PIPAR\TBWA
FIMMTUDAGUR

DEILIHAGKERFIÐ

FIMMTUDAGUR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR

#61    14. maí 2015

 
Á nýafstaðinni ráðstefnu sem haldin var hér á landi flutti April Rinne, sérfræðingur í deilihagkerfinu, áhugavert erindi. Deilihagkerfið eða „the sharing economy“ snýst um það hvernig við getum nýtt hluti betur með því að deila þeim með öðrum, hvort sem um er að ræða húsnæði, bíla, reiðhjól eða einhvers konar þekkingu. Áhrifa þessara nýju viðskipta gætir nú þegar víða um heim en hér á landi þekkja flestir til Airbnb auk þess sem fyrirtækið Snattbílar hófu nýlega göngu sína. April Rinne telur að tækifæri séu næg hér á landi til að taka þetta kerfi upp en full ástæða er til þess að markaðsfólk kynni sér þessa gerð viðskipta betur enda sýna rannsóknir að „selfie“ kynslóðin hafi meiri áhuga á því að deila hlutum í stað þess að eiga þá.

 
Góða helgi,
starfsfólk PIPARS\TBWA


„Selfie“ kynslóðin


Hugmyndafræði deilihagkerfisins virðist höfða til fólks á aldrinum 16–34 samkvæmt könnun Havas Worldwide frá 2014. Samkvæmt henni telja 68% þessa hóps að samfélagið væri betra ef fólk ætti minna af hlutum og væri duglegra að deila þeim. Um helmingur vill frekar verja peningnum í upplifanir frekar en hluti, kaupir hluti sem það getur selt aftur og styrkir frumkvöðlaverkefni. Til að höfða til þessa hóps er því mikilvægt að leggja áherslu á þátttöku og gagnsemi, t.d. með því að bjóða fólki að taka þátt í þróun og markaðssetningu vörunnar, eða með því að finna leið til þess að auðvelda þeim sitt daglega líf og aðgreina sig meðal jafningja sinna. Þá er mikilvægt að vörumerki bjóði upp á flott tilboð, tækifæri fyrir fólk að tengjast öðrum og/eða einstakar upplifanir sem fólk vill deila.
 


Never a stranger 


Airbnb, sem eins og þekkt er orðið býður upp á vettvang þar sem fólk getur leigt út heimili sín, frumsýndi nýlega sína stærstu auglýsingaherferð frá upphafi. Það er TBWA/Chiat/Day sem framleiddi auglýsinguna sem herferðin er byggð upp í kringum en hún fjallar um hikið sem margir finna fyrir þegar þeir standa frammi fyrir því að gista heima hjá ókunnugu fólki. Auglýsingin er þakkarbréf frá raunverulegum notanda sem nýtir sér þjónustu Airbnb þar sem hann þakkar fólki um heim allan fyrir að hafa fengið að kynnast heimi þeirra. Herferðin er byggð upp á hefð sem margir notendur Airbnb eru þekktir fyrir, það að senda gestgjöfum sínum handskrifuð bréf til að þakka fyrir sig. Henni er jafnframt ætlað að vekja athygli á starfsemi Airbnb og því hversu frábær reynsla það er að ferðast um heiminn og upplifa ókunna staði frá sjónarhorni heimamanna.
 


Deilihagkerfið


Deilihagkerfið býður upp á að fólk geti aflað sér tekna með nýtingu hluta sem annars stæðu ónotaðir. Fólk getur til að mynda leigt út húsnæði sitt á meðan það er í fríi, bílinn sinn á tímum sem hann stæði annars ónotaður, leigt út verkfæri eða eldað kvöldmat heima hjá sér, svo dæmi séu tekin. Tæknin er að sjálfsögðu grunnurinn að þessu skipulagi enda er það orðinn eðlilegasti hlutur í heimi að nýta sér þjónustu í gegnum smáforrit í símanum. Það sem knýr þessa tegund viðskipta einnig áfram er traust og áreiðanleiki enda væri ekki hægt að skiptast á hlutum ef fólki væri ekki treystandi. Flest slík þjónusta býður þar af leiðandi upp á kerfi sem gerir fólki kleift að gefa umsögn sem kemur í staðinn fyrir ráðleggingu frá traustum vini.

