FIMMTUDAGUR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
  • FRAMTÍÐ AUGLÝSINGAEFNIS Í SÝNDARVERULEIKA
  • NÝR KRISTALL LÍTUR DAGSINS LJÓS
  • OLÍS LAGÐI GÓÐUM MÁLEFNUM LIÐ
  • KROSSMIÐLUN 2017 Í HÖRPU
  • HVERS KONAR SJÓNVARPSAUGLÝSINGAR VIRKA BEST?
#81    5. janúar 2017
 

Horfst í augu við sýndarveruleikann


ÁRIÐ 2016 markaði að margra mati upphaf á almennri notkun sýndarveruleikatækni. Google dreifði milljónum Cardboard gleraugna og leitarniðurstöður sýna að áhugi á sýndarveruleika (VR eða Virtual Reality) hefur aukist gríðarlega á undanförnum misserum.

Flestir virðast sammála um að sýndarveruleikatæknin muni áður en langt um líður breyta nánast öllu í okkar lífi: allt frá því hvernig við eigum í daglegum samskiptum til almennrar dægrastyttingar, líkamsræktar, náms og svo því hvernig við sækjum upplýsingar og horfum á – eða upplifum – auglýsingar.

Kvikmyndir hafa hingað til verið sá miðill sem boðið hefur upp á áhrifamestu upplifunina á aðstæðum öðrum en okkar eigin en svo gæti gerst að með tilkomu sýndarveruleika muni þessi mörk á okkar aðstæðum og annarra mást út að miklu leyti. VR-kvikmyndatökuvélar á borð við Jump geta fangað minnstu smáatriði og hvert einasta sjónarhorn og í framtíðinni má gera ráð fyrir að tæknin verði orðin mun betri og handhægari. En hvað þýðir það fyrir almenning?

Til dæmis má ímynda sér að innan fárra missera getum við greitt fyrir aðgang að stórtónleikum í Kórnum, á landsleik í Ástralíu, farið í leikhús eða sótt tískusýningar, án þess að fara út fyrir hússins dyr. Enn fremur má ímynda sér að ekki sé langt að bíða þess að sagt verði frá stórfréttum, stríðsátökum og öðrum heimsviðburðir með hjálp VR-tækni. Og þá hlýtur að koma að því að maður taki fæðingu barnanna sinna upp í VR, afmæli, fyrsta stefnumótið, brúðkaupið og svo framvegis. Upplifun okkar á samtímanum mun breytast en fortíðin taka algjörum stakkaskiptum þegar hægt verður að geyma minningar í sýndarveruleika.

Stór vörumerki á borð við Cadillac og BMW (sjá hér að neðan) hafa eðlilega gripið þessa tækni á lofti enda möguleikarnir sem tæknin býður uppá nánast óendanlega margir. En eins og með alla tækni og miðla verður að líta á VR sem verkfæri sem getur aðeins aukið eða styrkt upplifun neytandans ef efnið er áhugavert fyrir. Að nota sýndarveruleika sýndarveruleikans vegna, er innihaldslaus hugmyndafræði sem gæti reynst vöru eða vörumerki skaðleg. Og þá er betur heima setið ...

The BMW M2 – Eyes on Gigi Hadid 360° Video injected
BMW og fyrirsætan Gigi Hadid taka höndum saman í þessu 360° myndbandi.
Exclusive Cadillac CT6 Virtual Reality Experience  (2016)
Cadillac býður manni í reynsluakstur í sýndarveruleika.
Kynningarmyndband í sýndarveruleika fyrir tölvuleikja-appið Clash of Clans.
NÝ VERKEFNI PIPARS\TBWA

Drykkur fólksins

Kristall með jarðarberja- og límónubragði hefur litið dagsins ljós eftir skemmtilega þróunarvinnu sem þjóðin tók þátt í. Þátttakendur stungu upp á bragðtegundum og svo var kosið og því næst sett saman smakkráð sem lagðist í bragðprufanir. Skemmst er frá því að segja að Kristall með jarðarberja- og límónubragði hlaut hæstu einkunn og kom í verslanir í þessari viku og við vonum að sem flestir kunni að meta þessa frískandi nýjung.


