ALLIR Á VÖLLINN

FIMMTUDAGUR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR

#69    14. janúar 2016

 
Þá er nýtt ár hafið og íþróttaunnendur fagna enda mikil veisla framundan. Spennan hefst strax á morgun þegar EM í Póllandi hefur göngu sína en þess má geta að ÓB mun enn sem fyrr bjóða upp á afslátt daginn eftir sigurleiki Íslendinga, auk þess sem heppnir þátttakendur hafa unnið miða á fyrstu leiki Íslands. Við munum að sjálfsögðu einnig fylgjast spennt með þegar íslenska karlalandsliðið keppir í fyrsta sinn á EM í fótbolta í Frakklandi í sumar, en eins og tilkynnt hefur verið þá höfum við gert samstarfssamning við Knattspyrnusamband Íslands um vörumerkjavöktun sem gildir fram yfir úrslitakeppnina. Að því loknu er þó engin ástæða til að örvænta því Ólympíuleikarnir mæta á svæðið og halda fjörinu áfram. Allt í beinni – hver segir að línuleg dagskrá sé dauð?


Góða helgi,
starfsfólk PIPARS\TBWA


Talsmenn vörumerkja


Að fá íþróttahetju til þess að vekja athygli á vöru eða þjónustu er vinsæl taktík enda er markhópurinn afmarkaður við þá íþrótt eða vinsældir þess íþróttamanns, auk þess sem vörumerkið skapar jákvæð hugrenningatengsl í huga viðskiptavina þegar það er tengt við einstakling sem lifir heilbrigðum lífsstíl og skarar fram úr á sínu sviði. Það er hins vegar ákveðin áhætta fólgin í því að tengja vörumerki við einstakling sem getur stigið feilspor. Vörumerki getur liðið fyrir það að ferill íþróttamanna gengur upp of og ofan, auk þess sem orðspor talsmanns þess getur hlotið hnekki. Þekktasta dæmið um slíkt er líklega þegar upp komst um framhjáhald Tiger Woods, sem hafði þá verið talsmaður Nike í mörg ár.


Íþróttaauglýsingar


Þrátt fyrir að hefðbundin, línuleg sjónvarpsdagskrá sé langt í frá á undanhaldi breytir það því ekki að fjöldi fólks vill ráða því hvar og hvenær það horfir á sjónvarp. Það kemur því ekki á óvart að samkvæmt úttekt Kantar Media fyrir tímabilið 2014–2015 fá fjórar stærstu sjónvarpsstöðvar Bandaríkjanna þriðjung auglýsingatekna sinna með sýningu íþróttaviðburða. Hér er að sjálfsögðu um dagskrá að ræða sem krefst þess að áhorfendur fylgist með úrslitum í beinni útsendingu. Þess má geta að það eru helst fyrirtæki í bifreiða-, trygginga- og fjarskiptabransanum, auk bjórtegunda, sem verja mestu í íþróttaauglýsingar. Slíkar auglýsingar hafa nú fengið aukið vægi en árið 2014 hófu Clio auglýsingaverðlaunin að veita verðlaun í flokknum Clio Sports, þar sem fyrirtæki líkt og Nike, Gatorade og NBA-deildin hafa til að mynda verið heiðruð.


Íþróttaauglýsingar


Íþróttaviðburðir eru afar vinsælt sjónvarpsefni um heim allan og því er fyrirtækjum að sjálfsögðu mikið í mun að ná athygli áhorfenda á meðan á þeim stendur. Emirates Airlines fóru frumlega leið til þess að vekja athygli á flugfélaginu á leik Benfica gegn Sportin Lisbon á íþróttavellinum Estádio da Luz í Portúgal. Fyrir leikinn mættu flugþjónar Emirates í einkennisbúningi sínum og kenndu stuðningsmönnum liðsins hvernig þeir ættu að hvetja liðið sitt áfram, líkt og um sýningu á öryggisatriðum fyrir flug væri að ræða. Í staðinn fyrir að kenna flugfarþegum að setja á sig súrefnisgrímur, svo dæmi séu tekin, sýndu flugþjónarnir áhorfendum meðal annars hvernig þeir ættu að setja trefil Benfica yfir axlirnar á sér og nota hann til að fagna mörkum liðsins.
NÝ VERKEFNI PIPARS\TBWA

ÓB og EM

Eins og undanfarin ár bregður ÓB á leik þegar stórmót í handbolta lífga upp á tilveruna. EM í handbolta hefst í Póllandi á morgun og ÓB lofar lykil- og korthöfum sínum afslætti daginn eftir sigurleiki Íslendinga, sem samsvarar markatölu okkar í hálfleik. Samhliða er boðið upp á leik á ob.is þar sem hægt er að giska á úrslit leikja og nú þegar hefur einn heppinn þátttakandi unnið ferð á fyrstu leikina okkar á mótinu. Það er hinsvegar nóg eftir af veglegum vinningum og enn hægt að giska á úrslit. Í auglýsingum fyrir EM-leikinn hefur nýr „talsmaður“ ÓB, guli broskallinn, stigið fram á sjónarsviðið. Hver veit nema hann láti meira að sér kveða á næstunni.
 


