MARKAÐSSETNING TIL GÓÐS

FIMMTUDAGUR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR

#66    1. október 2015

 
Það má með sanni segja að með haustinu sé tími góðgerðarmála formlega runninn upp en það gladdi okkur að taka enn sem fyrr þátt í átaki Á allra vörum sem beindi að þessu sinni spjótum sínum að einelti. Eftir því sem líður að jólum mun hvert átakið af öðrum líta dagsins ljós enda er fólk jú enn meðvitaðra um mikilvægi þess að gefa af sér á þessum tíma árs, ekki hvað síst þetta árið þegar vandi flóttamanna er mörgum ofarlega í huga. Það er þekkt fyrirbæri að fyrirtæki láti gott af sér leiða og styðji góðgerðarstarfsemi allt árið um kring og er það vel. Það þarf engu að síður að huga að því að slíkt sé framkvæmt í samræmi við gildi og sýn fyrirtækisins sem um ræðir. 


Góða helgi,
starfsfólk PIPARS\TBWA


Hindrun auglýsinga

Eftir því sem neytendur nota snjallsíma í æ auknari mæli til að vafra um á netinu gera auglýsendur sér jafnframt grein fyrir mikilvægi þess að ná til þeirra á þeim vettvangi. Það skýtur því skökku við að nýjasta uppfærsla Apple gerir notendum það auðvelt að sækja forrit sem kemur í veg fyrir að þeir sjái auglýsingar á Safari vafranum. Þetta gætu virst vera slæmar fréttir fyrir auglýsendur, en er það svo? Eins og staðan er í dag getur reynst erfitt að ná til neytenda á snjallsímum. Þessi breyting krefst þess hins vegar að auglýsendur hugsi á annan hátt um markaðssetningu á snjallsímum og leggi t.a.m. áherslu á aukin gæði og framleiði meira af auglýsingum sem neytendur upplifa ekki sem auglýsingar.
 


Cause related marketing

Það að fyrirtæki myndi samstarf með góðgerðarsamtökum báðum aðilum til góðs hefur löngum verið þekkt en kannanir benda til þess að fyrirtæki hafi hreinlega ekki efni á því lengur að taka ekki þátt í góðgerðarstarfi af einhverju tagi. Samkvæmt rannsókn frá Cone Cause Evolution getur skortur á slíku orðið til þess að viðskiptavinir snúi sér til samkeppnisaðilanna. Dæmi um slíka samvinnu er t.a.m. nýlegt samstarf McDonald’s og svipaðra fyrirtækja sem hafa heitið því að aðstoða Sameinuðu þjóðirnar við að safna fyrir matvöru og öðrum nauðsynjum fyrir flóttamennina sem streyma til Evrópu. Sjónvarpsauglýsing var framleidd til að hvetja einstaklinga til að leggja sitt af mörkum til að nóg safnist af vistum fyrir þau sem þurfa sárlega á þeim að halda en fyrirtækin sem um ræðir lögðu til keyptan auglýsingatíma.


Samfélagsleg ábyrgð

Samkvæmt rannsókn sem TBWA framkvæmdi leggur ungt fólk töluverða áherslu á að fyrirtækin sem það verslar við sýni samfélagslega ábyrgð. Rannsóknin, sem birtist árið 2012 og náði til 2000 manns á aldrinum 18–29 frá níu löndum, sýndi fram á að ungt fólk er líklegra til að versla við fyrirtæki sem styður málefni sem því er annt um, líkar betur við þau og er líklegra til að sækja um hjá slíku fyrirtæki. Málefnin sem skipta þau máli eru t.a.m. aðgengi að góðri menntun, aðgengi að heilbrigðiskerfi og umhverfismál. Fyrirtæki og vörumerki ættu því að sjá hag sinn í að taka virkan þátt í góðgerðastarfsemi en verða þó að velja málefni í samræmi við gildi og sýn fyrirtækisins, svo að þau verði ekki ásökuð um eiginhagsmunahyggju.
 