Gefum og gleðjum

Olís lagði góðum málefnum lið í desember rétt eins og árið áður, með verkefninu Gefum & gleðjum. Valda daga runnu 5 krónur af hverjum seldum eldsneytislítra hjá Olís og ÓB til Stígamóta, Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna, SEM – samtaka endurhæfðra mænuskaddaðra og Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Þátttaka viðskiptavina í verkefninu var frábær eins og í fyrra en þá söfnuðust tíu milljónir króna.
 

 
Ráðstefna: Framtíð auglýsinga í sýndarveruleika

Markaðsráðstefnan Krossmiðlun verður haldin þann 24. febrúar næstkomandi í Hörpu. Þetta er í þriðja sinn sem ráðstefnan fer fram en yfirskrift hennar í ár er Auglýsingar í sýndarveruleika: 360° sýn á framtíð markaðsefnis. Meðal fyrirlesara verða íslenskir og erlendir sérfræðingar á sviði sýndarveruleikatækni en aðalræðumaður ráðstefnunnar verður Joshua Hirsch, yfirmaður tæknilausna TBWA á heimsvísu.

Hirsch sem er með bakgrunn sem forritari, hefur verið nefndur af Adweek sem einn af 10 áhrifamestu tæknisérfræðingunum í auglýsingabransanum, en áður en hann hóf störf hjá TBWA stýrði hann tækniteymi hinnar þekktu auglýsingastofu Big Spaceship. Sú stofa þjónustaði vörumerki á borð við Nike, Wrigley, HBO, GE og hlaut margvísleg verðlaun. Þaðan lá leiðin til Publicis Kaplan og svo Deutsch LA áður en hann gekk til liðs við TBWA.

Áhugafólk um sýndarveruleika og möguleikana sem tæknin býður upp á í auglýsinga- og markaðsstarfi, ætti ekki að láta ráðstefnuna framhjá sér fara.
 Hvað virkar og hvað ekki?


Á VEFSÍÐU Thinkbox er sagt frá niðurstöðum nýlegrar rannsóknar þar sem áhrif sjónvarpsauglýsinga á langtímaminni áhorfenda var kannað. Meira en 200 sjónvarpsauglýsingar voru teknar fyrir og að minnsta kosti 50 þátttakendur horfðu á hverja auglýsingu á meðan að heilastarfsemi og virkni langtímaminnis (og þar af leiðandi móttækileiki þátttakenda fyrir skilaboðum auglýsinganna) var mæld. Í stuttu máli eru helstu niðurstöður rannsóknarinnar þessar:

Staðreyndir vs. tilfinningar

Auglýsingar sem hamra á staðreyndum og hlutlægum upplýsingum hafa síður áhrif á langtímaminni og móttækileika áhorfandans heldur en auglýsingar sem höfða til tilfinninga og skopskyns.

Varan/vörumerkið er ekki aukaleikari

Fái varan alvöru „hlutverk“ í sögunni eru meiri líkur á að neytandinn færi vöruna í langtímaminnið. Sé sagan hins vegar sögð þannig að hvaða vara sem er gæti komið í hennar stað minnka áhrif auglýsingarinnar verulega. Sé sagan sögð á hátt sem krefst athygli og greiningu (til dæmis óhefðbundnar klippingar) aukast áhrifin líka.

Maður er manns gaman

Auglýsingar sem snúast að einhverju leyti um mannleg samskipti; samtöl, væntumþykju o.s.frv. hafa áhrif á móttækileika áhorfandans. Áhugavert þykir hins vegar að frægt fólk virðist ekki hafa teljandi áhrif nema í þeim tilvikum þar sem fræg persóna flytur loka-söluskilaboð auglýsingarinnar, svokallað „call to action“.

Tónlist er ekki tilfallandi skraut

Vörumerki á borð við Levis, M&S og John Lewis reiða sig mikið á tónlist og það er vel þekkt að tónlist getur haft mikil áhrif á vinsældir auglýsinga. Hér skiptir hins vegar öllu að tónlistin eigi við myndefnið, bæði hvað texta og útsetningu varðar. Auglýsingar sem notuðu tónlist með ómarkvissum hætti drógu úr móttækileika áhorfandans og í einhverjum tilvikum var hún verri en engin.

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
PIPAR\TBWA
Guðrúnartúni 8
105 Reykjavík
510 9000
pipar@pipar-tbwa.is
www.pipar-tbwa.is


Copyright © 2017 PIPAR\TBWA, All rights reserved.


afskrá netfang    breyta skráningu
 
Share
Tweet
Forward