PIPAR\TBWA
FIMMTUDAGUR

BETRI TÍÐ OG BLÓM Í HAGA

FIMMTUDAGUR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR

#60    9. apríl 2015

 
Eftir langan og harðan vetur bíður sumardagurinn fyrsti, vorboðinn, loks handan við hornið með loforðum sínum um betri tíð með blóm í haga. Af því tilefni viljum við horfa björtum augum fram á veginn og leggja áherslu á jákvæðustu hliðar auglýsingabransans. Neytendur gera jú hægt og rólega meiri kröfur til fyrirtækja um að leggja sitt af mörkum til að hafa áhrif á samfélög okkar til góðs, hvort sem þar er um að ræða umhverfis- og/eða mannréttindasjónarmið. Þessar raddir gerast æ háværari og fjölmörg fyrirtæki hafa brugðist við, hvort sem um er að ræða íslensk fyrirtæki sem huga að sjálfbærni eða stórfyrirtæki sem geta haft jákvæð áhrif á heimsvísu á hugsanahátt fólks og hegðun. 

 
Góða helgi,
starfsfólk PIPARS\TBWA


Frítt á Facebook?


Það að Facebook og aðrir samfélagsmiðlar séu frí tól sem markaðsfólk getur nýtt sér til að ná auðveldlega til viðskiptavina sinna er liðin tíð. Í dag eru samfélagsmiðlar orðnir að auglýsingamiðli, leið til þess að ná til ákveðins markhóps, þar sem lítill árangur næst nema fjármunum sé varið í verkið. Það er hins vegar langt í frá að það sé neikvæð þróun fyrir auglýsendur. Þvert á móti er ástæða til að bera meiri virðingu fyrir því efni sem framleitt er fyrir samfélagsmiðla. Frábært efni krefst nefnilega hugmyndavinnu, tíma og orku enda verður það ekki til úr engu. Samfélagsmiðlar eru leið til að ná til neytenda, á sama hátt og stór herferð í sjónvarpi, og því er jafn mikilvægt að vanda vel til verka þar sem og á öðrum miðlum.
 


Máttur jákvæðni 


Samkvæmt rannsóknum eru auglýsingar sem höfða til bjartsýni fólks mun líklegri til þess að hafa þau áhrif að neytendur tengist vörumerkinu tilfinningalegum böndum, sama hvers konar vöru eða þjónustu verið er að auglýsa. Fyrirtæki á borð við Coca-Cola, McDonald's og Dove hafa öll hafið herferðir á þessu ári sem leggja áherslu á jákvæð skilaboð í von um að gera fólk hamingjusamara; McDonald's hvatti fólk til að hrósa hvert öðru og faðmast oftar, Coca-Cola umbreytti hatursfullum skilaboðum í eitthvað annað og jákvæðara á meðan Dove svaraði konum sem töluðu neikvætt um sjálfar sig á samfélagsmiðlum í von um að breyta umsögnum þeirra til hins betra. Að sjálfsögðu þarf að vara sig á því að skilaboðin séu ekki innantóm. Séu fyrirtæki hins vegar tilbúin að standa með þeim geta jákvæð skilaboð breytt áliti neytandans á vörumerkinu yfir á jákvæðari brautir.
 


Samfélagsleg ábyrgð


Með tilkomu nýjustu tækni fá neytendur yfir sig holskeflu af upplýsingum á hverjum einasta degi. Það er því flóknara en fyrr að ná athygli þeirra og fá þá til að velja eitt fyrirtæki fram yfir samkeppnisaðila. Ein leið til þess er að svara kröfum neytenda um gegnsæja starfshætti og sýna fram á að ákveðin ástríða liggi að baki því sem boðið er upp á. Þá velja æ fleiri neytendur að eiga í viðskiptum við fyrirtæki sem axla ábyrgð á þeim áhrifum sem þau hafa á fólk og umhverfið. Samkvæmt rannsókn segjast 90% Bandaríkjamanna t.d. vera líklegri til að treysta fyrirtækjum sem leggja áherslu á samfélagslega ábyrgð auk þess sem 88% myndu kaupa vöru sem hefði góð áhrif á samfélagið eða umhverfið.
 
NÝ VERKEFNI PIPARS\TBWA

Með þér til öryggis

Nýrri herferð Öryggismiðstöðvarinnar er ætlað að endurspegla öryggi og traust, en á hlýlegum og mannlegum nótum. Það er markmið Öryggismiðstöðvarinnar að gæta að því sem fólki er kærast, án þess þó að benda sífellt á yfirvofandi hættur. Vera til staðar EF eitthvað kemur fyrir. Í lið með okkur fengum við Lárus Jónsson leikstjóra og Ágúst Jakobsson tökumann, en þeir hafa báðir að mestu starfað erlendis undanfarin ár.

 


Casa Grande

Í fallegu, uppgerðu húsi við gömlu höfnina í Reykjavík var veitingastaðurinn Tapashúsið. Nýlega var heiti staðarins breytt í Casa Grande og breytingar gerðar á ásýnd húsnæðis og áherslum innanstokks. Útlit hússins og tréverkið endurspeglast í hönnun nýrra mat- og vínseðla og í nýju merki sem m.a. var þrykkt í sérsmíðaða tréplatta sem matur er borinn fram á. Þá hönnuðum við einnig nýja vefsíðu sem og skilta-merkingar utanhúss.
 

Spurning mánaðarins

Er líklegt að þú munir ferðast innanlands í fríi næstu 12 mánuði?


Gamalt og gott merki


Í kjallara Þjóðleikhússins hefur löngum verið skemmtistaður. Skömmu eftir aldamótin var þar veitingahús og bar af fínna tagi þar sem hægt var að fara út að borða og skralla síðan eitthvað fram eftir nóttu. Eins og vera ber var hannað merki fyrir starfsemina. Merkið er einfalt, skýrir stuðlabergsdrangar, eitt helsta höfundareinkenni á byggingum Guðjóns Samúelssonar.

Til að rita nafn staðarins valdi hönnuðurinn, Finnur Malmquist, fjarska stílhreint letur af smekklegheitum sínum. Það var hið klassíska Univers 59 Condenced Ultra light, letur sem hann Frutiger hannaði 1954. Þetta ágæta merki þótti býsna gott á sínum tíma, svo gott raunar að það hreppti lúður á næstu Ímark-hátíð þar á eftir. Lesendur geta svo dæmt um það sjálfir hvort það hafi elst vel. Veitingahúsið hefur fyrir löngu hætt starfsemi en okkur þykir merkið ljómandi fínt ennþá.
Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
PIPAR\TBWA
Guðrúnartúni 8
105 Reykjavík
510 9000
pipar@pipar-tbwa.is
www.pipar-tbwa.is


Copyright © 2015 PIPAR\TBWA, All rights reserved.


afskrá netfang    breyta skráningu