Á GERVIHNATTAÖLD

FIMMTUDAGUR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR

#67    5. nóvember 2015

 
Fyrir stuttu fór fram þriggja daga vinnustofa um DAN (Digital Arts Network) í New York sem fulltrúar okkar tóku þátt í ásamt helstu lykilmönnum innan TBWA-keðjunnar um heim allan. Markmiðið var að móta stefnu DAN en allt sem kom þar fram var af sama meiði; mikilvægi þess að leggja áherslu á gagnaöflun og að geta brugðist við í rauntíma. Að sjálfsögðu hefur markaðsstarf alltaf verið unnið út frá rannsóknum og gögnum en aldrei áður hefur markaðsfólk haft aðgang að álíka gögnum og stafrænir miðlar bjóða okkur nú upp á, og gera okkur kleift að bregðast við jafnóðumFramundan eru því spennandi tímar. Við munum bæta við í verkfærakistuna þeim tólum og tækjum sem TBWA-keðjan veitir okkur aðgang að til þess að vinna úr stafrænum gögnum. Þannig getum við haldið áfram að bjóða viðskiptavinum okkar þá bestu þjónustu sem völ er á.


Góða helgi,
starfsfólk PIPARS\TBWA


Markhópar á Facebook

Það verður sífellt auðveldara að ná til ákveðinna markhópa á Facebook. Fyrir utan að geta t.a.m. hlaðið upp lista yfir netföng og símanúmer og beint auglýsingum til þess hóps er einnig hægt að nýta sér svokallaðan pixel-kóða til þess að ná til markhópa. Pixel-kóðinn er settur upp af vefstjóra á vefsíðu viðkomandi fyrirtækis sem getur svo safnað upplýsingum um þær aðgerðir sem fólk framkvæmir á vefsíðunni, hvort sem það setur vöru í körfu, kaupir eða skráir sig. Að því loknu er hægt að sníða auglýsingar á Facebook til fólks eftir því hvers konar aðgerðir það valdi. Þá hafa Carousel Ads gefið góða raun ef markmiðið er að auka umferð á heimasíðu fyrirtækisins en um er að ræða hámark 5 myndir sem geyma hver fyrir sig tengil á tiltekna vöru eða síðu.


Að ná til unga fólksins

Valgeir Magnússon framkvæmdastjóri stofunnar og Kristín Ragnarsdóttir, rekstrarstjóri DAN, tóku þátt í DAN-vinnustofunni sem haldin var í New York. Þar fóru meðal annars fram fyrirlestrar frá fyrirtækjum líkt og Spotify, YouTube, Vice og öðrum sem eru í fararbroddi þegar kemur að afþreyingu á netinu og móta þar af leiðandi hvernig fyrirtæki geta náð til ungs fólks í dag. Vice flytur t.a.m. fréttir og framleiðir afþreyingarefni fyrir ungt fólk en lítur svo á að ef fyrirtæki geti ekki sagt sögu þá sé það ekki vörumerki og vinnur því ekki auglýsingaefni með hverjum sem er. Spotify leggur áherslu á að hafa ferlið einfalt; ný vara er sett í loftið án þess að vera fullkomnuð en neytendur aðstoða svo við að betrumbæta vöruna með athugasemdum sínum. Grínistarnir Kloons miða jafnframt við að ferlið þurfi ekki að vera fullkomið en efnið þeirra er unnið hratt og hrátt. Vinsældir þeirra ganga út á það að YouTube er að breytast í seríur og rásir sem þýðir að mikill fjöldi fólks fylgist með sketsunum þeirra í hverri viku.

 


Auglýsingar á Instagram

Um síðustu mánaðamót var opnað fyrir að fyrirtæki um allan heim gætu birt auglýsingar á Instagram. Hvatt er til þess að slíkar auglýsingar líti út eins og hver önnur Instagram-mynd og stingi ekki of mikið í stúf við efni frá vinum þínum og kunningjum. Það er um þrjá möguleika að ræða, myndir, myndbönd, eða tækifæri til að hlaða niður appi. Auglýsingunni getur fylgt hnappur sem hvetur neytandann til aðgerða en hægt er að smella til að fara á lendingarsíðu, smella til að horfa eða smella til að hlaða niður appi. Þess má geta að fyrstu prófanir okkar á þessum nýja auglýsingamiðli benda til þess að auglýsingarnar nái helst til stelpna á aldrinum 13 til 17 ára, en mögulegt er að ná til um það bil 45.000 Íslendinga á Instagram.
NÝ VERKEFNI PIPARS\TBWA

