PIPAR\TBWA
FIMMTUDAGUR

ÍMARK 2015

FIMMTUDAGUR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR

#59    12. mars 2015

 
Annað kvöld klæðum við okkur upp í okkar fínasta púss og skundum yfir í Háskólabíó þar sem íslensku auglýsinga-verðlaunin, Lúðurinn, verða afhent við hátíðlega athöfn í 29. sinn. Dreifing er góð og verkefnin fjölbreytt; Icelandair fær flestar tilnefningar eða fimm alls en Egils Grape fylgir fast á eftir með þrjár, sem er ákaflega skemmtilegt. Þema ÍMARK dagsins að þessu sinni er content marketing, eða svokölluð efnismarkaðssetning, en af því tilefni rennum við stuttlega yfir það hugtak og önnur sem undir það falla. Örri þróun stafrænna miðla fylgja enda ný og áhugaverð hugtök sem spretta reglulega upp og nauðsynlegt er að skilgreina. Svo sjáumst við hress og kát á morgun!

 

Góða helgi,
starfsfólk PIPARS\TBWA


Content marketing


Content marketing eða efnissmarkaðssetning snýst um að efni sé framleitt og því miðlað til ákveðins markhóps með það í huga að fá fólki í viðskipti. Áhersla er fyrst og fremst lögð á að efnið sé innihaldsríkt og að fólk hafi ánægju og/eða verði frótt af því að lesa eða horfa. Dæmi um slíkt er að dreifa uppskriftum eða leiðbeiningum, framleiða hjálpleg kennslumyndbönd, gefa viðskiptavinum færi á að sjá hvað gerist bak við tjöldin eða fá forsmekk af komandi vörum eða þjónustu, svo fátt eitt sé nefnt. Efnismarkaðssetning leggur áherslu á að efnið sé númer eitt, tvö og þrjú, og að allt sem kemur þar á eftir séu einfaldlega leiðir til að koma því á framfæri til réttra aðila.
 


Lúðurinn 2014 


Við þetta tækifæri er gaman að líta yfir tilnefningar til Lúðursins 2014 en þar má finna gullmola líkt og Af hverju er rusl í Reykjavík? þar sem Jón Gnarr fór á kostum við að ásaka mann og annan um að skilja eftir rusl á götum borgarinnar. Vél Icelandair, Hekla Aurora, hlýtur verðskuldaða tilnefningu enda vakti það uppátæki athygli víða um heim. Bibbi okkar og félagar hans í Skálmöld eiga sitt tilkall til tilnefningar Maraþonmannanna en þeir vöktu töluverða kátínu þeirra sem fylgdust með undirbúningi Skálmaldar fyrir Reykjavíkurmaraþonið síðasta sumar. Að sjálfsögðu gleðjumst við fyrir hönd viðskiptavina okkar en Egils Malt og Appelsín og bitra systkinið Grape hlutu samtals fimm tilnefningar í flokkunum samfélagsmiðlar, prentauglýsingar, útvarpsauglýsingar, kvikmyndaðar auglýsingar og herferðir. Við óskum öllum tilnefndum kollegum til hamingju með árangurinn!
 
 


Native advertising


Vefsíður og samfélagsmiðlar höfða nú til dags æ meir og betur til notenda er kemur að hönnun, útliti og viðmóti. Almennar auglýsingar eiga það hins vegar til að standa út á slíkum síðum og trufla fegurðarskyn notenda sem og viðmótið sem hannað var til að höfða til þeirra. Það er ekki síst þess vegna sem svokallað „native advertising“ hefur rutt sér til rúms. Fyrst og fremst gengur native advertising út á það að efni sé framleitt fyrir ákveðna vefsíður á þann hátt að lesandi gæti talið að það sé sett saman af ritstjórn síðunnar. Gjarnan er um að ræða vefsíður sem leggja áherslu á gott og vandað efni sem eykur líkurnar á því að lesendur telji sig geta treyst umfjölluninni.
 
