DIGITAL ARTS NETWORK

FIMMTUDAGUR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR

#64    6. ágúst 2015

 
Árið 2011 riðum við á vaðið með stofnun fyrstu samfélagsmiðla-deildar á landinu. Síðan þá hefur deildin vaxið og dafnað en nú viljum við gera gott betur og samhæfa stafrænar lausnir innan einnar deildar. Við kynnum því til sögunnar DAN, Digital Arts Network Worldwide, sem er alþjóðlegt net innan TBWA-keðjunnar sem samanstendur af u.þ.b. 1000 sérfræðingum á sviði stafrænnar markaðssetningar sem deila þekkingu sinni þvert á markaði. DAN hjá PIPAR\TBWA leggur áherslu á samfélagsmiðla, efnismarkaðssetningu, viðmótshönnun, mobile, leitarvélabestun, vefverslun og mælingar og greiningar.


Góða helgi,
starfsfólk PIPARS\TBWA


Auglýsingar á Instagram


Auglýsingar á Instagram hafa aðeins verið í boði fyrir ákveðin fyrirtæki sem samfélagsmiðilinn vann sérstaklega með en nú stendur til að opnað verði fyrir að fyrirtæki almennt geti sett herferðir í gang. Því er spáð að Instagram verði risi á auglýsingamarkaðnum innan nokkurra ára en helsti kosturinn við auglýsingarnar er sá að um er að ræða myndrænar auglýsingar sem blandast saman við færslur notenda. Hættan liggur helst í því að gæði auglýsinganna verði ekki jafn mikil og áður eða að sjarminn fari af miðlinum þegar fólk verður hvatt til að smella á linka og kaupa vörur. Forsvarsmenn Instagram halda því þó fram að aðeins verði um að ræða fjölbreyttari auglýsingar en ekki of mikið magn af þeim.
 


DAN Worldwide 


Digital Arts Network var stofnuð innan TBWA-keðjunnar með að markmiði að skapa alþjóðlega umgjörð utan um það hvernig TBWA nálgast stafræna miðla og samþættingu. Hugmyndafræðin sem unnið er eftir er sú að allt sem fer á milli vörumerkis og áhorfanda sé miðlun og að sú miðlun fari í æ auknari mæli fram með stafrænum hætti. Verkefnin sem hafa litið dagsins ljós síðan DAN var stofnað eru fjölbreytt og margþætt en til að mynda má nefna herferð fyrir Sncf í Frakklandi. Markmið hennar var að vekja athygli á því að frönsku ríkisjárnbrautirnar byðu ekki aðeins upp á ferðir til Frakklands heldur um alla Evrópu en í þeim tilgangi voru settar upp gagnvirkar hurðir á torgum í Frakklandi sem tengdar voru við borgir í Evrópu sem Sncf býður upp á ferðir til. 
 


Dæmi frá DAN


DAN í Ástralíu setti af stað herferð fyrir AirBnB fyrir Gay Pride gönguna þar í landi en húsnæði var boðið til leigu og átti fólk að segja frá því af hverju það ætti skilið að vera valið. AirBnB vagn var síðan sérútbúinn sem tók svo þátt í göngunni. DAN Singapore framleiddi gagnvirka heimasíðu fyrir Singapore Airlines en markmiðið var að fá ferðalanga til að bóka flug á nýju farþegarými, Premium Economy Class. Vefsíðan gekk út á að upplifa hvernig það væri að ferðast á lúxusfarþegarýminu án þess að stíga um borð, og það mörgum mánuðum áður en flugferðirnar hófust. DAN í París gerði app fyrir OPI naglalökkin þar sem hver litur átti sér ákveðið tákn og myndaði saman tungumál sem allir gátu skilið. Markmið herferðarinnar var að sýna úrval lita í naglalökkum OPI.

 

NÝ VERKEFNI PIPARS\TBWA

Í hraðskreiðan búning

Alla sendibíla dreymir um að vera sportbílar. Það hlýtur bara að vera. Þess vegna var ákveðið að gefa einum sendibíla 365 tækifæri til að bregða sér í gervi rennilegs sportbíls fyrir sumarið. Bílinn sást fyrst á götunum um miðjan maí og hefur vakið mikla athygli hvar sem hann hefur komið. Sennilega heppnasti sendibíll landsins. 
 


Betra grill við veginn

Fyrir nokkrum árum varð til vörumerkið Grill 66 utan um veitingasölu Olís-stöðvanna. Útlit Grill 66 hefur nú verið uppfært og áherslum breytt. Grill 66 er grillstaður fyrir alla fjölskylduna en nafnið vísar til „Route 66“, þjóðvegarins sem liggur nánast þvert yfir Bandaríkin, og réttirnir fá nafn sitt af stöðum sem liggja við þjóðveg 66.
 


Hágæða þorskalýsi

Dropi er hágæða íslenskt þorskalýsi framleitt af True Westfjords í Bolungarvík. Vinnsluaðferðin er byggð á fornum hefðum þar sem þorsklifrin er kaldpressuð og lýsið framleitt við lágt hitastig til að hindra niðurbrot vítamína og næringarefna. Það gerir það að verkum að Dropi er sérstaklega ríkur af Omega-3 fitusýrum og náttúrulegum A- og D-vítamínum. Við hönnuðum umbúðir, merkingar á flöskur og kynningarbæklinga.
 


Hellur í garðinn

Í nýrri sjónvarpsauglýsingu frá BM Vallá eru fætur í aðalhlutverki. Kannski ekki að undra, þar sem söluvaran er gæðahellur í garðinn, innkeyrsluna og á veröndina. Til að leyfa hellunum að njóta sín í mynd var því nærtækast að sjónarhornið væri sem næst jörðu og áskorun leikaranna fólst í að gæða steinsteypuna lífi með fótunum einum – að undanskildum hundinum Brando sem fékk að vera heill í mynd.
 


Gamalt og gott veggspjald


Fyrir réttum 20 árum stóð Karlanefnd Jafnréttisráðs og FÍT fyrir veggspjaldasamkeppni í tengslum við átaksviku sem var haldin undir kjörorðinu Karlar gegn ofbeldi. Það var einn af reyndustu hönnuðunum okkar, Tryggvi T. Tryggvason, sem teiknaði vinningsspjaldið og var því í framhaldinu dreift víða um borgina. Veggspjaldið hlaut ekki aðeins verðskuldaða athygli hér heima fyrir, það var einnig tilnefnt í flokki „illustrations and graphics“ í Epica Awards 1995.
Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
PIPAR\TBWA
Guðrúnartúni 8
105 Reykjavík
510 9000
pipar@pipar-tbwa.is
www.pipar-tbwa.is


Copyright © 2015 PIPAR\TBWA, All rights reserved.


afskrá netfang    breyta skráningu