FIMMTUDAGUR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
  • BESTU JÓLAAUGLÝSINGARNAR
  • KRINGLAN ALDREI LITIÐ BETUR ÚT
  • 60 MILLJÓNIR TIL STÍGAMÓTA
  • PIPAR\TBWA FÆR JAFNLAUNAVOTTUN VR
  • NÝTT STARFSFÓLK KYNNT
#80    1. desember 2016
 

Bráðum koma blessuð jólin


Það er eitthvað sérstakt við jólaauglýsingar, enda spila þær á tilfinningar sem yfirleitt kvikna og tútna út á þessum árstíma; þakklæti, söknuður, ást og angurvær fortíðarþrá.

Sum vörumerki hafa nýtt þau markaðstækifæri sem þessi árvissi viðburður býður upp á mjög vel en í Englandi er það vöruhúsið John Lewis sem skarar fram úr öðrum. Þar eru jólauglýsingar fyrirtækisins orðnar að föstum lið sem jafnan er beðið eftir með töluverðri eftirvæntingu og markar upphaf jólavertíðarinnar þar í landi.

Nýjasta jólaauglýsing John Lewis kallast „Buster the Boxer“ og samkvæmt Wikipedia mun auglýsingin hafa kostað um eina milljón punda í framleiðslu (u.þ.b. 140 milljónir króna) sem er samt 6 milljónum minna en jólaauglýsing vöruhússins í fyrra mun hafa kostað. 

Á Íslandi hafa margar auglýsingar verið birtar í kringum jól og áramót í áratugi eins og til dæmis jólakveðjan frá Toyota, flugeldaauglýsing Hjálparsveitar skáta og Þykkvabæjarálfarnir. Auk þess hafa auglýsingar frá Ölgerðinni um blönduna okkar allra, Malt og Appelsín, ætíð náð að festa sig í sessi.

Við hvetjum öll fyrirtæki og vörumerki að blanda sér í þennan fríða hóp sem allra fyrst en nú beinum við sjónum okkar að nýjum erlendum jólaauglýsingum frá fyrirtækjum (m.a. John Lewis) sem leggja ætíð mikinn metnað í þetta verkefni.

Vöruhúsið John Lewis með hjartnæma jólaauglýsingu að vanda.
Frú Claus er í aðalhlutverki í jólaauglýsingu Marks & Spencer
Þýska verslunarkeðjan EDEKA með dálítið óvenjulega jólaauglýsingu.
NÝ VERKEFNI PIPARS\TBWA

Hugrekki og æðruleysi

Stígamót leituðu til okkar vegna fjáröflunarátaks. Úr varð herferðin „Styttum svartnættið“ en lokahnykkur hennar var söfnunarþáttur á Stöð 2, 18. nóv. sl. Verkefnið reyndi á alla sem að því komu enda efnið erfitt og viðkvæmt. Stígamótafólk steig fram af hugrekki og æðruleysi og sagði sögur sínar í þrettán viðtölum, en auk viðtalanna framleiddum við auglýsingar í ýmsa miðla og samfélagsmiðlar voru nýttir til hins ýtrasta. Alls söfnuðust um 60 milljónir. Rafael Pinho ljósmyndaði, Kukl lánaði tæki og Medialux tónlist.


Aldrei litið betur út

Nýtt markaðsefni fyrir Kringluna leit dagsins ljós nú í síðasta mánuði. Í auglýsingunum er sem fyrr lögð aðaláhersla á þá gríðarlegu fjölbreytni og hlýju sem einkennir elstu og stærstu verslunarmiðstöð Reykjavíkur – þar sem allt fæst á einum stað – en að þessu sinni með einföldum og stílhreinum hætti. Það er leik- og tónlistarkonan Halldóra Geirharðsdóttir sem sér um lesturinn en leikstjóri er Þorbjörn Ingason og Gísli Galdur Þorgeirsson tónskáld og plötusnúður Quarashi á heiðurinn af tónlistinni.
 

 
Jafnbesta auglýsingastofa landsins

Í lok nóvember sprungum við úr stolti þegar við hlutum jafnlaunavottun VR, fyrst íslenskra auglýsinga- og markaðsfyrirtækja. Vottunin staðfestir að okkur sem vinnum sömu eða jafnverðmæt störf, er ekki mismunað í launum og er það vel! Ferlið var afskaplega lærdómsríkt og krefjandi en erfiðisins svo sannarlega virði. Svo trúum við því að forsenda góðs starfsanda sé að starfsfólk upplifi að launamálin séu í lagi og ávallt hugsuð með sanngirni að leiðarljósi.
 


Spánnýtt starfsfólk 


Á undanförnum vikum og mánuðum hafa sex nýir starfsmenn híft greindarvísitöluna upp og meðalaldurinn niður hér á PIPAR\TBWA. Við kynnum, frá vinstri:  

Kría er grafískur hönnuður og við höfum öruggar heimildir fyrir því að uppáhalds-jólasveinninn hennar sé Hurðaskellir.

Hólmfríður er markaðsráðgjafi og eftirminnilegasta jólagjöfin sem hún hefur fengið er þriggja hæða barbíhús með lyftu.

Eyrún er grafískur hönnuður og kvikari sem er ekki búin að ákveða hvað verður í matinn á aðfangadag. 

Einar er það sem kallað er „creative technologist“ og kemst ekki í jólaskap nema hlusta á plötuna Desember með Siggu Beinteins í heild sinni.

Aðalheiður er markaðsráðgjafi að norðan sem heldur mest upp á engiferkökurnar hennar mömmu sinnar.

Alexandra er birtingaráðgjafi sem opnar jólakortin jafnóðum og þau berast!

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
PIPAR\TBWA
Guðrúnartúni 8
105 Reykjavík
510 9000
pipar@pipar-tbwa.is
www.pipar-tbwa.is


Copyright © 2016 PIPAR\TBWA, All rights reserved.


afskrá netfang    breyta skráningu
 
Share
Tweet
Forward