VÖRUINNSETNINGAR

FIMMTUDAGUR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR

#70    4. febrúar 2016

 
Frá upphafi hafa auglýsendur komið vörumerkjum sínum að í kvikmyndum og sjónvarpi. Þessi aðferð er vel þekkt í Bandaríkjunum en skemmst er að minnast þess hvernig Ellen Degeneres vakti athygli á vörum styrktaraðila Óskarshátíðarinnar 2014 í beinni. Þær aðfarir sýna glöggt hversu flókið það er að koma vörum á framfæri svo vel fari. Minna hefur farið fyrir slíku hér á landi en því miður hefur engin úttekt verið gerð á vöruinnsetningum í íslenskum miðlum. Við erum hins vegar stolt af aðkomu okkar að nýjustu kvikmynd Óskars Jónassonar, Fyrir framan annað fólk, sem frumsýnd verður í febrúar en þar koma þekkt íslensk vörumerki við sögu. Við óskum Óskari og aðstandendum kvikmyndarinnar til hamingju og hlökkum til að sjá hana á hvíta tjaldinu.


Góða helgi,
starfsfólk PIPARS\TBWA


Brand, James Brand


Bond kvikmyndirnar hafa alla tíð verið þekktar fyrir að vekja athygli á ákveðnum vörumerkjum, hvort sem um er að ræða hraðskreiða bíla, nýjustu tækni eða áfenga drykki. Vissulega er fordæmi fyrir þessari ríku hefð seríunnar, enda hófst ævintýrið með skrifum Ian Fleming sem lýsti öllum þeim tækjum og tólum sem Bond nýtti sér í smáatriðum, en mörgum þykir þó nóg komið. Það fór til að mynda fyrir brjóstið á aðdáendum þegar hinum fræga Martini – „shaken, not stirred“ – var skipt út fyrir flösku af Heineken í Skyfall, sem kostaði vörumerkið drjúgan skildinginn. Framleiðendurnir halda því hins vegar fram að með breyttu landslagi sé engin leið til þess að framleiða svo dýra kvikmynd nema gera það í samstarfi við vörumerki sem taka í framhaldinu þátt í því að markaðssetja myndina.


Vörur í kvikmyndum


Vöruinnsetningar (e. product placement) er leið fyrir auglýsendur til að koma vörumerkjum á framfæri, yfirleitt í kvikmyndum, sjónvarpi eða í öðrum miðlum, í stað hefðbundinna auglýsingamiðla. Þetta framferði er ekki nýtt af nálinni en kostir þess eru að vörumerkið verður hluti af því efni sem áhorfandinn hefur kosið að horfa á, í stað auglýsingar sem neytandinn hunsar eða tekur ekki eftir, auk þess sem vöruinnsetning er tiltölulega ódýr í samanburði við t.d. auglýsingaherferð í sjónvarpi. Fræg dæmi um slíkt eru til að mynda Reese's Pieces í E.T., BMW Mini Cooper í The Italian Job, Manolo Blahnik í Sex and the City og ógleymanleg ádeila Wayne's World þar sem Reebook, Doritos, Pepsi og Pizza Hut koma við sögu. Þá má heldur ekki gleyma því að tónlistarmyndbönd eru í síauknum mæli að verða að auglýsingaefni, líkt og 9 mínútna myndband Lady Gaga við lagið Telephone.


Vöruinnsetningar í beinni


Flestum er líklega enn í fersku minni hin fræga „selfie“ sem Ellen Degeneres tók á Óskarnum árið 2014 og sló met á Twitter eftir að Ellen bað áhorfendur um að deila henni. Þetta var að sjálfsögðu leið til þess að koma vörum Samsung, sem var einn af styrktaraðilum hátíðarinnar, í sviðsljósið en þetta uppátæki sýnir einnig hversu flókið það er að koma vörumerkjum að í beinni. Relevance benti t.d. á nokkra vankanta við þetta uppátæki, til að mynda að ekkert var minnst á Samsung á myndinni sem dreifðist um heim allan, að Samsung hafi ekki nýtt Twitter-aðgang sinn til að fjalla um hátíðina á meðan á henni stóð og að Ellen hafi stuttu síðar gert þau mistök að deila myndum frá hátíðinni sem voru augljóslega teknar á iPhone-inn hennar.
NÝ VERKEFNI PIPARS\TBWA

Fyrir framan annað fólk

Um miðjan þennan mánuð verður nýjasta kvikmynd Óskars Jónassonar, Fyrir framan annað fólk, frumsýnd. Mynd­in, sem er rómantísk gamanmynd, ger­ist að stór­um hluta á aug­lýs­inga­stof­unni PIP­AR\TBWA og fjall­ar um Hubert, graf­ísk­an hönnuð sem er í leit að hinni einu sönnu ást. PIP­AR\TBWA kom að myndinni á margvíslegan máta fyrir utan að leggja til húsakynni sín. Textasmiðir okkar og grafískir hönnuðir unnu efni sem notast er við auk þess sem PIP­AR\TBWA kemur að kynningarmálum fyrir myndina. Þá var einnig skipulega en smekklega unnið með vöruinnsetningar (e. product placement) og þekkt vörumerki á borð við Góu, Emmessís og Ölgerðina gegna mikilvægu aukahlutverki.