NÝ VERKEFNI PIPARS\TBWA

Haustherferð 365

Eitt af ánægjulegum haustverkum okkar er að kynna spennandi dagskrá 365. Segja má að verkefnið sé tvíþætt, umsjón með haustkynningu fyrir fagfólk í Hörpu annars vegar og svo framleiðsla á öllu markaðsefni tengdu vetrardagskránni í sjónvarpi, prenti, útvarpi og á vefnum. Jón Gnarr, nýr ritstjóri innlendrar dagskrár 365, var í burðarhlutverki í sjónvarpsauglýsingunni sem var unnin í samstarfi við Döðlur. Jón byrjar nokkuð bratt á nýjum vinnustað, er pikkfastur í dagskrá 365 og ráfar stefnulaust á milli þátta og bíómynda sem í boði verða á miðlum 365 í vetur.
 


Á allra vörum

Í september var farið af stað í sjötta sinn með nýja herferð Á allra vörum. Í þetta skipti var kastljósinu beint að einelti meðal ungs fólks og var safnað fyrir samskiptasetri fyrir ungmenni sem glíma við einelti. Gerðar voru tvær sjónvarpsauglýsingar og voru það þeir félagar Samúel Bjarki og Gunnar Páll hjá Stórveldinu sem sáu um gerð þeirra í samstarfi við Pipar, Trickshot, Snyrtilegan klæðnað og fleira gott fólk. Ljósmyndir tók Gassi og var allt kynningarefni fyrir prent, útvarp og vef unnið hér á PIPAR\TBWA. Gefandi verkefni fyrir gott málefni.
 


Lykilleiga

Í síðustu viku fögnuðum við frumsýningu á sjónvarpsauglýsingu fyrir Lykil. Auglýsingin kynnir til leiks Lykilleigu sem er spennandi nýjung á bílamarkaði og veitir almenningi þann valkost að leigja bíl í stað þess að kaupa og lágmarka þannig um leið kostnað og áhættu sem fylgir bílarekstri. Í auglýsingunni, sem leikstýrt var af Konráð Pálmasyni, er spilað á hugmyndir okkar um merkingar á bifreiðum sem við eigum flest að þekkja en veitum þó ekki alltaf athygli.
 


Októberfest

Bjórgarðurinn á jarðhæð Fosshótels er samkomustaður bjórunnenda. Októberfest er einn af glæsilegum viðburðum haustsins á staðnum, þar sem gullinn bjórinn streymir af krana og alls konar þýskættaður gæðamatur eins og pylsur og saltkringlur er borinn fram. Við hönnuðum kynningarefni fyrir Októberfest, matseðil, auglýsingar fyrir prent og vef ásamt plakötum. 
 

 

Skipting birtingafjár milli miðla 2014


Í flestum vestrænum ríkjum er reynt að fylgjast með mikilvægri tölfræði um auglýsingar og upplýsingar um breytingar á auglýsingamarkaði eru birtar jafnóðum. Hingað til hefur enginn einn aðili haldið utan um upplýsingar um skiptingu birtingafjár milli miðla á Íslandi og hefur oft reynst erfitt að nálgast slíkar upplýsingar. 

Fjölmiðlanefnd hefur nú tekið saman upplýsingar á skiptingu birtingafjár á Íslandi fyrir árið 2014 en skýrslan er unnin í samstarfi við fimm stærstu birtingahús landsins, ABS- fjölmiðlahús, Birtingahúsið, MediaCom, Bestun birtingahús og Ratsjá Media sem við erum hluti af. 


Það sem skýrslan leiðir í ljós er að um 17,6% fjármagns sem varið var í vefauglýsingar á Íslandi 2014 rann til erlendra fyrirtækja á borð við Google og Facebook. Þetta þýðir að 2,6% alls birtingafjár á Íslandi fór til erlendra veffyrirtækja en sambærilegar tölur eru mun hærri í nágrannaríkjum Íslands.
 
Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
PIPAR\TBWA
Guðrúnartúni 8
105 Reykjavík
510 9000
pipar@pipar-tbwa.is
www.pipar-tbwa.is


Copyright © 2015 PIPAR\TBWA, All rights reserved.


afskrá netfang    breyta skráningu