GLEÐILEGA HÁTÍÐ

FIMMTUDAGUR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR

#68    3. desember 2015

 
Black Friday og mínimalismi eða naumhyggja eru tvö hugtök sem hafa vakið mikla athygli hér á landi undanfarið og virðast við fyrstu sýn eins ólík og hægt er að vera. Þegar betur er að gáð geta þau þó haft jafn mikla þýðingu fyrir auglýsinga- og markaðsfólk. Black Friday er að sjálfsögðu bandarísk hefð sem gerir neytendum kleift að kaupa vörur á tilboðsverði á meðan naumhyggja snýst um að eiga færri hluti og halda aðeins í það sem hefur eitthvað tilfinninga- eða notagildi. Það breytir því þó ekki að naumhyggjufólk kaupir oft og tíðum ekki færri gjafir en aðrir heldur kýs frekar að verja peningunum í upplifun frekar en hluti. Ólíkir markhópar en sama niðurstaða – það er jú sælla að gefa en þiggja – ekki hvað síst um jólin!


Góða helgi,
starfsfólk PIPARS\TBWA


Black Friday

Í Bandaríkjunum hefur löngum verið litið á Black Friday sem upphaf jólaverslunarinnar ár hvert þegar flestir söluaðilar opna snemma morguns og bjóða upp á góða afslætti. Það sem ýtir undir söluna þessa helgi er að flestir fá fjögurra daga frí um Þakkargjörðarhelgina sem þýðir að fjöldi hugsanlegra viðskiptavina er töluverður. Á sama tíma og þetta hugtak berst víða um heim er áherslan á Black Friday í Bandaríkjunum raunar að minnka þar eð neytendur vilja sjá góð tilboð fyrir jólin og þá ekki aðeins á þessum eina degi. Hér á landi eru fyrirtæki farin að bjóða upp á Black Friday en gagnrýnt hefur verið að nafnið hafi ekki verið íslenskað og/eða að afslættirnir hafi ekki verið nógu góðir, líkt og fyrirmyndin segir til um.


Jólaauglýsingar 2015

Það er heldur betur orðið jólalegt á að líta og því tilvalið að renna yfir erlendu jólauglýsingarnar sem keppa um hylli neytenda þetta árið. John Lewis er fyrirtæki sem hefur löngum verið í fararbroddi þegar að jólaauglýsingum kemur og með The Lonely Man on the Moon er okkur enn sem fyrr boðið upp á auglýsingu sem snertir við hinum innstu hjartarótum. Sainsbury's býður hins vegar upp á ævintýri af kettinum Mog úr bókum Judith Kerr, Mog's Christmas Calamity, á meðan Lidl, í auglýsingu framleiddri af TBWA\London, gerir góðlátlegt grín að öllum jólaundirbúningnum með The Lidl School of Christmas. Að þessu sinni virðist enginn einn auglýsandi standa uppi sem ótvíræður sigurvegari en um fjölbreytt verkefni er að ræða sem gaman er að renna yfir.
 


Naumhyggja

Mínimalismi eða naumhyggja er fyrirbæri sem sífellt fleiri vilja gera að lífsstíl. Naumhyggja er gjarnan misskilin og talið að fólk sem kennir sig við þennan lífsstíl kjósi að eiga ekki bíl, sjónvarp eða neitt slíkt sem gæti talist til óþarfa. Hið réttara er að umræddir einstaklingar leggja minna upp úr veraldlegum eignum og þess í stað meiri áherslu á það sem skiptir mestu máli í lífinu að þeirra mati. Þessi lífsstíll getur orðið til þess að fólk á meiri pening á milli handanna og/eða meiri frítíma því ekki reynist nauðsynlegt að vinna myrkranna á milli til að eiga fyrir öllu því nýjasta og flottasta. Markaðurinn fyrir þarfir þessa fólks stækkar hins vegar sífellt, hvort sem um er að ræða smærra húsnæði, þjónustu sem býður upp á upplifun eða vörur sem eru í hærri gæðaflokki og endast þá lengur en ella.
NÝ VERKEFNI PIPARS\TBWA

