KROSSMIÐLUN 2015

FIMMTUDAGUR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR

#65    3. september 2015

 
Nýja deildin okkar, DAN eða Digital Arts Network, hefur formlega tekið til starfa og til að fagna var blásið til markaðsráðstefnu í Hörpu sem fram fór síðastliðinn föstudag. Yfirskrift ráðstefnunnar var Krossmiðlun 2015: „Hafa auglýsingar skipt um lögheimili?“. Við þetta tækifæri heimsótti Luke Eid, forstjóri DAN TBWA\Worldwide okkur hingað til lands og flutti erindi um hvernig vörumerki og fyrirtæki geti brugðist við nýjum tækifærum í rauntíma en til þess hefur DAN og TBWA þróað aðferðafræðina Disruption Live. Deginum lauk að sjálfsögðu með okkar árlega partíi í Kaaber-húsinu með gleði og glaumi og viljum við þakka fyrirlesurunum og þeim sem komu kærlega fyrir samveruna. 


Góða helgi,
starfsfólk PIPARS\TBWA


Start up markaðssetning

Airbnb, Uber, Spotify, þetta eru allt þjónustur sem hafa náð hreint ótrúlegum vinsældum og vakið mikla athygli á tiltölulega stuttum tíma. Þessi fyrirtæki, ásamt fleirum sem við könnumst vel við líkt og Facebook, Twitter og Dropbox, eiga það sameiginlegt að vera start up fyrirtæki sem leggja áherslu á að stækka notendahóp sinn fyrst og huga að markaðssetningunni seinna. Þetta er gert með því að gera stafræna markaðssetningu að hluta vörunnar en dæmi um slíkt er Suggested User List hjá Twitter sem bendir fólki á aðra til að fylgja sem óhjákvæmilega stækkar notendahóp miðilsins á sama tíma. Þetta fyrirbæri hefur fengið nafnið „growth hacking“ en þegar þessari aðferð er beitt skiptir hins vegar öllu að varan sem boðið er upp á sé viðunandi.
 


Krossmiðlun í Hörpu

Markmið ráðstefnunnar var að velta því upp hvort auglýsingar hafi skipt um lögheimili og ef svo er, hvort fyrirtæki hefðu bolmagn og þekkingu til að nýta þessa nýju miðla eða hvort þau ættu að ráðstafa þeim eins og öðrum hefðbundnari auglýsingamiðlum. Fyrirlestrarnir voru fjölbreyttir en fjallað var um samfélagsmiðlamælingu Gallup, meistararannsókn sem varpar ljósi á það hvað knýr fólk til þess að deila skilaboðum vörumerkja á netinu, því velt upp hvort hefðbundið markaðsstarf væri á undanhaldi, hvernig fyrirtæki geta tæklað samfélagsmiðlana og krísustjórnun á tímum samfélagsmiðla. Luke Eid, forstjóri Digital Arts Network TBWA\Worldwide fjallaði um áherslur DAN og TBWA í stafrænni markaðssetningu.
 


Disruption Live

Við lifum í gríðarlega vel tengdum heimi sem ómögulegt er að slökkva á. Hefðir, venjur og tækifæri koma og fara mun örar en áður og það dugir ekki lengur að fylgja markaðsplani. Vörumerki og auglýsingastofur þurfa að hafa augun opin og bregðast við nýjum tækifærum í rauntíma eigi þær að vaxa og dafna. Í fyrirlestri sínum lýsti Luke Eid því hvernig TBWA hefur brugðist við og þróað aðferðafræði sem kallast Disruption Live en hún er kærkomin viðbót við Disruption stefnumótunarvinnu hjá TBWA á alþjóðavísu. Þessi aðferðafræði hjálpar okkur að tryggja það að við missum ekki af tækifærum fyrir viðskiptavini okkar til þess að efla vörumerki þeirra og ná skjótar þeim árangri sem stefnt er að.
 
