar sem 10% af söluandvirði þeirra rann til Samhjálpar, Mæðrastyrksnefndar og Fjölskylduhjálpar Íslands fyrir jólin. Þann 22. desember afhenti Helgi Vilhjálmsson, eigandi KFC á Íslandi, hverju félagi fyrir sig 507.000 krónur. Góð áminning um að margt smátt gerir eitt stórt.

 


Nýr svipur á innheimtu

Inkasso er framsækið innheimtufyrirtæki sem tók til starfa 2010 og sinnir nú innheimtu fyrir mörg af stærstu fyrirtækjum landsins, stofnanir og einstaklinga. Frá upphafi hefur áhersla verið lögð á að bjóða upp á framúrskarandi þjónustu sem er gjaldfrjáls fyrir viðskiptavini og sveigjanleg fyrir greiðendur krafna. Í nýrri auglýsingaherferð og slagorði eru svipbrigði í aðalhlutverki, þar sem sérstaklega er dregin fram ánægja þeirra viðskiptavina sem þegar eru í viðskiptum, en ekki síður hin mannlega nálgun sem Inkasso leggur sig fram um í innheimtumálum.

 


Gamalt og gott slagorð frá starfsfólki 


Fyrir rúmum tveimur áratugum var Sláturfélag Suðurlands að hefja mikla sókn á markaði og byggja upp ímynd sína sem eitt mesta og fremsta matvælafyrirtæki landsins. Okkar eigin Helgi Helgason fékk þá það verkefni að smíða slagorð fyrir fyrirtækið sem átti að vera stutt og hnitmiðað og minna á gæðin. „Löngum hefur verið sú kenning á lofti í bransanum að slagorð eigi helst að vera bara þrjú orð, þótt ég sé ekki endilega sammála því. Innihaldið skiptir meira máli“, segir Helgi en niðurstaðan varð engu að síður þessi þekktu þrjú orð, fremstir fyrir bragðið.
 
Samkvæmt Helga var markmiðið alltaf að forðast klisjuna „bestir“ en „fremstir“ þótti hafa á sér hóflegra yfirbragð. Gæðastimplinum var þannig laumað inn í orðasamband sem er vel þekkt og á einkar vel við hér þegar um matvæli er að ræða, sbr. „bragðið“. Fjölmargar tillögur voru gerðar en þessi tillaga hafði legið á blaði, ásamt öðrum, fyrir framan fólk í nokkra daga. „Svona hlutir þurfa að síast inn en afar sjaldgæft er að slagorð (eða lógó) slái í gegn í fyrstu atrennu eða við fyrstu sýn. Þau sem þurfa sinn vitjunartíma, ef þannig má orða það, eru líka á endanum þau sem endast best.“ Slagorðið fremstir fyrir bragðið hefur jú verið í notkun í yfir tvo áratugi og er orðið eins og sjálfsagður hluti af merki SS.
Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
PIPAR\TBWA
Guðrúnartúni 8
105 Reykjavík
510 9000
pipar@pipar-tbwa.is
www.pipar-tbwa.is


Copyright © 2015 PIPAR\TBWA, All rights reserved.


afskrá netfang    breyta skráningu