Verum heima um jólin

Við fengum það skemmtilega verkefni að skrifa og framleiða jólasjónvarpsauglýsingu 365. Við könnumst öll við samverustundir á jólum þar sem fjölskyldan kemur saman, borðar góðan mat, spilar og skemmtir sér. Í auglýsingunni er það „stórfjölskylda“ dagskrárgerðarfólks sem er samankomin heima hjá áskrifendum í notalegri stemningu á aðfangadagskvöld. Þórir Úlfarsson útsetti sérstaklega fyrir okkur erlenda jólaslagarann „I’ll be home for Christmas“ en íslenski textinn er gömul klassík eftir Jónas Friðrik Guðnason. Hinn angurværi flutningur er í höndum Talent-dómaranna Jakobs Frímanns og Ágústu Evu, að ógleymdum konungi jólatónleikanna og rödd Stöðvar 2 til fjölda ára, sjálfum Björgvini Halldórssyni. Guðmundur Þór Kárason leikstýrði.

 


Gefum og gleðjum

Í nóvember hóf Olís verkefnið Gefum og gleðjum sem gengur út á það að fimm föstudaga í röð renna fimm krónur af hverjum seldum eldsneytislítra hjá Olís og ÓB til nokkurra góðra málefna; Styrktarfélags barna með einhverfu, Mæðrastyrksnefndar, Neistans – styrktarfélags hjartveikra barna, Geðhjálpar og Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Svo skemmtilega vildi til að Samhjálp var með landssöfnun til styrktar uppbyggingu Hlaðgerðarkots viku áður en verkefnið hófst og var því góða málefni og sjötta föstudeginum snarlega bætt framan á verkefnið. 
 


Sýndu lit!

Kristall Plús fór í gegnum Disruption hjá okkur á PIPAR\TBWA og var ein af niðurstöðunum úr þeirri vinnu að hætta að tengja vörumerkið við Kristal, m.a. með því að stytta nafnið í Plús. Þá var ákveðið að staðsetja drykkinn sem þriðju leiðina á gosdrykkjamarkaði, Plús er ekki vatn heldur gosdrykkur fyrir þá sem vilja minni sykur og meira stuð. Drykkjarlínan fékk nýjar umbúðir og bættist ný tegund við flóruna, Bleikur Plús með jarðarberjagúavabragði. Sjónvarpsauglýsingin var unnin í góðu samstarfi við Sagafilm, Guðjón Jónsson leikstýrði og Saga Sig var honum til aðstoðar ásamt því að taka frábærar ljósmyndir herferðarinnar.
 


#Viðöll

Svo hægt sé að skilja annað fólk er nauðsynlegt að setja sig í þeirra spor. Einfaldasta leiðin til þess en jafnframt sú árangursríkasta er að ræða saman og því munum við á PIPAR\TBWA birta stutt viðtöl við fólk af erlendu bergi brotið sem á það sameiginlegt að hafa flust frá sínum heimahögum hingað til lands. Þetta fólk er nú orðið hluti af íslenskri menningu sem þýðir að þau eru ekki lengur þau, heldur við öll. 
 

 

Mynd: ÍMARK

Markaðsmaður ársins 2015


Við viljum óska Andra Þór Guðmundssyni, forstjóra Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar, innilega til hamingju með kjör sitt sem Markaðsmaður ársins 2015 hjá ÍMARK, samtökum markaðsfólks á Íslandi. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, afhenti verðlaunin í Ásmundarsafni en Íslensku markaðsverðlaunin, markaðsmaður ársins, eru veitt einstaklingi sem hefur sýnt framúrskarandi árangur í markaðsstarfi á líðandi ári.

Við óskum viðskiptavinum okkar hjá Ölgerðinni til hamingju með frábæran árangur.
Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
PIPAR\TBWA
Guðrúnartúni 8
105 Reykjavík
510 9000
pipar@pipar-tbwa.is
www.pipar-tbwa.is


Copyright © 2015 PIPAR\TBWA, All rights reserved.


afskrá netfang    breyta skráningu
 
Share
Tweet
Forward