 


Bitrasti bíllinn

Ölgerðin sá aumur á Egils Grape sem fékk loksins sérmerktan bíl. Þar með var biturleikinn kominn í umferð og bíllinn merktur með alls kyns skilaboðum að hætti hússins. Grape veltir m.a. fyrir sér hvort lífið sé eitt stórt hringtorg, spyr hvort útvarspmaðurinn í næsta bíl sé jafn hress og hjá honum og fullyrðir að gula ljósið sé eins og Appelsín –ofmetið. Fljótlega eftir að Grape-bíllinn fór á göturnar lenti hann í árekstri. En ekki hvað?

Þess má geta að Egils Grape er komið á Twitter og verður þar með heimspekilegar bollaleggingar og lætur örugglega ekki sitt eftir liggja í samfélagsumræðunni. Eltu Egils Grape á @egils_grape.

 

Hlaðborð fyrir Domino's

Domino’s hefur löngum verið áberandi í sjónvarpi með snörp og söludrifin skilaboð. Í byrjun árs ákváðum við að framleiða margar og umfram allt einfaldar auglýsingar svo hægt væri að undirstrika vel þá fjölbreytni sem Domino’s hefur upp á að bjóða. Gerðar voru 11 stuttar auglýsingar sem birtar eru ýmist sem sjálfstæðar auglýsingar eða kostunarstiklur fyrir íþróttaleiki og aðra viðburði sem Domino’s styrkir. Kanilgott, körfubolti og allt þar á milli í boði Domino’s.

 


Sólskin á flösku

SÓL safi er hreinn safi úr Valencia appelsínum, fyrirtaks vítamíngjafi rétt eins og sólin sjálf. Tengingin milli safans og sólarinnar er augljós og sjálfsagt að rifja það upp þegar tilefni gefst. Til dæmis þegar mesti sólmyrkvi í 61 ár sést frá landinu, almyrkvi. Eða þegar sólin hækkar loks á lofti eftir dimma daga í desember.

heart emoticon heart emoticon heart emotico

 

SKIPTING BIRTINGAFJÁR 2015


Við tókum saman skiptingu birtingafjár PIPAR\MEDIA á milli miðla árið 2015. Hlutdeild dagblaða hefur lækkað aðeins á milli ára og eru netmiðlar nú ásamt dagblöðum með stærsta hlutann af birtingakökunni, hvort um sig með 26% birtingafjár. Næst eru sjónvarpsauglýsingar með 25% hlutdeild og hafa hækkað örlítið á milli ára, því næst kemur útvarp með 18%, síðan héraðsfréttablöð og tímarit með 4% af heildinni og 1% fellur í flokkinn annað. Innlendar vefsíður eru með 62% allra netbirtinga og erlendir vefmiðlar á borð við Facebook og Google eru með 38% sem er aukning frá árinu 2014 þegar erlendir vefmiðlar voru með 29% netbirtinga. 

Spáin erlendis er sú að birtingar haldi áfram að færast hröðum skrefum frá „hefðbundnum miðlum“ yfir í stafræna miðla. Fyrir árið 2019 er áætlað að stafrænar birtingar verði komnar yfir 50% af heildarbirtingum. Með stafrænum birtingum er átt við net- og snjalltækjaauglýsingar. Það sem spilar inn í þessa yfirfærslu í stafrænar birtingar er aukning á fjölda nettengdra neytenda, stækkun snjallsímamarkaðar og vöxtur netkerfa fyrir snjalltæki. Hvort sú þróun muni eiga við hérlendis líka verður að koma í ljós. 

Ísland sker sig þó frá helstu samanburðarlöndum þar sem sjónvarp er víðast stærsti miðillinn en dagblöð sjaldan jafn stór miðill og hér á landi. Umræður um að sjónvarpið sé deyjandi miðill virðast ekki á rökum reistar – hins vegar hefur sjónvarpsáhorf breyst mikið á síðastliðnum árum. Nú horfir fólk á sjónvarpsefni á sínum tíma með tímaflakki og VOD-i. Einnig eru mörkin á milli þess sem telst birting í sjónvarpi eða neti sífellt að verða óskýrari. 

Við erum þó ekki að tala um hina fullkomnu skiptingu á birtingaplani hér heldur er einungis verið að tala um meðaltöl PIPAR\MEDIA fyrir árið 2015. Þess ber að geta að PIPAR\MEDIA sér um markaðssetningu á samfélagsmiðlum fyrir fjölda fyrirtækja sem gæti leitt til þess að hlutfall erlendra vefmiðla gæti verið hærra en almennt gerist. Það ber alltaf að skoða hvaða miðlasamsetning hentar hverju fyrirtæki út frá þeirra markmiðum og markhópum – og aðalmarkmiðið er að hámarka nýtingu birtingafjár fyrir viðskiptavini okkar.
Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
PIPAR\TBWA
Guðrúnartúni 8
105 Reykjavík
510 9000
pipar@pipar-tbwa.is
www.pipar-tbwa.is


Copyright © 2016 PIPAR\TBWA, All rights reserved.


afskrá netfang    breyta skráningu
 
Share
Tweet
Forward