NÝ VERKEFNI PIPARS\TBWA

Tími fyrir Lindu

Umbúðir gömlu góðu Kaffi-, Marsipan- og Lindor-súkkulaðistykkjanna frá Lindu hafa verið endurhannaðar undir áhrifum frá fortíðinni. Til að fylgja því eftir voru gerðar auglýsingar fyrir sjónvarp, útvarp, prent og net – og hvað er meira viðeigandi en að fá akureyrska rödd til að lesa: leikarann og fjölmiðlamanninn Gest Einar Jónasson. Þess má einnig geta að í fyrsta sinn verður boðið upp á hvítt Lindor-páskaegg í takmörkuðu magni. Það er þó ekki eina nýjungin sem Góa Linda býður upp á fyrir páskana því Appolo lakkrísegg með fylltum reimum mun einnig líta dagsins ljós.

 


Dýrlegur páskabjór

Nýjar og glæsilegar umbúðir prýða Páskagullið í ár. Umbúðirnar fanga hátíðleika páskanna og vísar leturgerðin meðal annars til þyrnikórónu þeirrar er Jesú frá Nasaret á að hafa borið á sínum hinsta degi. Sé grannt skoðað má ennfremur greina geisla hins heilaga anda teygja sig yfir miðflöt umbúðanna.

Þessum hátíðlega bjór má svo lýsa þannig: Að þýskri fyrirmynd renna mildir en frískir tónar neguls og banana saman samkvæmt áætlun og glæða þennan hveitibjór sérlega endingargóðum páskaanda.

 


Með tromp á hendi

Fólk sem fer í gegnum starfsendurhæfingu er með bein í nefinu og gefst ekki svo auðveldlega upp. Við hittum sex einstaklinga sem hafa nýtt sér þjónustu VIRK starfsendurhæfingarsjóðs og gáfum þeim tækifæri til að segja sögu sína. Útkoman er þrjár sjónvarpsauglýsingar og efni fyrir prent og vef sem kynna VIRK og varpa örlitlu ljósi á fjölbreyttan hóp þeirra sem hafa nýtt sér þjónustu sjóðsins.

 


Ekkert pinn í þetta sinn

Á dögunum aðstoðuðum við Valitor við að kynna snertilausar greiðslur, sem hægt er að inna af hendi með kortum og snjallsímum. Þessi lausn hentar sérstaklega vel við greiðslur á öllum „litlu“ hlutunum í dagsins önn en ekki þarf að stimpla inn pin-númer þegar greiðslan er undir 3.500 kr. Kortið eða snjallsíminn er borinn að posanum og greiðslan er komin í gegn. Fjöldi sölustaða tekur nú við snertilausum kortum og fer þeim fjölgandi með degi hverjum.

 

Spurning mánaðarins

Á hvaða aldri telur þú að fólk flytji að heiman að meðaltali?


Gamall og góður Lúður


Árið 2007 hlaut stofan meðal annars lúður í prentmiðlaflokki almannaheillaauglýsinga fyrir auglýsinguna Dapurleg eftirmæli fyrir VR. Auglýsingin sýnir dæmi um ævitekjur Hans og Hennar og sláandi mun á ævitekjum karla og kvenna. Þótt auglýsingin sé góð og þokast hafi í rétta átt með málefnið er þó ljóst að þessa baráttu þarf að heyja áfram. Ný vitundarvakning VR þessa dagana bendir á að konur vinna heilan mánuð „launalausan“ miðað við að konur og karlar eiga að hafa sömu laun. Það er vissulega aðeins í áttina þó þessari baráttu sé langt í frá lokið. Myndræn og grípandi hugmynd skipti hér öllu máli eins og ávallt. Góð hugmynd er nefnilega ávallt gulli betri!
Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
PIPAR\TBWA
Guðrúnartúni 8
105 Reykjavík
510 9000
pipar@pipar-tbwa.is
www.pipar-tbwa.is


Copyright © 2015 PIPAR\TBWA, All rights reserved.


afskrá netfang    breyta skráningu