FIMMTUDAGUR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
  • UPPHAFSDAGAR JÓLAVERSLUNAR Í NÓVEMBER
  • VAXTARVERKIR SAMSKIPTAMIÐLA
  • NÝR BJÓR FRÁ BORG BRUGGHÚSI
  • FERÐALEIKUR OLÍS SLÆR Í GEGN
  • HARD ROCK ER KOMIÐ HEIM
#79    3. nóvember 2016
 

Nú er það svart!

Svartur föstudagur (Black Friday) og net-mánudagur (Cyber Monday) hafa heldur betur fest sig í sessi á Íslandi undanfarin ár, þrátt fyrir að vera al-amerískir að uppruna. Þessir dagar eru almennt taldir vera upphafsdagar jólaverslunar í Bandaríkjunum, en svartur föstudagur er daginn eftir þakkargjörðarhátíðina og net-mánudagur mánudaginn eftir. 

Uppruna nafngiftarinnar Black Friday má líklega rekja til þess að svo mikil var örtröðin í verslunum og á götum úti þennan dag að oft lá við stórfelldum líkamsmeiðingum. Nafnið þótti því ekki jákvætt fyrst þegar það kom til sögunnar, en eins og með svo margt annað náði snjallt markaðsfólk að snúa nafninu sér í vil.

Rannsóknarsetur verslunarinnar hefur spáð fyrir um að æ fleiri íslenskar verslanir muni innleiða svartan föstudag og net-mánudag enda hafa nágrannaþjóðir okkar tekið þessa daga upp á sína arma á undanförnum árum auk þess sem netverslun er hér í stöðugum vexti. Áætlað er að velta innlendrar netverslunar árið 2015 hafi verið að lágmarki um 5 milljarðar kr. og hefur vöxturinn í netverslun aukist ár frá ári.

Það getur því verið til mikils að vinna fyrir íslensk smásölufyrirtæki að taka þátt í svarta föstudeginum þann 25. nóvember og net-mánudeginum þann 28. sama mánaðar og þjófstarta þannig jólaversluninni.

Black Friday - humans turn into monster!!!
Svartur föstudagur dregur fram það besta í fólki ...
NÝ VERKEFNI PIPARS\TBWA

Út með vini í boði Olís

Olís efndi til myndagetraunar á netinu þar sem þátttakendur þurftu einungis að svara tveimur laufléttum spurningum til að eiga möguleika á að vinna allt að 100.000 Vildarpunkta Icelandair. Á Facebook gátu þeir sem giskuðu rétt svo taggað vin sem þeir væru til í að bjóða með sér til útlanda ef heppnin yrði með. Skemmst er frá því að segja að þátttakan sló öll met, en hvorki meira né minna en 40.000 svör bárust og ellefu heppnir vinningshafar eru því á leið til útlanda með vini í boði Olís.
 


Exótísk hafmeyja

Samstarfsbrugg Borgar brugghúss og Cigar City Brew frá Tampa Bay á Flórída kom út á haustmánuðum. Bjórinn er ávaxtaríkur IPA og kallast Aycayia í höfuðið á karabískri hafmeyju sem tælir til sín sjómenn með fegurð sinni og söng. Við fengum það krefjandi verkefni að myndskreyta flöskuna og útkoman var þessi dulúðuga vatnslitamynd sem sýnir sjálfa Aycayia, skreytta exotískum ávöxtum. Eins og númerið (C4) gefur til kynna er Aycayia fjórða samstarfsbrugg Borgar en von er á því fimmta innan tíðar.
 

 
Hard Rock er komið heim

Hard Rock Cafe Reykjavik opnaði nýlega með pompi og prakt í Lækjargötu 2. Þessi góðkunningi veitingageirans í Reykjavík hefur nú snúið aftur, glæsilegri en nokkru sinni fyrr. Við fengum það skemmtilega tækifæri að hanna alls konar fínerí fyrir þennan nýja stað. Sennilega rís þar hæst hin kynngimagnaða Rimmugýgur sem er einkennisgripur Hard Rock Cafe Reykjavik.
Sótt var í brunn Íslendingasagna og fékk hin alræmda öxi Skarphéðins Njálssonar alveg splunkunýtt hlutverk. „Öxin“ er fagurlega skreytt í svonefndum Úrnesstíl með rúnatákn á tökkum. Ber er hver að baki nema sér gítar eigi. Er það ekki annars?

Verkefnið
 

 

Við erum í beinni


Það eru flestir sammála um að beinar útsendingar eða streymi hafi mikla vaxtarmöguleika sem markaðstæki. Fyrirtæki og vörumerki hafa hinsvegar verið misfljót að tileinka sér beinar útsendingar í kynningarskyni en þeim til vorkunnar eru samfélagsmiðlarnir sjálfir enn í mótun bæði hvað tækni og viðmót beinna útsendinga varðar.

Merki um þessa vaxtarverki mátti glögglega sjá í síðustu viku þegar Twitter lagði niður myndbands-appið Vine en aðeins þrjú ár eru síðan appið fór með stafrænum himinskautum og aðeins fjögur ár frá því að Twitter keypti appið fyrir um 30 milljónir Bandaríkjadala.

Enn furðulegri hljómar þessi lokun á Vine ef haft er í huga að árið 2015 voru skráðir notendur fleiri en 40 milljónir og um 200 milljónir horfðu á myndbönd á samfélagsmiðlinum í hverjum mánuði.

Á mánudaginn í þessari viku bárust svo fréttir af því að stofnendur Vine hefðu hleypt af stokkunum myndbands-appinu Hype til höfuðs Facebook Live og hinu myndbands-appi Twitter, Periscope sem hefur orðið tilefni til mikilla vangaveltna um hvort örlög Periscope verði mögulega þau sömu og Vine. 

Hvað sem því líður er óhætt að segja að miklar hræringar séu í þessum streymis-geira og ef litið er til beinna útsendinga YouTube sem njóta vaxandi vinsælda, og því að Instagram stefnir að því að bjóða upp á beinar útsendingar í náinni framtíð, verður ekki annað séð en að markaðurinn sé að þrengjast og samkeppnin að herðast.

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
PIPAR\TBWA
Guðrúnartúni 8
105 Reykjavík
510 9000
pipar@pipar-tbwa.is
www.pipar-tbwa.is


Copyright © 2016 PIPAR\TBWA, All rights reserved.


afskrá netfang    breyta skráningu
 
Share
Tweet
Forward