MARKAÐSSETNING ÁFANGASTAÐA

FIMMTUDAGUR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR

#71    3. mars 2016

 
Samkvæmt Ferðamálastofu var fjöldi ferðamanna sem fór um Seyðisfjörð, Keflavíkurflugvöll og aðra flugvelli um 1,3 milljónir árið 2015 og útlit er fyrir að ferðamenn sem fari um Ísland verði 1,5 milljón á þessu ári. Það er því vel við hæfi að fjalla um markaðssetningu áfangastaða (e. place marketing) en í byrjun apríl höldum við markaðsráðstefnuna Big World, Small data í samstarfi við Ysland þar sem þessi fræði verða tekin fyrir. Markaðssetningu áfangastaða er ætlað að vekja athygli neytenda á ákveðinni staðsetningu með það í huga að staðir keppi við aðra um fólk, auðlindir og viðskipti. Markmiðið er því að hafa áhrif á það hvað fólki finnst um viðkomandi stað og vekja upp jákvæð viðbrögð hjá ákveðnum markhópi. Því er ekki ofsögum sagt að staðir geti fallið undir hugtakið vörumerki.


Góða helgi,
starfsfólk PIPARS\TBWA


Adam Stagliano TBWA


Adam Stagliano stýrir alþjóðlegum markaðsherferðum TBWA\London og er sérfræðingur í markaðssetningu áfangastaða. Á 25 ára ferli hefur hann markaðssett áfangastaði á borð við Disneyland, Norður-Írland og Marokkó. Þá má nefna að frægt markaðsátak sem hann stýrði fyrir ástralska ferðamálaráðið er notað við kennslu í Harvard Business School. Markmiðið með „A different light“ var að hvetja fólk til að stoppa lengur og ferðast út fyrir stærstu bæina og jafnframt að fá Ástrali til að ferðast meira innanlands. Herferðin gekk út á að minnka notkun staðalímynda og sýna fjölbreyttari mynd af Ástralíu en áður hafði sést. Hún var auk þess mótspil gegn „100% Pure New Zealand“ þar sem Nýja-Sjáland var í fyrsta sinn markaðssett með samræmdu átaki á alþjóðavísu, líkt og um vörumerki væri að ræða.


Big World, Small Data


Markaðsráðstefnan „Big World, Small Data“ fer fram dagana 6.–7. apríl í Háskólabíói. Fyrri dagurinn verður tileinkaður markaðssetningu áfangastaða (e. place marketing) en seinni daginn mun Martin Lindstrom, sem kallaður hefur verið Sherlock Holmes markaðsfræðanna, leiða okkur í allan sannleikann um hversu áhrifarík hin minnstu smáatriði geta verið. Í kjölfar alþjóðavæðingar og síaukins ferðamannastraums hefur markaðs-setningu áfangastaða vaxið fiskur um hrygg. Í þessa markaðssetningu blandast kauphegðun, neysluvenjur og uppbygging vörumerkja á hverjum áfangastað fyrir sig og í því sambandi geta ýmis sérkenni áfangastaða og jafnvel smæstu staðreyndir (e. small data) skipt gríðarlega miklu máli. Fyrirlesarar eru eins og áður segir Martin Lindstrom, Adam Stagliano frá TBWA, Hilde Hammer frá Facebook og Jón Bragi Gíslason, stofnandi Ghost Lamp.
 


Marketing places

Philip Kotler gaf út bókina Marketing places árið 1993 en samkvæmt honum þarf að hafa ákveðin atriði í huga þegar kemur að markaðssetningu áfangastaða. Hann telur mikilvægt að viðhorf íbúanna sjálfra til staðarins sé jákvætt og að það sé vingjarnlegt í garð viðskiptavina sinna. Hann telur að vandamál borga snúist ekki svo mikið um markaðssetningu heldur að borgirnar séu skipulagðar á þann veg að þar sé eitthvað áhugavert til að sjá og gera. Þær þurfi að sjálfsögðu að setja sér markmið hvað varðar vöxt og hagsæld og einnig að afla tekna burtséð frá því fjármagni sem kemur frá ríkinu. Þá leggur hann áherslu á að borgir hugi að sjálfbærni og að markaðssetning áfangastaða feli ekki aðeins í sér skilning á markaðsfræði heldur einnig á hagfræði, stjórnmálum, félagsfræði og félagslegri sálfræði.
 
