PIPAR\TBWA
FIMMTUDAGUR

MARKAÐSSETNING LYKILL AРVERÐMÆTASKÖPUN Í SJÁVARÚTVEGI

FIMMTUDAGUR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR

#62    4. júní 2015

 
Föstudaginn 29. maí fór fram aðalfundur og ráðstefna SFS, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Yfirskrift fundarins var „Sameiginleg markaðssetning og aukin verðmæti“, en þar var meðal annars farið yfir niðurstöður úr stefnumótunarvinnu samtakanna og tækifærin sem felast í sameiginlegri markaðssetningu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Samtökin komu til okkar í Disruption fyrir nokkru og voru niðurstöður vinnunnar meðal þess sem Helga Thors, markaðsstjóri SFS, kynnti á fundinum. Við höfðum einnig milligöngu um komu Peter Souter, stjórnarformanns TBWA\London, sem flutti erindi á fundinum.

Góða helgi,
starfsfólk PIPARS\TBWA


Risi fagnar 10 ára afmæli


Það er erfitt að ímynda sér að einhvern tíma hafi YouTube ekki verið til, svo mikil áhrif hefur þessi stærsti myndbandavefur heims haft á menningu okkar og neysluvenjur. YouTube leit þó ekki dagsins ljós fyrr en árið 2005, þegar við vorum öll búin að hanga á netinu í áraraðir. Þetta þýðir að síðan er 10 ára um þessar mundir. Í tilefni afmælisins hafa vinsælustu myndböndin sem hafa verið sett inn á vefinn að sjálfsögðu verið rifjuð upp og þeir sem vilja láta reyna á þekkingu sína á poppkúltúr síðasta áratugar geta spilað þennan skemmtilega leik.
 


Peter Souter 


Peter Souter, stjórnarformaður og chief creative director hjá TBWA\London, kom til landsins og flutti erindi á aðalfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Erindi hans hafði yfirskriftina „Disrupting the world in your favour: Food for thought“. Þar talaði hann um markaðssetningu, hvað það er nauðsynlegt að sýna hugrekki og vera mannlegur í nálgun á viðfangsefnið. Á fundinum fór hann einnig yfir fjölbreytt verkefni TBWA\London og þær aðferðir sem hægt er að nota. Peter hefur stýrt hundruðum auglýsingaherferða á þeim rúma aldarfjórðungi sem hann hefur starfað í bransanum, auk þess sem hann hefur unnið sem handritshöfundur fyrir sjónvarp, útvarp og leikhús.
 


Útvarpsauglýsing slær óvænt í gegn 


Sænsku auglýsingaverðlaunin Guldägget voru afhent í Stokkhólmi fyrir skömmu. Svíar hafa lengi búið til auglýsingar sem vekja heimsathygli en í þetta sinn var það útvarpsauglýsing sem stal þrumunni. Auglýsingastofan Volt gerði auglýsinguna fyrir Hemglass, fyrirtækið sem rekur ísbílana í Svíþjóð en þeir spila einfalda melódíu til að minna á sig. Lagstúfurinn þykir einstaklega lélegur, falskur og óþolandi en hér eru honum hins vegar gerð almennileg skil í fyrsta skipti. Með tilkomumiklum flutningi drengjakórs og sinfóníuhljómsveitar vill Hemglass minna fullorðna á hversu stór viðburður það er fyrir börn þegar ísbíllinn kemur.
 
NÝ VERKEFNI PIPARS\TBWA

Taktu þátt í Tappelsín

Sumarleikur Appelsíns í ár er jafn sígildur og drykkurinn sjálfur. Þátttakendur safna töppum af Appelsínflöskum og senda inn til Ölgerðarinnar. Nöfn allra sem senda inn tappa fara síðan í pott sem er fullur af ferðavinningum. Vegna einstakra veðureiginleika íslenska sumarsins þótti kjörið að gefa fólki tækifæri til að njóta þess hér heima… eða að heiman. Aðalvinningurinn er ferð með Vita til Mallorca að andvirði 800.000 kr. Meðal aukavinninga má svo nefna hestaferð með Eldhestum, gistingu á Icelandair Hotels og ferð með Iceland riverjet.
 


Með Domino's til Berlínar

Domino's var með körfuboltatilboð í apríl, um það leyti sem úrslitaleikirnir í Domino's-deildinni voru spilaðir. Allir sem nýttu sér tilboðið áttu möguleika á að vinna ferð fyrir tvo á Evrópumótið í körfubolta sem fer fram í Berlín í september. Vinningshafinn var hin stálheppna Guðrún Jóna Baldursdóttir. Áður en henni var tilkynnt um sigurinn var ákveðið að plata hana aðeins og henni sagt að hún væri komin í fimm manna úrslit og ætti að keppa um sigurinn í vítakeppni. Hún mætti brött til leiks og hafði ekki hugmynd um að andstæðingarnir voru allir alvöru körfuboltahetjur.
 


Loksins aftur SumarGull

Það eru ekki bara farfuglarnir sem hafa snúið aftur, sumarbjórarnir eru farnir að skjóta upp kollinum í vínbúðum og á börum landsins. Í sumar líst okkur sérdeilis vel á SumarGull frá Ölgerðinni, enda er það komið í glænýjar og glæsilegar umbúðir. SumarGull er ljós, undirgerjaður bjór með þýskum og slóvenskum humlum, sem skilar sér í ferskum blómailmi og ávaxtaríku maltbragði. Bjórinn er þróaður af Borg Brugghúsi og á sér fyrirmynd í bjór nr. 4 en kom í fyrsta skipti á markað undir nafninu SumarGull sumarið 2014.
 


Kíktu á Bjórgarðinn

Fosshótel Reykjavík opnaði við Höfðatorg í byrjun mánaðarins og þar innandyra má finna Bjórgarðinn, nýjustu viðbótina við barflóru borgarinnar. Bjórgarðurinn opnar í næstu viku og við erum að sjálfsögðu mjög spennt fyrir því, ekki bara vegna þess að staðurinn er nánast í næsta húsi við okkur, heldur einnig vegna þess að við fengum að hanna merki, prentefni og fleira sem prýðir hann. Næsta skref er svo bara að rölta yfir og tékka á þessum 22 dælna krana sem okkur skilst að sé búið að setja upp þarna.
 

Þekkir þú Ísland?
Fróðleikur úr neyslukönnun Gallup.

Lest þú meira af bókum en fólk gerir almennt?

Smelltu til að svara og sjá niðurstöður


Young Bloods útskrifuð frá PIPAR\TBWA


Það var glimrandi stemning þegar 90 manns héldu í árlega óvissu- og árshátíðarferð PIPARS\TBWA þann 9. maí síðastliðinn. Eftir stórskemmtilegt húllumhæ dagsins endaði stuðið á Stracta Hóteli á Hellu. Þetta hátíðlega tilefni var þó söknuði blandið því við nýttum tækifærið til að útskrifa Young Bloods, nemendur markaðsskóla PIPARS\TBWA, sem hafa staðið sig með sóma undanfarna mánuði og hleypt nýju blóði í Kaaber-húsið. Auk skírteinis fengu þau að sjálfsögðu viðeigandi kveðjugjafir, þar á meðal rauðvín í blóðpokum.
Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
PIPAR\TBWA
Guðrúnartúni 8
105 Reykjavík
510 9000
pipar@pipar-tbwa.is
www.pipar-tbwa.is


Copyright © 2015 PIPAR\TBWA, All rights reserved.


afskrá netfang    breyta skráningu