FIMMTUDAGUR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
  • GÆTU FYRIRTÆKI NÝTT SÉR NET-SPJALL BETUR?
  • BEINAR ÚTSENDINGAR Á SAMSKIPTAMIÐLUM
  • THE LAVA TUNNEL - VIÐBÓT VIÐ FERÐAIÐNAÐINN
  • HARD ROCK - GRJÓTHARÐAR ÁHEYNARPRUFUR
  • APÓTEKARINN - HEILSAR HAUSTINU


#78    6. október 2016
 

Spjallaðu við kúnnann

Fleiri og fleiri velja að eiga í daglegum samskiptum í gegnum spjallforrit og í því geta falist verðmæt markaðstækifæri. WhatsApp og Messenger á Facebook eru hvað vinsælust í snjallsímum og í stórri könnun sem Facebook lét gera nýlega kemur fram að um 65% aðspurðra velur samskipti í gegnum spjallforrit fram yfir símtöl og tölvupósta. Þetta á líka við um fólk á aldrinum 50-70 ára, sem hefur tekið tækninni opnum örmum.

Samskipti í gegnum spjallforrit gerir fólki kleift að vera í sambandi við annað fólk á sínum eigin forsendum, það getur svarað skilaboðum um hæl eða þegar því hentar, sent myndir og myndskeið og brugðist við á myndrænan hátt með myndtáknum (e. emojis) eða hreyfimyndum á gif-formi. En það eru ekki bara einstaklingar sem geta nýtt sér tæknina til að eiga í ríkum og persónulegum samskiptum í gegnum netið, það geta fyrirtæki líka. Þessi aukna notkun og skilningur á spjallforritum skapar því ótal sóknarfæri fyrir fyrirtæki að tengjast viðskiptavinum sínum á persónulegan og áhrifamikinn hátt. 53% aðspurðra í könnun Facebook sögðust vera líklegri til að versla við fyrirtæki sem þeir gætu spjallað beint við og í raun gerir fólk ráð fyrir að geta átt í samskiptum við fyrirtæki á þennan persónulega hátt.

Fyrirtæki og stofnanir á Íslandi eru almennt frekar sýnileg á Facebook en eru þó misvirk á miðlinum og ekki öll sem svara þar skilaboðum frá viðskiptavinum. Meðal þeirra fyrirtækja sem hafa vakið athygli fyrir að sinna viðskiptavinum vel í gegnum samfélagsmiðla og spjallforrit er til dæmis Domino’s, sem svarar viðskiptavinum um hæl hvenær sem er dags. Landspítalinn er annað dæmi en þar var tekin ákvörðun um að bæta þjónustu verulega með því að vera virk á samfélagsmiðlum. 

Fyrsta skrefið er því að sjá til þess að þessi þjónusta við viðskiptavini sitji ekki á hakanum og svara fyrirspurnum og kvörtunum sem berast eins fljótt og auðið er. Þessi beinu samskipti við viðskiptavini geta aukið líkur á sölu enda hægt að beina viðskiptavinum í rétta átt á persónulegum nótum sem vekur upp traust og eykur líkurnar á því að viðskiptavinurinn sýni tryggð við fyrirtækið. 

NÝ VERKEFNI PIPARS\TBWA

Undirheimar Íslands

Nýjasta viðbótin við íslenskan ferðamannaiðnað er The Lava Tunnel sem margir þekkja betur sem Raufarhólshelli við Þrengslaveg. Um þessar mundir standa yfir framkvæmdir við og í hellinum sem mun auðvelda aðgengi og auka öryggi ferðamanna en ráðgert er að opna hann fyrir almenningi síðar í vetur.
Við fengum það skemmtilega verkefni að hanna allt markaðsefni; bæklinga, kynningarbása, vefsíðu og sitthvað fleira og erum þegar orðin gríðarlega spennt fyrir hópferð í þessa undirheima sem urðu til við eldgos rétt austan við Bláfjöll fyrir 5200 árum.