IceCold

Icecold er íslensk skartgripalína, hönnuð og smíðuð hjá Jóni og Óskari. Á svölum vordögum var gerð sjónvarpsauglýsing fyrir þessa glæsilegu vörulínu. Leikstjóri var sjálfur Ágúst Jakobsson sem hefur haslað sér völl bæði hér heima og erlendis. Tökur fóru fram á Suðurlandi og allt austur að Jökulsárlóni. Íslenska landslagið lék stórt hlutverk og Icecold skartið naut sín vel á ísdrottningunni og hrafninum vini hennar sem sömuleiðis var mjög hrifinn af Icecold skartgripum.
 


Í nýjum búningi

Domino's hefur um nokkurra ára skeið styrkt efstu deild karla og kvenna í körfubolta. Fyrir leiktíðina 2015–2016 fékk allt efni Domino's-deildarinnar nýtt útlit. Nokkrar stjörnur í boltanum voru fengnar í stúdíó og var Guðmundur Þór Kárason fenginn til að mynda. Það var gaman að fylgjast með myndatökunni þar sem kempurnar sýndu flottar hreyfingar. Ekki fylgir sögunni hvort Gummi hafi fengið greitt fyrir hvern myndaðan sentimetra. Domino's-deildin nýtur æ meiri vinsælda og má því sjá markaðsefni tengt deildinni víða, á vefnum, í prenti, sem umhverfisgrafík og í útvarpi. 
 


Pottaskefill og Giljagaur

Eitt af okkar skemmtilegustu verkefnum er að hanna útlit og texta fyrir Borg Brugghús. Útlit bjóranna er fyrir löngu orðið klassískt hérlendis en hróður brugghússins berst nú langt út fyrir landsteinana og það gleður okkur að þessi stílhreina og einkennandi hönnun sé að falla í kramið þar víðar en á Íslandi. Hér sjáum við þrítugastaogsjötta bjór Borgar Brugghúss og fimmta jólabjórinn, Pottaskefill og bróður hans Giljagaur sem er aftur fáanlegur í ár (kom seinast út árið 2013). Frábærir bjórar báðir tveir og ómissandi með hátíðarmatnum. Skál fyrir því og gleðileg jól.
 


Allt í einum grænum

Kringlan hóf mjög metnaðarfulla herferð á dögunum sem við vorum svo heppin að fá að taka þátt í. Takmarkið með herferðinni sem kallast Allt í einum grænum er að gera Kringluna plastpokalausa eða svo gott sem. Um 150 verslanir eru starfræktar í Kringlunni og það segir sig sjálft að starfsemi Kringlunnar hefur töluverð áhrif á umhverfið. Kringlan brá því á það ráð að bjóða gestum og viðskiptavinum verslunarmiðstöðvarinnar að grípa með sér græna og umhverfisvæna poka, þeim að kostnaðarlausu og draga þannig úr notkun á plastpokum. Í Kringlunni má finna sniðugar merkingar sem við hönnuðum líkt og pokana sjálfa sem við hvetjum alla til að nota í næstu Kringluferð.
 

 

Nýr liðsmaður bætist í hópinn


Svanþór Laxdal hefur verið ráðinn fjármálastjóri stofunnar en hann hóf störf í byrjun októbermánaðar. Svanþór tekur við starfi Önnu Svövu Sverrisdóttur en hún var fjármálastjóri Fítons í um 20 ár og starfaði sem fjármálastjóri PIPARS\TBWA eftir sameininguna við Fíton á síðasta ári þar til nú. Svanþór er fæddur í Reykjavík árið 1979 og nam viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri og stundaði meistaranám í stjórnun og stefnumótun við Háskóla Íslands. Svanþór hefur víðtæka reynslu úr auglýsingageiranum en hann starfaði til að mynda í tíu ár hjá Expo auglýsingastofu og eitt ár hjá Vert markaðsstofu.

Um leið og við bjóðum Svanþór hjartanlega velkominn þökkum við Önnu Svövu frábært starf og óskum henni heilla á nýjum vettvangi.
Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
PIPAR\TBWA
Guðrúnartúni 8
105 Reykjavík
510 9000
pipar@pipar-tbwa.is
www.pipar-tbwa.is


Copyright © 2015 PIPAR\TBWA, All rights reserved.


afskrá netfang    breyta skráningu