FIMMTUDAGUR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR

#74    2. júní 2016

 

Stórmót styrktaraðila

EM í fótbolta er ekki aðeins hátíð íþróttaunnenda heldur fær áhugafólk um auglýsingar yfirleitt eitthvað fyrir sinn snúð þegar stórir sjónvarpsviðburðir á við þennan eiga sér stað. Styrktaraðilar keppninnar og vörumerki sem vilja tengjast Evrópumótinu hafa undanfarnar vikur keppst við að birta langar og kostnaðarsamar auglýsingar sem ýta undir þjóðerniskennd og baráttuanda en margar hverjar eru til allrar hamingju kryddaðar með góðum skammti af húmor.

Það er engin furða að markaðsdeildir stórfyrirtækjanna spýti í lófana því það getur verið til mikils að vinna þegar um 150 milljónir knattspyrnuáhugamanna fylgjast með beinum útsendingum hvers leiks í mótinu. Því er raunar spáð að stórviðburðir ársins; EM í fótbolta, Ólympíuleikarnir í Ríó og forsetakosningarnar í Bandaríkjunum, hafi þau áhrif að tekjur vegna auglýsingasölu muni aukast um 4,5% á heimsvísu á þessu ári og verði nálægt 540 milljörðum Bandaríkjadala.

Áætlaðar tekjur UEFA frá styrktaraðilum EM 2016 eru annars um 55 milljarðar íslenskra króna en stærstu styrktaraðilarnir eru Adidas, McDonalds, Hyundai-Kia, Coca-Cola, Orange, Continental, SOCAR, Hisense, Turkish Airlines og Carlsberg en í auglýsingu síðastnefnda vörumerkisins sem birtist fyrir skömmu er Íslandi óbeint spáð sigri gegn Frökkum.
If Carlsberg did La Révolution...
Ísland sigrar Frakkland, ef eitthvað er að marka auglýsingu Carlsberg fyrir Evrópumeistaramótið.
TV Spot „Everyone`s Fanhansa“ | Lufthansa
Þýska flugfélagið Lufthansa er ekki opinber styrktaraðili mótsins en stekkur með tilþrifum á EM-vagninn í nýrri sjónvarpsauglýsingu.

Vinur við veginn

Olís hefur undanfarin sex ár lagt sérstaka áherslu á vinalegheit og undirstrikað þau með slagorðinu „vinur við veginn“. Hvert sem erindið er vill Olís gjarnan vera hinn hjálpsami vinur sem fólk getur leitað til á ferðum sínum. Í nýjum ímyndarauglýsingum er þessi tónn sleginn, en þar fylgjum við eftir tveimur hjálpsömum Olís-starfsmönnum sem létta undir með fólki í hversdagsamstri dagsins. Leikstjórn var í höndum Lalla Jóns og gamla Hljómalagið „Er hann birtist“ var endurgert sérstaklega fyrir auglýsinguna, af Hjálmum og Mr. Silla.
 

Bjór á heimsmælikvarða

Nýjasta sjónvarpsauglýsingin fyrir Gull var frumsýnd á dögunum. Hugmyndafræðin á bak við auglýsinguna er í stuttu máli sú að líkt og með afburðagóða og vandaða listsköpun þá krefst það einstakra hæfileika og þrotlausrar vinnu að brugga bjór á heimsmælikvarða en Gull hlaut eins og frægt er fyrstu verðlaun á World Beer Awards.
Leikstjóri auglýsingarinnar var Hafsteinn Gunnar Björnsson, þularlestur er sem fyrr í höndum Finnboga Péturssonar myndlistarmanns en tónlistina samdi Ólafur Björn Ólafsson (ÓBÓ).
 

Við elskum pipar

Pipar er elskaður um heim allan. Við erum reyndar ekkert hissa á því enda er pipar stórkostlegt fyrirbæri og svo mikils var pipar metinn í eina tíð að hann var notaður sem gjaldmiðill í viðskiptum. Djæf íspinnar með súkkulaðihjúp og pipardufti frá Emmessís, er vara sem uppfyllir alla drauma pipar- og ísunnenda og þá má ábyggilega nota til að múta vinum og vandamönnum. Súkkulaði-piparhjúpuðu íspinnarnir hafa notið fádæma hylli neytenda frá því þeir komu á markað og framleiðendur anna vart eftirspurn er okkur sagt. Umbúðirnar utan um Djæf íspinnana voru hannaðar af PIPAR\TBWA - enda vel við hæfi.


Okkar Kópavogur

Okkar Kópavogur kallast átaksverkefni Kópavogsbæjar til að efla íbúalýðræði og gefa íbúum tækifæri til að hafa áhrif og koma með tillögur að umbótum í nærumhverfi sínu eða annars staðar í bænum. PIPAR\TBWA vann kynningarefni fyrir átakið í glaðlegum og litríkum flat-design-stíl. Ríkulega myndskreyttur bæklingur fór inn á öll heimili í Kópavogi og sama myndefni var nýtt í allt efni, prentauglýsingar, plaköt og auglýsingar á samfélagsmiðlum.
Bæklingurinn var óvenjulegur að forminu til eða þríhyrndur og margbrotinn en óvenjulega flottur líka ... þó við segjum sjálf frá.Hugvitsamleg hönnun


Á vormánuðum fengum við það skemmtilega verkefni að endurhanna frá grunni nýtt hljóðver Bylgjunnar í Skaftahlíð. Hugmyndin var að hanna hljóðver sem uppfyllti allar tæknilegar kröfur nútímaútvarps en einnig að gestir Bylgjunnar, sem og þeir sem koma til með að fylgjast með útvarpsútsendingum stöðvarinnar í gegnum streymi, upplifi að um alvöru fjölmiðil sé að ræða. Gríðarleg vinna var lögð í alla formfræðilega hönnun og hugvitsamlegar lausnir fundnar til að fela tækjabúnað, snúrur og kapla. Nánast öll lýsing er LED og átta sjónvarpsskjáir skapa skemmtilega stemningu auk þess að þjóna praktísku hlutverki við útsendingar.
 
Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
PIPAR\TBWA
Guðrúnartúni 8
105 Reykjavík
510 9000
pipar@pipar-tbwa.is
www.pipar-tbwa.is


Copyright © 2016 PIPAR\TBWA, All rights reserved.


afskrá netfang    breyta skráningu
 
Share
Tweet
Forward