Vörumerkjavöktun KSÍ

Í loks síðasta árs gerðum við samstarfssamning við Knattspyrnusamband Íslands um vörumerkjavöktun en samningurinn gildir fram yfir EM, Evrópumeistaramót karlalandsliða í knattspyrnu, sem haldið verður í Frakklandi í júní og júlí 2016. Í samningum felst að við gætum hagsmuna KSÍ og höfum eftirlit með því að vörumerki þess séu ekki misnotuð í markaðslegum tilgangi af ótengdum aðilum, meðal annars til að gæta að ímynd KSÍ og íslenskrar knattspyrnu og til að verja verðmæti vörumerkja KSÍ.
 


Vinningur breytir sögunni

Það eru heldur betur ævintýralegir tímar hjá Happdrætti háskóla Íslands, enda stefnir í að heildarupphæð útgreiddra vinninga 2016 verði 1,3 milljarðar. Í nýju auglýsingaefni var því tekin sú ákvörðun að hafa umgjörðina ímyndaðan sjónvarpsþátt sem ber nafnið Stóri dagurinn, eins og útdráttardagar HHÍ, og undirtitillinn er „ævintýralegar vinningssögur“. Viðmælendur lýsa þar hvernig vinningur hefur haft áhrif á líf þeirra og „breytt sögunni“. Þessir ímynduðu vinningshafar eru allir vel kunnar ævintýrapersónur en ævintýrin sem við þekkjum taka óvænta vinkilbeygju – eins og líf þeirra sem vinna stóran vinning gjarnan gerir. Republik framleiddi með okkur, Þórhallur Sævarsson leikstýrði og Svandís Dóra Einarsdóttir brá sér í hlutverk spyrils.

 


Íslenski hesturinn

Á dögunum var lokahönd lögð á feikistórt og skemmtilegt verkefni með Íslandsstofu og hagsmunaðilum að undirbúningi markaðsátaks fyrir íslenska hestinn erlendis. Lagðar voru línur um hvernig styrkja megi ímynd íslenska hestsins í vitund fólks á heimsvísu, byggja upp sterkt vörumerki og þar með auka verðmætasköpun í útflutningi hestsins og vörum og þjónustu honum tengdri. Gríðarlegar væntingar eru gerðar til verkefnisins og ábyggilegt að þó að markaðsátakið sé að mestu hugsað fyrir erlendan vettvang, eigi Íslendingar eftir að verða þess varir hér á landi líka.

heart emoticon heart emoticon heart emotico

 

Gömul og góð auglýsing


Annað hvert ár stendur Rauði kross Íslands fyrir landssöfnun undir heitinu Göngum til góðs. Þann 9. september 2006 gengu 2.600 sjálfboðaliðar í öll hús á Íslandi og tóku á móti ríflega þrjátíu og sjö milljónum króna úr hendi tugþúsunda Íslendinga. Söfnunarféð rann óskert til styrktar börnum í sunnanverðri Afríku sem áttu um sárt að binda vegna alnæmis. Við önnuðumst kynningu átaksins dagana á undan. Mest áberandi voru heilsíðuauglýsingar í dagblöðum þar sem sjá mátti fótspor Malawi-búa og Íslendinga hlið við hlið, og sagðar voru sögur einstaklinga sem væru kannski í svipuðum sporum ef ekki væri fyrir mismikið lífsins andstreymi.

Fótsporin voru mynduð með fingrafarableki, m.a. í ferð starfsmanna Rauða kross Íslands til Malawi sem farin hafði verið í ágúst. Landsöfnunin Göngum til góðs hafði aldrei gengið betur, því metfjöldi sjálfboðaliða gekk til góðs og ekki hafði áður safnast jafn mikið fé. Þessi söfnun er ein af fjölmörgum sem við höfum haft ánægju af að taka þátt í með Göngum til góðs sem og öðrum hjálparsamtökum í gegnum árin.
Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
PIPAR\TBWA
Guðrúnartúni 8
105 Reykjavík
510 9000
pipar@pipar-tbwa.is
www.pipar-tbwa.is


Copyright © 2016 PIPAR\TBWA, All rights reserved.


afskrá netfang    breyta skráningu
 
Share
Tweet
Forward