FIMMTUDAGUR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR

#75    7. júlí 2016

 

Til mikils að vinna

Nú þegar EM í knattspyrnu er á lokametrunum styttist í næsta íþróttastórviðburð, en þann 5. ágúst næstkomandi verður blásið til Ólympíuleikanna í Ríó þar sem rúmlega 10.500 íþróttamenn keppa í 28 íþróttagreinum. Líkt og á EM er hins vegar keppt í fleiru en íþróttum, því auglýsendur reyna án afláts að tengja sig íþróttastjörnunum á leikunum í harðri keppni um athygli neytenda.

Það sem heyrir til tíðinda á þessum Ólympíuleikum hvað markaðsmál varðar, er að slakað hefur verið á reglum um að einungis styrktaraðilar leikanna (þeir stærstu eru Procter & Gamble, McDonald's og Visa), megi nota keppendur í auglýsingaskyni meðan á leikunum stendur. Ótal takmarkanir eru þó á beinum tengingum við leikana; óleyfilegt er að nota fimm hringja einkennismerkið og orð eins og „Olympic“, „2016“, „Rio“, „Games“ og „Gold“ eru á bannlista svo eitthvað sé nefnt.

En það er hægt að finna snjallar og skapandi leiðir framhjá reglunum eins og sjá má í auglýsingu íþróttafataframleiðandans Under Armour, þar sem sundgoðsögnin Michael Phelps á stórleik í undirbúningi fyrir sína síðustu Ólympíuleika.
 
UNDER ARMOUR | RULE YOURSELF | MICHAEL PHELPS
Bandaríski sundkappinn Michael Phelps hlaut fjögur gull og tvö silfur á Ólympíuleikunum í London 2012.
NÝ VERKEFNI PIPARS\TBWA

Appelsínrúta og gulldós

Appelsín bregður á leik í sumar en reglulega verður gulldós sett í 10 dósa „rútur“ af Appelsíni. Þeir heppnu sem finna gulldósina geta átt von á að vinna forláta Big Easy gasgrill, dýrindis kjötveislu frá Kjötkompaníi og veglegar birgðir af Appelsíni til að deila með fjölskyldu og vinum. Sjálf gulldósin er svo hinn glæsilegasti gripur, einstakt handmálað „airbrush“ listaverk eftir snillinginn okkar og PIPAR-starfsmanninn Garðar Pétursson. Meðfylgjandi er stutt kynningarmyndband sem við settum saman.
 

Segðu sís með Olís

Segðu sís, sumarleikur Olís, er í fullum gangi. Viðskiptavinir fá lukkunúmer á kassakvittun, leysa út glaðninga og geta unnið til veglegra verðlauna, meðal annars ferð til Orlando fyrir fjóra. Þá er myndaleikurinn einnig í algleymingi en grímurnar sem slógu í gegn í fyrra hafa verið uppfærðar og þátttakendur keppast við að smella af myndum, deila þeim á samfélagsmiðlum og merkja #segðusís. Í fyrrasumar söfnuðust mörg þúsund myndir á vefsíðuna olis.is/segdusis, hver annarri skemmtilegri.
 
 
„Hver er að skrifa þetta handrit?!“
 
Það mæddi ekki aðeins mikið á Lars og Heimi í undirbúningi fyrir Evrópumótið í knattspyrnu. Hjá Domino’s var næsta víst að það yrði mikið álag því fótboltafár eins og EM kallar jafnan á pizzur. Og fullt af þeim. Það er nú bara einhvern veginn þannig. Við hjá PIPAR\TBWA sóttum í þekkt minni og heimfærðum upp á þá annasömu tíð sem framundan var fyrir pizzubakara, fólk í þjónustuveri og sendla Domino’s. EM var svo sannarlega ótrúlegt ferðalag og Gummi Ben spurði eðlilega um handritshöfund þess. Ekki gott að segja, en handritið fyrir Domino’s-auglýsinguna var skrifað á PIPAR\TBWA og auglýsingin unnin í samstarfi við framleiðslufyrirtækið SKOT. Allan Sigurðsson leikstýrði, Bernhard Kristinn tók myndir og Þröstur Leó Gunnarsson þrumaði yfir starfsfólki Domino’s með sjóðheitri peppræðu, eins og honum einum er lagið. Mannskapurinn vissi nefnilega sem var, það var ekkert rúm fyrir hik og fát og ekkert mátti út af bregða.

Auglýsingin
 

 

Áhrifamikil æska


Niðurstöður nýlegrar rannsóknar markaðs- og almannatengslafyrirtækisins Zeno Group á heimsæskunni (Global Youth) svokölluðu, gefa til kynna að ungt fólk hafi aldrei í sögunni haft meiri áhrif á sitt umhverfi. Í rannsókninni voru spurningalistar lagðir fyrir fleiri en 5.000 ungmenni í Bandaríkjunum, Kanada, Kína, Indlandi, Ástralíu og Bretlandi en þeim svo skipt í tvær kynslóðir; WE-kynslóðina (14–20 ára) og Z-kynslóðina (21–25 ára). Einkenni þessara tveggja kynslóða eru auðvitað margvísleg en sterk umhverfisvitund, metnaður og samfélagsleg ábyrgðarkennd virðast áberandi.

„Æskan í dag er ólík fyrri kynslóðum að því leyti að áhrif hennar á umhverfi sitt er mjög mikil,“ segir Theresa Caruso hjá Zeno Group. „Hún er gríðarlega sterkt og mótandi afl í heiminum og eina leiðin fyrir vörumerki til að tengja sig við hana er að umgangast hana eins og besta vin sinn. Þau gildi sem þessi kynslóð telur mikilvæg í sínum persónulegu samskiptum á að hennar mati að endurspeglast í þeim vörumerkjum sem hún kaupir eða neytir.

Hægt er að kynna sér rannsóknina nánar hér en í grófum dráttum má draga niðurstöður hennar saman í sjö meginatriði sem vörumerkjastjórar og markaðsfyrirtæki gætu haft til hliðsjónar.


1. Æskan í dag hefur gríðarleg áhrif á neysluvenjur foreldra sinna, allt frá því hvaða bíl þau kaupa yfir í hvert er farið í frí.

2. Hún er ekki hrifin af lóðréttu stigveldi og aðhyllist flatt skipulag þar sem lögð er áhersla á samvinnu frekar en skipanir að ofan.

3. Vinátta byggist á sameiginlegu gildismati og áhugamálum, frekar en tilfallandi þægindum eins og búsetu.

4. Tvíbent afstaða til tækninýjunga. Ungu kynslóðinni finnst hún vera of mikið á internetinu, en rannsóknir sýna að meirihluti hennar leggur frá sér símann reglulega, til dæmis til að stunda líkamsrækt.

5. Hún hugsar mikið um heilsuna.

6. Hún lítur svo á að hamingjan felist í jafnvægi á milli velgengni og tilgangs.  

7. Hún notar önnur vörumerki á meðvitaðan hátt til að styrkja sitt eigið, þ.e. vörumerkið „Ég“.


 
Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
PIPAR\TBWA
Guðrúnartúni 8
105 Reykjavík
510 9000
pipar@pipar-tbwa.is
www.pipar-tbwa.is


Copyright © 2016 PIPAR\TBWA, All rights reserved.


afskrá netfang    breyta skráningu
 
Share
Tweet
Forward