PIPAR\TBWA
FIMMTUDAGUR

Super Bowl 2015

FIMMTUDAGUR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR

#58    5. febrúar 2015

 
Super Bowl er hátíð fyrir auglýsendur enda setja fyrirtæki miklar fjárhæðir í að vekja athygli fyrir áhugaverðustu auglýsingarnar ár hvert. Að leggja slíka áherslu á eina auglýsingu vekur þó einnig gagnrýni og vangaveltur um hvort að slíkt sé réttlætanlegt, sérstaklega þegar þróunin, bæði hér heima og erlendis, sýnir að stafrænir miðlar verða mikilvægari með hverju árinu sem líður. Samkvæmt samantekt birtingadeildar okkar, PIPAR\MEDIA, hafa netmiðlar nú þegar tekið fram úr sjónvarps-auglýsingum og gætu einnig farið fram úr prenti að stuttum tíma liðnum. Góð herferð tekur þó að sjálfsögðu ávallt tillit til þess hvar markhópinn er að finna.

 

Góða helgi,
starfsfólk PIPARS\TBWA


Hvert er markmiðið?


Þegar áhorfendur bíða þess að lokakvöld Super Bowl renni upp gera þeir ráð fyrir að viðburðurinn í heild sinni – úrslitaleikurinn sjálfur, atriðið í hálfleik og sjónvarps-auglýsingarnar í hléi – sé allt til þess gert að skemmta þeim. Það er hins vegar sitt hvort, að vekja athygli og skemmta fólki, og að fá það til þess að versla vöruna þína eða þjónustu. Ný fyrirtæki virðast helst geta nýtt Super Bowl til þess að vekja rækilega á sér athygli og afla sér viðskipta á meðan rótgróin fyrirtæki eiga erfitt með að breyta viðhorfi fólks til vöru eða þjónustu með einni slíkri auglýsingu. Í þeim tilvikum er mun vænlegra til árangurs að fjárfesta í stærri herferð sem fer jafnframt fram á öðrum miðlum til þess að næla sér í aukin viðskipti. 
 


Verðmæti Super Bowl 


Síðastliðið sunnudagskvöld fór fram einn stærsti íþrótta- og auglýsingaviðburður í heimi þegar úrslit Super Bowl urðu ljós í USA. Að þessu sinni var verðmiðinn á 30 sekúndna auglýsingaplássi heilar 4,5 milljónir USD en sitt sýnist hverjum um hvort það sé þess virði að setja svo háa upphæð í eina auglýsingu. Rannsóknir benda til þess að jákvætt umtal eftir slíka auglýsingu lifi ekki lengur en í eina eða tvær vikur í mesta lagi og eins og AdWeek bendir á þá er ýmislegt annað hægt að gera við slíka upphæð. Sé sú ákvörðun tekin að splæsa í auglýsingu á Super Bowl er skýrt að fyrirtæki leggja æ meiri áherslu á að nýta stafræna miðla til þess að styðja við birtinguna bæði fyrir og eftir að hún fer í loftið í von um að ná tilætluðum árangri.
 
 


Fréttir á Snapchat

 
Snapchat gekk upphaflega út á einfalda hugmynd: Að fólk gæti sent myndir á milli sín sem myndu hverfa eftir nokkrar sekúndur. Myndbönd fylgdu í kjölfarið sem og My Stories, þar sem hægt var að senda út lengri skilaboð til fjölda manns. Stærsta breytingin á Snapchat hefur nú hins vegar tekið gildi en það er viðbótin Discover sem gerir notendum kleift að fylgjast með nýjustu fréttum frá fjölmiðlum líkt og CNN. Discover er hannað með það í huga að ritstjórar og listamenn fái tækifæri til að velja efnið sem er deilt á þann hátt sem þeim hentar og er útlitið og framsetningin því eins og best er á kosið. Í kjölfarið munu auglýsendur geta keypt auglýsingapláss hjá hverjum fjölmiðli fyrir sig.
 
NÝ VERKEFNI PIPARS\TBWA

Lifðu í núllinu

Við sameiningu 365 miðla ehf. og Tals undir merkjum 365, varð til nýtt og öflugt fjölmiðlunar- og fjarskiptafyrirtæki sem á sér ekki hliðstæðu á Íslandi. Sameiningin hefur marga spennandi kosti í för með sér fyrir viðskiptavini eins og fjölbreyttara vöruúrval, betri þjónustu og meiri hagkvæmni. Auk alls sem nýrri ásýnd fylgir gerðum við auglýsingar fyrir fyrstu „vöruna“. Sammi og Gunni leikstýrðu og Þorvaldur Davíð Kristjánsson lék aðalhlutverk.
 