NÝ VERKEFNI PIPARS\TBWA

Nýtt leikár hafið

Leikárið 2015–2016 í Þjóðleikhúsinu er fyndið, sorglegt, spennandi, hugljúft, hryllilegt og rómantískt. Þar er svo sannarlega eitthvað fyrir alla í vetur. Við tókum þátt í undirbúningi fyrir þetta frábæra leikár með hönnun veggspjalda sem mynda grunn að öllu kynningarefni. Ljósmyndir fyrir veggspjöld tóku Eggert Jónsson og Hörður Sveinsson. Í framhaldinu tók svo við hönnun auglýsinga fyrir prent- og vefmiðla, bæklings og gerð sjónvarpsauglýsingar.
 


#esjanrullar

Öryggismiðstöðin fagnar um þessar mundir 20 ára afmæli og af því tilefni aðstoðaði fyrirtækið 24 einstaklinga sem glíma við fötlun eða veikindi upp á Esju. Notast var við Joelette torfæruhjólastóla sem fluttir voru til landsins en auk þess var stór hópur sjálfboðaliða fólkinu innan handar. Auglýst var eftir áhugasömum þátttakendum sem sökum fötlunar eða veikinda hafa ekki átt þess kost að sigra Esjuna og skemmst er frá því að segja að viðbrögðin fóru langt fram úr væntingum.
 


Borg kynnir Úlfrúnu

Nú bregður til tíðinda hjá Borg Brugghús sem kynnir í fyrsta sinn til sögunnar bjór sem er tappaður beint á dósir. Um er að ræða hana Úlfrúnu sem er svokallaður Session IPA bjór sem á rætur sínar að rekja til fyrri hluta síðustu aldar þegar verkamönnum í Englandi var lögum samkvæmt úthlutað tveimur drykkjulotum (sessions) á dag. Vinsælustu Session IPA bjórar dagsins í dag koma flestir frá Bandaríkjunum og Úlfrún sver sig að mörgu leyti í ætt við þá. Suðrænt ávaxtabragðið er fengið með Citra og Mosaic humlum en í bland við Sorachi Ace, Centennial og Simco humla verður til kröftugur ávaxtahvellur sem ætti ekki að fara framhjá nokkrum manni.


Megakona Domino's

Megakonan hefur verið um nokkuð langt skeið á teikniborðinu hjá okkur en það var svo í Megavikunni nú í ágúst að hún leit loksins dagsins ljós. Við erum alveg himinlifandi með útkomuna og það sem enn meira máli skiptir er að hún hlaut hreint út sagt frábærar viðtökur viðskiptavina Domino's. Framleidd var ný sjónvarpsauglýsing þar sem Megakonan kemur Megamanninum til bjargar og stimplar sig rækilega inn. Skemmtilegt verkefni sem gefur Megavikunni ferskt og nýtt yfirbragð. Megakonan er svo sannarlega komin til að vera. 
 

Mynd: Luke Eid, forstjóri DAN TBWA\Worldwide og Kristín Elfa, rekstrarstjóri DAN

 

Fögnuður í Kaaber-húsinu


Árlegt partí okkar var haldið með pompi og prakt síðastliðið föstudagskvöld til að fagna nýju deildinni okkar við góðan fögnuð starfsfólks og hátíðlegra gesta. Í samræmi við þema dagsins voru fundarherbergi Kaaber-hússins endurskírð Tíst, Tjatt og Tinder – sem gerði það reyndar að verkum að enginn þorði að stíga fæti inn í það síðastnefnda!

DJ Margeir sá um að halda uppi stuðinu fram eftir kvöldi en auk þess kíkti Lára Rúnars við og skemmti gestum og gangandi með fögrum tónum. Boðið var upp á sérstaka kokteila fyrir kvöldið sem innihéldu að sjálfsögðu Grape og Límonaði en fyrir áhugasama koma hér uppskriftirnar:

Grape-kokteill: 3 cl gin, 2 cl sykursíróp, 1 cl limesafi, hrist og toppað upp með Grape. Límonaði-kokteill: 4 cl ljóst romm, 3 cl engifersýróp, 2 cl lime/sítrónusafi, Orange bitter, hrist og fyllt upp með Límonaði.

 

 

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
PIPAR\TBWA
Guðrúnartúni 8
105 Reykjavík
510 9000
pipar@pipar-tbwa.is
www.pipar-tbwa.is


Copyright © 2015 PIPAR\TBWA, All rights reserved.


afskrá netfang    breyta skráningu