FIMMTUDAGUR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
  • AUGLÝSINGAHLÉ SUPER BOWL
  • SS FAGNAR 110 ÁRA AFMÆLI
  • SKAGINN 3X - NÝ HEIMASÍÐA OG MERKI
  • FJARSKALEGA FALLEG LEIKSKRÁ
  • VERÐUR 2017 „BETRA“ EN 2007?
#82    2. febrúar 2017
 

Hvaða auglýsingar skora í ár?

New England Patriots og Atlanta Falcons eigast við í Super Bowl á sunnudaginn. Reiknað er með að um 100–110 milljónir Bandaríkjamanna komi til með að horfa á úrslitaleikinn í beinni útsendingu en þessi metfjöldi áhorfenda, breið aldurssamsetning og nokkuð jafnt kynjahlutfall laðar auglýsendur að. Eðlilega.

Það segir sína sögu um vaxandi vinsældir Super Bowl að árið 1967 kostaði auglýsingapláss í útsendingu um 37.500 dali en kostar 5 milljónir dala í dag (577 milljónir króna). Þegar framleiðslukostnaði auglýsingarinnar er bætt ofan á þá upphæð, er talan orðin svimandi há sem gefur vísbendingar um þann ávinning sem auglýsendur reikna með.

Áhyggjuröddum markaðssérfræðinga hefur þó fjölgað sem segja að birtingagjaldið sé orðið of hátt og að vörumerki hafi í einhverjum tilfellum ekki tekist að endurheimta kostnaðinn á sama fjárhagsári. Hvað sem því líður hefur auglýsingahluti Super Bowl öðlast sjálfstætt líf og eftirvæntingin fyrir auglýsingunum eykst með ári hverju.

Vörumerkin birta jafnan kynningarstiklur í aðdraganda leiksins og að honum loknum er auglýsingunum dreift og deilt á netinu. Í ár virðast flestir bíða spenntir eftir auglýsingum Snickers og Budweiser. Bjórrisinn hyggur á mikla sigra á árinu og auglýsingin er víst upptakturinn að metnaðarfullri markaðsherferð. Snickers mun hins vegar brjóta blað í sögu Super Bowl með auglýsingu í beinni útsendingu sem verður að teljast nokkuð hugrakkur leikur. 

Nokkur af þeim vörumerkjum sem auglýsa á Super Bowl í ár: Audi, Buick, Ford, Honda, Huyndai, Kia, Lexus, Mercedes-Benz, KFC, Skittles, Snickers, Wendy’s, Busch, Yellow Tail, Mr. Clean, Tiffany & Co., Intel.

Þess má geta að leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport og hefst kl. 22.30.

Auglýsingastofan Deutsch Inc. á heiðurinn að metnaðarfullri auglýsingu Budweiser.
KFC | Georgia Gold Big Game Commercial | Colonel vs. Colonel
Billy Zane leikur Gull-ofurstann í auglýsingum KFC fyrir nýja vöru, Georgia Gold.
SNICKERS® Live: Horse Casting
Kynningarstikla fyrir auglýsingu Snickers sem verður sýnd í beinni á sunnudaginn.
NÝ VERKEFNI PIPARS\TBWA

Sameinuð standa þau

Við hönnuðum nýtt útlit og komum að stefnumótunar- og kynningarvinnu fyrir systurfyrirtækin Skaginn, 3X Technology og Þorgeir & Ellert, en starfsemi fyrirtækjanna hefur sameinast undir einu, sameiginlegu vörumerki; Skaginn 3X. Breytingarnar munu einfalda og sameina markaðsstarf fyrirtækjanna og auðvelda samskipti við viðskiptavini auk þess sem ætlunin er að skapa sterkari vitund um starfið og vörurnar sem fyrirtækin framleiða. Tryggvi Tryggvason á heiðurinn að merki fyrirtækisins og nýrri ásýnd. Auk þess unnum við nýjan vef skaginn3x.com, kynningarmyndband, merkingar, auglýsingar og fleira.


