FIMMTUDAGUR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR

#77    1. september 2016

 

Hókí Poké

Það er óhætt að segja að sumarsins 2016 verði minnst sem Pokémon-sumarsins mikla. Leikurinn kom fyrst á markað í júlí og þrátt fyrir að hann hafi aðeins verið aðgengilegur í fáum löndum fyrstu vikurnar sló hann öll fyrri met leikja-appa í tekjum fyrsta mánuðinn.

Pokémon Go hefur verið aðgengilegur notendum á Íslandi síðan 16. júlí og mörg fyrirtæki voru fljót að stökkva á boltann til að tengja sig þessu nýja æði. Þannig vakti athygli þegar íbúð í Vesturbænum var auglýst til sölu þar sem einn af sölupunktunum var nálægð við svo kallað Pokéstop. Mörg þjónustufyrirtæki sem eru í grennd við Pokéstop hafa auglýst það sérstaklega en þá er vissara að markhópurinn sé sá sami og meirihluti leikmanna til að koma í veg fyrir vandræði eins og eigandi Fjörukrárinnar lenti í. Önnur fyrirtæki tóku þetta enn lengra eins og Reykjavík Excursions sem hafa útbúið sérstakar veiðiferðir fyrir Pokémon-spilara.

Svo virðist sem tækifærin séu fjölmörg þegar kemur að því að nýta Pokémon Go sem markaðstól og enn er ekkert útlit fyrir að leikmönnum sé að fækka (þó mögulega verði erfiðara að safna Pokémonum þegar haustlægðirnar fara að skella á landinu). Við mælum því með því að allir sem Pikachu geta valdið, hamri járnið á meðan það er ennþá heitt.
 
NÝ VERKEFNI PIPARS\TBWA

Litríkt leikár

Framundan er litríkt og spennandi leikár hjá Þjóðleikhúsinu þar sem að venju er boðið upp á blöndu af íslenskum og erlendum verkum, fullorðins- og barna-, nýjum og klassískum, fyndnum, dramatískum, harmrænum og allt þar á milli í kolsvörtum kómedíum. Það er alltaf gaman þegar við fáum tækifæri til að hanna markaðsefni leikhússins í náinni samvinnu við allt þetta hæfileikaríka leikhúslistafólk.
 

Afmælishaust hjá 365

Stöð 2 kynnir nú haustdagskrána en á sama tíma fagnar stöðin 30 ára afmæli. Hún fór í loftið í október 1986, þegar leiðtogafundurinn í Höfða stóð sem hæst. Við hnoðuðum því í heilmikla 30 ára afmælispartíauglýsingu í Iðnó þar sem ægir saman þekktum persónum og dagskrárgerðarfólki stöðvarinnar úr fortíð og nútíð. Úr varð stórskemmtileg og bragðmikil súpa sem Óskar Jónasson leikstýrði af stakri prýði.
 
 
Við göngum á ólíkan hátt – en öll í sömu átt

Með skemmtilegri verkefnum ágústmánaðar var að koma að Stoltgöngunni sem verður farin núna laugardaginn 3. september. Í samstarfi við Þroskahjálp og Átak, félag fólks með þroskahömlun, settum við saman útlit og kynningarefni fyrir Stoltgönguna sem er samstöðuganga fólks með fötlun. Merki göngunnar var hannað af listamanninum Ísaki Óla sem er líklega þekktastur fyrir litríkar myndir sínar af þekktum sögupersónum. Við hvetjum svo að sjálfsögðu alla til að mæta í Stoltgönguna á laugardaginn klukkan 11:30 en gengið verður frá Austurvelli að Norræna húsinu.

Átakið
 

 

Viltu sjá sögu?


Nýjum fídus var bætt við Instagram fyrr í sumar en nú geta einstaklingar og fyrirtæki birt svokallaðar „sögur“ á samfélagsmiðlinum. Þessi aðferð er þó ekki ný af nálinni því svipaðar sögur hefur verið hægt að birta á Snapchat síðan 2013.

Sérfræðingar binda hinsvegar mun meiri vonir við Instagram þar sem sá miðill hefur verið mun liðlegri í samstarfi við vörumerki varðandi kostaðar umfjallanir og auglýsingar innan miðilsins. Einnig er mun erfiðara fyrir notendur að finna vörumerki á Snapchat þar sem notandinn þarf að stimpla inn nákvæmt nafn merkisins til þess að finna það og fylgja því og síðan er engin leið fyrir notandann að líka við efnið sem vörumerkið birtir. Sú er ekki raunin með Instagram en þar er mun auðveldara að finna vörumerki, fylgja því og eiga í gagnvirkri þátttöku við efnið sem þar er birt.

Vörumerki hafa nú þegar náð gífurlegum árangri með þessari nýjung en íþróttamerkið Nike fékk rúmlega 800 þúsund spilanir á söguna sem vörumerkið birti sama dag og Instagram opnaði fyrir þennan nýja fídus. Sagan var mínútu löng og innihélt sextán myndir og myndskeið sem sýndu nýjustu línu Jordan dótturmerki Nike. Þá sögu birtu Nike undir Jumpman23 aðgangi sínum sem tileinkaður er körfuboltastjörnunni Michael Jordan.

Instagram bætti einnig við nýjum fídus í morgun en frá og með deginum í dag verður hægt að súmma inn á myndir á samfélagsmiðlinum. Súmmið er fítus sem að notendur hafa verið að biðja um frá upphafi en svo virðist sem að miðillinn sé farinn að hlusta nánar á óskir notenda sinna. Fyrrnefndar breytingar eru nefnilega langt frá því að vera þær einu sem Instagram hefur nýlega innleitt en samfélagsmiðillinn hefur tekið stakkaskiptum í ár og má örugglega vænta fleiri nýjunga á næstunni og því skynsamlegt að fylgjast grannt með.

Fyrir áhugasama er hér búið að taka saman tíu skapandi aðferðir fyrir vörumerki sem vilja tileinka sér sagnaformið á Instagram.
 
Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
PIPAR\TBWA
Guðrúnartúni 8
105 Reykjavík
510 9000
pipar@pipar-tbwa.is
www.pipar-tbwa.is


Copyright © 2016 PIPAR\TBWA, All rights reserved.


afskrá netfang    breyta skráningu
 
Share
Tweet
Forward