NÝ VERKEFNI PIPARS\TBWA

Óskapizza Domino's

Domino’s og PIPAR\TBWA stóðu í stórræðum á síðustu vikum þegar Óskapizza þjóðarinnar var valin. Oskapizzan.is var unnin í góðu samstarfi við Skapalón en þar bauðst landsmönnum að setja saman sína draumapizzu á einfaldan og myndrænan hátt og gefa henni smellið nafn. Dómnefnd hafði í nógu að snúast við að velja fimm pizzur sem kepptu til úrslita enda bárust tæplega 15.000 tillögur. Höfundar þeirra fengu ársbirgðir af pizzum hjá Domino’s auk þess sem sigurvegari var kosinn í almennri kosningu á Facebook-síðu Domino's. Ása Björg Valgeirsdóttir hlaut gjafabréf til Evrópu með WOW air fyrir Prinsessuna sem fer á matseðil Domino's. Hörkuskemmtileg herferð og heilmikill hasar. 
 


Appolo lakkríssúkkulaði

Fátt er betra en Appolo lakkrís. Góa ákvað hins vegar að gera gott betur og umvefja lakkrísinn ljúffengu súkkulaði en útkoman er nýtt nammi: Appolo lakkríssúkkulaði, sem líka er til með fylltum lakkrís. Hönnun umbúðanna var komin á teikniborðið hjá okkur þegar tökur hófust á nýrri kvikmynd Óskars Jónassonar, Fyrir framan annað fólk, sem vill svo skemmtilega til að gerist að hluta til á auglýsingastofu og var tekin upp hér í Kaaber-húsinu. Það þótti því tilvalið að gefa nýja lakkríssúkkulaðinu mikilvægt hlutverk í myndinni enda elska flestir Appolo. Lakkríssúkkulaðið kom svo á markað um svipað leyti og myndin var frumsýnd. 

 


Jómfrúin tuttugu ára

Í tilefni af 20 ára starfsafmæli Jómfrúarinnar var allt markaðsefni veitingahússins endurhannað í kjölfar stefnumótunarvinnu. Merki, matseðlar, myndefni, merkingar á staðnum og umbúðir fengu nýja ásýnd. Jómfrúin hefur ætíð haft dönsk ættareinkenni sín í heiðri eins og glöggt má sjá á nýja matseðlinum. Hún er hefðinni trú som altid, hugsar fyrst og fremst um sine gode gæster sem geta nú skoðað nýjar, lýsandi ljósmyndir af girnilegu smurbrauði. Jómfrúin kann að holde fest, hefur sterkar skoðanir á mat og drykk og hikar ekki við að láta þær í ljós, kurteislega, jafnt í matseðli sem öðru auglýsingaefni.

 


Olís og ánægjuvogin

Við samgleðjumst viðskiptavinum okkar hjá Olís, en félagið fékk hæstu einkunn eldsneytisfyrirtækja í Íslensku ánægjuvoginni 2015 og hefur því endurheimt þann sess eftir nokkurra ára hlé. Það er góður vitnisburður um góða þjónustu. Meðfylgjandi sjónvarpsauglýsing var gerð fyrir Olís til að fagna þessum áfanga og þakka viðskiptavinum.

heart emoticon heart emoticon heart emotico

 

LÚÐURINN 2015


Íslensku auglýsingaverðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn á morgun en þau eru veitt í fjölmörgum flokkum til þeirra sem þótt hafa skarað framúr í auglýsinga- og markaðsmálum árið 2015. Að þessu sinni hlaut PIPAR\TBWA 11 tilnefningar til Lúðurins í eftirfarandi flokkum;

Almannaheillaauglýsingar: Á allra vörum – Einelti er ógeð
Prentauglýsingar: Domino's – Saman í liði
Veggspjöld og skilti: Blindrafélagið – Blindir sjá
Útvarpsauglýsingar: Á allra vörum – Einelti er ógeð
Viðburðir: Öryggismiðstöðin – Alla leið upp #esjanrullar‬
Samfélagsmiðlar: PIPAR\TBWA – #viðöll
Samfélagsmiðlar: 365 – Þú ert í fréttum
Vefauglýsingar: 365 – Þú ert í fréttum
Vefauglýsingar: 365 – Game of Thrones
Bein markaðssetning: 365 – Stefnan
ÁRA – árangursríkasta auglýsingaherferðin: Ölgerðin – Egils Grape, náttúrulega biturt


Þess má til gamans geta að verkefnið okkar #viðöll var einnig tilnefnt til Edduverðlauna í flokki frétta- og viðtalsþátta. Við þökkum viðskiptavinum og samstarfsaðilum fyrir frábært ár! 
Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
PIPAR\TBWA
Guðrúnartúni 8
105 Reykjavík
510 9000
pipar@pipar-tbwa.is
www.pipar-tbwa.is


Copyright © 2016 PIPAR\TBWA, All rights reserved.


afskrá netfang    breyta skráningu
 
Share
Tweet
Forward