Sláturfélagið í 110 ár

Sláturfélag Suðurlands fagnar stórafmæli í ár. Það eru ekki allir sem ná því að verða 110 ára og fá íslensk fyrirtæki hafa fagnað þeim áfanga. SS er óumdeilanlega okkar elsti viðskiptavinur og við höfum unnið margvísleg hönnunarverkefni fyrir félagið í gegnum tíðina og nokkur núna í tilefni afmælisins. Nýjasti vínarpylsumiðinn er til dæmis með afmælisbrag og í merkjum félagsins má nú sjá stofnár þess. Í tilefni afmælisins var einnig gerð heilsíðuauglýsing þar sem sagt var lítillega frá stofnfundi félagsins sem sunnlenskir bændur héldu við Þjórsárbrú 28. janúar fyrir 110 árum. Við óskum SS innilega til hamingju með afmælið.

 
Fjarskalega skemmtilegt ferðalag

Í nýju og sprellfjörugu verki eftir Góa, býður Þjóðleikhúsið í ævintýralegt ferðalag til Fjarskalands þar sem ævintýrin og ímyndunaraflið eiga sér samastað. Hönnuðurnir okkar skelltu sér í ævintýragírinn með aðstoð myndvinnsluforrita við hönnun veggspjalds – og leikskráin er óvenjulega persónulegt fræðsluferðalag fyrir yngstu áhorfendurna um undraheima leikhússins.

 2007, taka tvö


Neyslu- og lífsstílskönnun Gallup (NLG) veitir okkur mikilvæga innsýn í neyslu, viðhorf og lífsstíl landsmanna á hverjum tíma fyrir sig og eins og gefur að skilja er þar margt forvitnilegt að finna – ef maður kann að leita.

Niðurstöður NLG tóku miklum breytingum við efnahagshrunið og mælikvarðar sýndu að þjóðin var að breyta um lífsstíl. Væntingavísitalan milli 2007 og 2008 gaf til dæmis vel til kynna að viðhorf fólks til framtíðarinnar var að versna og samhliða því dróst neysla á flestum munaðarvörum saman. Þessi þróun hélt áfram í eitt til tvö ár í viðbót þar til vísarnir fóru að færast upp aftur og nú er svo komið að niðurstöður NLG fyrir árið 2016, svipa mjög til þess sem þær voru árið 2007

Þetta kemur til dæmis berlega í ljós þegar orlof til útlanda eru skoðað. Fjöldinn náði hámarki 2007 en hrapaði svo 2008. Árið þar á eftir hóf ferðum aftur að fjölga og árið 2016 var fjöldinn sá sami og 2007. Sömu sögu er að segja um hlutfallið; 77% landsmanna fóru í frí til útlanda árið 2007. Það hlutfall var komið niður í 50% árið 2009 en stóð í 74% í fyrra. 

Önnur vísbending er bílakaup. Þegar spurt er um fyrirhuguð kaup hyggjast 42% kaupa sér bíl sem er rétt undir því hlutfalli sem mældist árið 2007 en ef það hlutfall er skoðað hverjir hyggjast kaupa sér nýjan bíl, þá er það mjög svipað og árið 2007 eða um 31%.

Og þá er stóra spurningin hvað mælarnir koma til með að sýna árið 2017. Verður þróunin svipuð? Hvaða væntingar höfum við til framtíðarinnar í lok árs með tilheyrandi áhrifum á neyslu og lífsstíl?

Við munum fylgjast grannt með því. 

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
PIPAR\TBWA
Guðrúnartúni 8
105 Reykjavík
510 9000
pipar@pipar-tbwa.is
www.pipar-tbwa.is


Copyright © 2017 PIPAR\TBWA, All rights reserved.


afskrá netfang    breyta skráningu
 
Share
Tweet
Forward