 
NÝ VERKEFNI PIPARS\TBWA

Blindir sjá

Blindir sjá er átaksverkefni sem við unnum með Blindrafélaginu til að vekja athygli á fjölbreyttum birtingarmyndum sjónskerðinga og eyða ranghugmyndum um að tilvera blindra og sjónskertra sé öll svört. Myndband var framleitt sem sýnir sjónarhorn sjónskertrar manneskju auk þess sem filmur sem líkja eftir mismunandi sjónskerðingum voru hannaðar og settar upp í menntaskólum. Nemendur þeirra voru hvattir til þess að taka af sér „blindra“ selfies af sér í speglunum og deila á samfélagsmiðlum undir #blindirsja.
 


Mildir litir Milt

Fyrir nokkru hönnuðum við nýjar umbúðir fyrir þvottaefni, fljótandi þvottefni og sturtusápu frá MILT sem eru öll án ofnæmisvaldandi efna líkt og ilm- og litarefna. Neytendur geta því gengið að þremur MILT vörum sem henta vel til að draga úr líkum á ofnæmi. Vörulínan er í mildum litatón til samræmis. Í sjónvarps-auglýsingu sem við gerðum fyrir MILT setur ungur faðir í þvottavél og spjallar um það við lítinn son sinn um leið. Prentefni fyrir blöð og verslanir var gert í sama anda. Þess má geta að faðirinn ungi er einnig þekktur sem trommuleikarinn í Pollapönki.
 


Lykilleiga Lykils

Lykilleiga er nýjung á íslenskum bílamarkaði sem Lykill kynnti með pompi og prakt á bílasýningunni Allt á hjólum sem fram fór í Fífunni um síðustu helgi. Um er að ræða þann valkost að leigja bíl í stað þess að kaupa og lágmarka þannig kostnað og áhættu við rekstur bíls. Á undanförnum vikum höfum við tekið þátt í undirbúningi auglýsingaherferðar fyrir þessa spennandi nýjung; hannað prentauglýsingar, markpóst, útvarpsauglýsingar og svo hinn glæsilega kynningarbás Lykils á bílasýningunni um síðustu helgi og haft gaman af. 
 


Tékkland bifreiðaskoðun

Facebook-leikur Tékklands bifreiðaskoðunar var nýlega settur í loftið með það að markmiði að safna fylgjendum og netföngum á póstlista. Leikurinn gekk út á það að svara nokkrum einföldum spurningum til þess að fá einkanúmer fyrir bílinn en um var að ræða svör líkt og UTANG8, HR1SV1 og ER-6Ý. Svörin vöktu mikla kátínu og urðu til þess að leiknum var deilt víða og hlaut frábæra þátttöku. Þeir sem tóku þátt í leiknum fá í framhaldinu boð um að koma í skoðun auk þess sem nýstofnuð Facebook-síða Tékklands telur nú tæplega 3000 manns.
 

Deilirðu tónlist, sjónvarpsefni eða bíómyndum með vinum og ættingjum?

Smelltu til að svara og sjá niðurstöður


Gömul og góð auglýsing


Hver heldur þér uppi eftir að þú hættir að vinna? Fyrir tæpum tuttugu árum var þessi skýra hugmynd myndgerð í auglýsingu fyrir lífeyrissjóð. Litli drengurinn er eflaust orðinn fullorðinn, mögulega sér hann fyrir sér sjálfur núna, en fulltrúi föðurins starfar með okkur hér á PIPAR\TBWA, farinn að grána í vöngum. Það er auðvitað ákaflega mikilvægt að huga að lífeyrismálum snemma og hugmyndin er jafnfersk ennþá því góð hugmynd lifir lengi. Hugmyndasmiðurinn starfar hér sömuleiðis. 

 

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
PIPAR\TBWA
Guðrúnartúni 8
105 Reykjavík
510 9000
pipar@pipar-tbwa.is
www.pipar-tbwa.is


Copyright © 2015 PIPAR\TBWA, All rights reserved.


afskrá netfang    breyta skráningu