FIMMTUDAGUR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR

#73    5. maí 2016

 
Querpass. Der Audi Q5.
Bumper-auglýsing Audi


Dýrmætar sekúndur


Við erum flest orðin vön því á YouTube að bíða í 5 sekúndur þar til við getum slökkt á auglýsingunni og horft á það sem ætluðum í upphafi en núna lítur allt út fyrir að við þurfum að sætta okkur við eina sekúndu í viðbót. Svokallaðar „Bumper ads“ er nýjasta viðbótin við auglýsingaflóru Google, sex sekúndna auglýsingar á undan myndböndum og ef fer sem horfir, munu þær leysa margar lengri auglýsingar af hólmi.

Auglýsingarnar eru sérstaklega hugsaðar með snjallsíma í huga sem Google réttlætir með niðurstöðum nýlegra könnunar sem sýnir að YouTube nær til fleiri áhorfenda en nokkur ein sjónvarpsstöð og að helmingur fólks á aldrinum 18-49 ára horfi á YouTube myndbönd í símanum sínum. Auglýsendur gætu því þurft að endurhugsa sjónvarpsauglýsingar sínar með það í huga að skilaboðin komist til skila á sex sekúndum en séu um leið það áhugaverðar að notandinn hafi áhuga á að horfa á auglýsinguna og meðtaka skilaboðin.

Reyndar þykir líklegt að þetta muni einnig hafa þau áhrif að auglýsendur neyðist til að hugsa hefðbundnar sjónvarpsauglýsingar upp á nýtt með það fyrir augum að hægt sé að klippa þær niður í 6 sekúndna búta en einnig að hver rammi sé þannig hugsaður að hann njóti sín í snjallsíma.
Audi TV-Spot "Q"
Lengri útgáfa af auglýsingunni sem Audi klippti niður í 6 sekúndur.
NÝ VERKEFNI PIPARS\TBWA

Stjarnfræðilega gott

Eins og við höfum margoft sagt þá er fátt betra en Appolo lakkrís og þegar Góa ákvað að umvefja lakkrísinn ljúffengu súkkulaði var öruggt að útkoman yrði ekki minna en stjarnfræðilega góð.
Útvarpsauglýsingarnar sem nú eru í spilun vitna góðlátlega í útsendingar af geimskotum og tunglgöngum frá 6. og 7. áratug síðustu aldar sem eru fyrir löngu orðnar klassískar en handritið að sjónvarpsauglýsingunni er blessunarlega frumsamið. Myndskeiðið er reyndar ekta upptaka sem geimfarar NASA festu á GoPro vél og gáfu frjálst til notkunar en við berum fulla ábyrgð á Appolo-lakkrísnum sem skýtur geimfaranum skelk í bringu.
 

Við látum það berast

Póstdreifing er fyrirtæki sem er ekki endilega svo sýnilegt almenningi, en kemur þó við sögu um 80 þúsund heimila 6 daga vikunnar, allan ársins hring. Fyrirtækið sér um dreifingu á Fréttablaðinu en býður einnig upp á víðtæka þjónustu í dreifingu á markpósti, fjölpósti, almennum pósti og ýmsum vörum, og hefur um 600 manns í vinnu við akstur og útburð. Til að vekja athygli á þjónustunni gerðum við sjónvarpsauglýsingu sem sýnir veruleika blaðberans, sem þarf að standa sína pligt með bros á vör, hvernig sem viðrar. Við gerð auglýsingarinnar var ýmiskonar tækni blandað saman, útisenan er tekin upp á „green screen“ og umhverfið sett inn eftir á, ýmist með ljósmyndum eða mini-módelum af bílum o.fl.

ÓB í Eurovision-gír

Enn eitt árið skellir ÓB sér í Eurovision-gallann en á undanförnum árum hefur myndast sú skemmtilega hefð að bjóða upp á eldsneytisafslátt í takt við gengi Íslands í keppninni sem enn virðist ná að sameina þjóðina við sjónvarpsskjáinn. 
Diskóútgáfa ÓB-haussins dansar við kunnuglega grafík í sjónvarpsauglýsingum og Greta Salóme tók þátt í gríninu. Að auki er að sjálfsögðu boðið upp á leik á Facebook og veglega vinninga.


Upplífgandi félagsskapur

Um þessar mundir markaðssetur Ölgerðin nýjan drykk, Gin og Grape og fékk PIPAR\TBWA það hlutverk að hanna umbúðir og sjá um framleiðslu á markaðs- og kynningarefni fyrir vöruna. Eins og flestir vita hefur Grape eitt og sér heldur brothætt lunderni og á köflum þungt geðslag. En saman eiga gin og Grape sér langa sögu og blanda nú geði sem aldrei fyrr – og þá verður sko gaman. Gin og Grape er í 0,33 ltr. dósum og mun fást innan tíðar í öllum betri Vínbúðum.  

 

Sniðið að snjalltækinu

Facebook fer brátt að mynda þungamiðju netnotkunar hins vestræna heims. Samkvæmt nýjustu tölum bætast 5 notendur við á hverri einustu sekúndu við þá 1,6 milljarða sem þegar eru virkir og saman útdeila þeir um 4.500 milljón like-um á hverjum einasta degi. Það kemur því engum á óvart að auglýsendur leita æ fleiri leiða til að auglýsa vörur sínar og þjónustu á Facebook.

Canvas kallast nýr auglýsingavalkostur sem Facebook býður upp á. Með Canvas auglýsingunum geta fyrirtæki sagt sögur og/eða kynnt vörur og þjónustu sem eru sérstaklega sniðnar fyrir snjalltæki. Canvas auglýsingarnar eru blanda af myndböndum, myndum og call-to-action hnöppum. Hægt er að fletta í gegnum canvas auglýsingar með því að fletta (swipe) með fingrinum, snúa símanum til að sjá betur víðar myndir (panoramic) og „zooma“ inn til að skoða smáatriði myndar betur. Tæknin í canvas auglýsingum er sú sama og notuð er til að sýna myndir og myndbönd í Facebook appinu og er mjög hröð.

Hægt er að stilla upp canvas auglýsingum í Power Editor en einnig er hægt að skrá sig á lista hjá Facebook til að hanna canvas auglýsingar í gegnum Facebook-síðuna sjálfa.

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
PIPAR\TBWA
Guðrúnartúni 8
105 Reykjavík
510 9000
pipar@pipar-tbwa.is
www.pipar-tbwa.is


Copyright © 2016 PIPAR\TBWA, All rights reserved.


afskrá netfang    breyta skráningu
 
Share
Tweet
Forward