Grjóthart atvinnuviðtal

Síðar í haust opnar Hard Rock Cafe Reykjavík. Við hjá PIPAR\TBWA höfum staðið vaktina með rokkstjórum Hard Rock og eitt af því sem þarf að gera er að fylla staðinn af frábæru starfsfólki. Brugðið var á það ráð að halda veglegar áheyrnarprufur sem við skipulögðum og framkvæmdum ásamt aðstandendum. Þá settum við saman lauflétt persónuleikapróf sem hægt var að taka fyrir áheyrnarprufurnar, svona rétt til að staðsetja sig á hinu víðáttumikla rokkrófi lífsins. Leitin að rokkstjörnum gekk vonum framar, tæplega 300 manns mættu og 70 af þeim hefja störf í lok október.

 
Apótekarinn heilsar haustinu

Apótekarinn er góður nágranni sem ber umhyggju fyrir íbúunum í kringum sig. Hann heilsar haustinu að þessu sinni með því að gefa krökkum höfuðklút til að verma litla hálsa og eyru. Til að koma þeim skilaboðum áleiðis mættu þrír eldfjörugir krakkar í myndverið okkar og sýndu hvernig hægt er að nota slíka klúta. Þau áttu stórleik en klippimeistarinn fullkomnaði svo verkið með sínu lipra handbragði.

Verkefnið
 

 

Verum lifandi


Beinar útsendingar á samfélagsmiðlum eru mál málanna þessa dagana og fyrir skemmstu barst okkur boð frá Færeyjum, hvort hægt væri að senda yfir sérfræðing til þess að fjalla um efnið. Úr varð að Snæbjörn brá sér til Þórshafnar og hélt þar tveggja tíma fyrirlestur á svokölluðu „Marknaðartorgi“, reglulegum viðburði sem haldinn er fyrir þröngan hóp færeysks markaðsfólks af stjórnendum stærstu fyrirtækja og viðskiptalífsins þar í landi. Mætingin var góð og góður rómur gerður að.

Ásamt því að fjalla um beinar útsendingar og eðli þeirra, hvers vegna við heillumst svo mjög af því að fylgjast með hlutunum „live“, var efni fyrirlestrarins einnig að kynna stærstu aðilana sem bjóða upp á slíka þjónustu, Facebook Live, Periscope/Twitter og YouTube ásamt minni spámönnum, hverjir notkunarmöguleikar eru og hvað ber að varast, bæði tæknilega og framkvæmdalega. Staðsetning myndavélar, ljós og hljóð, tímasetningar, kynning — allt þetta skiptir vitanlega mál eins og gefur að að skilja.

Að endingu stendur þó alltaf það sama upp úr þegar kemur að samfélagsmiðlum: Efnið sjálft. Snilli þín er kemur að öppum, forritum, algoriþmum og markaðsfræðum mun aldrei koma í staðinn fyrir þá kúnst að búa til gott og skemmtilegt efni sem fær sjálfstætt líf.

The Dudesons eru finnskir grallarar og ofurhugar. Þessir snillingar hafa verið lengið að og Jackass-gengið hefur til að mynda nefnt þá sem sína stærstu áhrifavalda. Þeir hafa alltaf verið öflugir á samfélagsmiðlum og þeirra nýjasta útspil eru reglulegar útsendingar gegnum Facebook Live. Efnið er vissulega groddalegt og ekki endilega gáfulegt, en viðbrögðin láta ekki á sér standa. Skólabókardæmi um hvernig á að gera hlutina.

The Dudesons

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
PIPAR\TBWA
Guðrúnartúni 8
105 Reykjavík
510 9000
pipar@pipar-tbwa.is
www.pipar-tbwa.is


Copyright © 2016 PIPAR\TBWA, All rights reserved.


afskrá netfang    breyta skráningu
 
Share
Tweet
Forward