Ásýnd Úrvals Útsýnar

Við erum ofsalega stolt og ánægð með hvernig til hefur tekist með endurmörkun Úrvals Útsýnar. Allt auglýsingaefni var nánast endurhannað frá grunni og hugmyndafræðin tekin til gagngerrar endurskoðunar. Útkoman er að okkar mati stórfín enda rímar útlitið og skilaboðin vel við þá hugsun að Úrval Útsýn sé fyrsta flokks ferðaskrifstofa sem sé leiðandi á þeim markaði sem hún starfar. Við þökkum Úrvali Útsýn fyrir frábært samstarf.
 


Domino's snappar

Domino's hóf viðveru sína á Snapchat með pompi og prakt með myndbandi sem dreift var á samfélagsmiðlum, í vefborðum og sjónvarpi til að hvetja fólk til þess að gerast fylgjendur dominosisland enda væri til mikils að „snappa“! Fyrsta snappið var sent út af grínhópnum Punktinum en Snapchat fylgjendur fengu þá 60% afslátt af gómsætum Domino's pizzum. Viðbrögðin voru frábær en fjöldinn allur sendi skilaboð til baka til að þakka „ástinni sinni einu“ kærlega fyrir sig.

 


Liðunum kippt í lag

Við sóttum innblástur alla leið í villta vestrið við gerð auglýsingarinnar fyrir Omega 3 Liðamín Hyal-Joint frá Lýsi. Liðamín mýkir stirða liði og dregur úr óþægindum, sem getur skipt sköpum þegar maður þarf að vera skjótari en skugginn að skjóta, hvort sem það er upp á líf og dauða í Arizona eða í byssó suður í Keflavík. Leikstjóri var Ágúst Bent.

 


Netauglýsingar taka fram úr sjónvarpsauglýsingum 


Miklar breytingar hafa orðið í skiptingu birtingafjár síðustu ár þar sem hlutfall netmiðla hefur aukist hratt. Fyrir aðeins þremur árum fóru um 7% af heildarveltu í netauglýsingar. Í dag er hlutfallið 26% og í fyrsta sinn hafa netmiðlar tekið fram úr sjónvarpi í auglýsingabirtingum. Við tókum saman heildarveltu og skiptingu PIPAR\MEDIA á milli miðla árið 2014. Dagblöð eru nú, sem fyrr, stærsti miðillinn með 29% heildarveltu. Netmiðlar eru, sem fyrr segir, í öðru sæti með 26% og sjónvarpsauglýsingar koma í þriðja sæti með 23%. Ísland sker sig frá helstu samanburðarlöndum að því leyti að almennt er sjónvarp stærsti miðillinn erlendis og dagblöð sjaldnast jafn vinsæll miðill og hérlendis.

Miðað við aukinn vöxt netmiðla undanfarin ár má allt eins búast við því að tölur næsta árs verði einnig sögulegar – og að nýr miðill taki toppsætið – þó ekkert verði fullyrt um það hér. Árið 2015 er t.d. áætlað að stafrænar auglýsingar (net, farsími o.s.frv.) verði yfir helmingur alls birtingafjár í Bretlandi. Við erum enn töluvert á eftir öðrum nágrönnum þegar kemur að þessu þar sem Svíar búast við að hlutfall stafrænna auglýsinga verði 47% á árinu, Danir 43% og Norðmenn 40%. 

Upplýsingar um skiptingu birtingafjár á Íslandi hafa verið vandfundnar og því hefur ekki verið hægt að fylgjast nægilega vel með þessari þróun hér á landi. PIPAR\MEDIA vill auka gegnsæi á íslenskum auglýsingamarkaði og birtir þess vegna upplýsingar um skiptingu birtingafjár á milli miðla. Innlendar vefsíður eru rúmlega 70% allra netbirtinga og erlendar vefsíður á borð við Facebook og Google eru að nálgast 30% af heildinni en sá hluti hefur verið mjög rísandi á undanförnum árum – þó þær komi ekki í staðinn fyrir birtingar á innlendum vefsíðum. Þess ber þó einnig að geta að hlutfall erlendra vefsíðna gæti verið hærra en gengur og gerist vegna birtinga fyrir hönd ferðaþjónustufyrirtækja.
Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
PIPAR\TBWA
Guðrúnartúni 8
105 Reykjavík
510 9000
pipar@pipar-tbwa.is
www.pipar-tbwa.is


Copyright © 2015 PIPAR\TBWA, All rights reserved.


afskrá netfang    breyta skráningu