FIMMTUDAGUR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
 • HEFUR VÖRUMERKIÐ ÞITT EINHVERJA ÞÝÐINGU Í HUGUM FÓLKS?
 • ÞRISTAR, TÆKNIVILLUR, FLAUTUKÖRFUR ... OG PEPPERÓNÍ
 • BLÁR APRÍL – DAGUR BJARTUR OG GÓÐUR
 • HAPPÍS, HEPPILEGUR FYRIR SÆLKERA
 • HVAR LEYNIST GÓUEGGIÐ ÞITT?
 • APRÍLGÖBBIN 2017
#84    6. apríl 2017
 

Hefur vörumerkið þitt einhverja þýðingu í hugum fólks?

Þrátt fyrir mikla umræðu undanfarin ár um mikilvægi efnismarkaðssetningar (e. content marketing) í hinu síbreytilega fjölmiðla- og markaðsumhverfi nútímans, virðast fá fyrirtæki ná að tileinka sér þessa tegund markaðssetningar.
Efnismarkaðssetning snýst um að kafa dýpra og í rauninni finna ástæðuna fyrir því að fyrirtækið er yfir höfuð til. Af hverju gerum við það sem við gerum og á hvaða hátt bætum við líf eða starf viðskiptavina okkar? Ef við getum svarað því getum við fundið leið til að búa til efni og innihald sem skiptir markhópinn máli og hann hefur áhuga á. Á sama tíma glæðum við vörumerkið okkar þýðingu í huga fólks og það fer að skipta máli í lífi notenda. Að setja vörumerki og vörur fyrirtækis í áhugavert og aðlaðandi samhengi, á skemmtilegan og nýskapandi hátt, skilar sér alltaf með aukinni sölu og stærri markaðshlutdeild.
Samkvæmt greiningu* markaðsfyrirtækisins Havas Group á hvaða vörumerki hafa mesta þýðingu í huga fólks eru það tækni- og veffyrirtæki sem tróna á toppnum.

 1. Google, BNA
 2. Paypal, BNA
 3. WhatsApp, BNA
 4. YouTube, BNA
 5. Samsung, S-Kórea
 6. Mercedes Benz, Þýskaland
 7. Nivea, Þýskaland
 8. Microsoft, BNA
 9. Ikea, Svíþjóð
 10. Lego, Danmörk

Af hverju skiptir þetta máli?

Samkvæmt greiningu Havas væri fólki sama þótt 74% vörumerkjanna sem það notar hyrfu af markaði. 75% aðspurðra ætluðust til þess að vörumerki bættu líf þeirra á einhvern hátt en aðeins 40% sögðust finna fyrir því að vörumerkin stæðu undir þessum væntingum.
Þetta gefur vísbendingu um afar litla tryggð neytenda við vörumerki auk lítilla væntinga í garð vörumerkjanna. Því hljóta fyrirtæki að þurfa að komast að því af hverju fólki stendur á sama um sum vörumerki á meðan önnur hafa þýðingu fyrir það.
Í heimi þar sem stöðug framleiðsla og deilingar á efni eiga sér stað eru það þau vörumerki sem viðskiptavinir tengjast tilfinningaböndum sem munu lifa af. Greining Havas staðfestir þetta, en fyrirtækin sem hafa komist í flokkinn „Meaningful Brands“ hafa verið með 206% meiri ávöxtun en hlutabréfamarkaðurinn.

*Greiningin náði yfir 1.500 alþjóðleg vörumerki, 300.000 manns, 33 lönd og 15 mismunandi iðnaðargeira.

NÝ VERKEFNI PIPARS\TBWA

Þristar, tæknivillur, flautukörfur … og pepperóní!

Það er alltaf fjör þegar bestu körfuboltalið landsins takast á í úrslitakeppni Domino’s-deildarinnar. Til að keyra stemninguna almennilega í gang var ráðist í framleiðslu á auglýsingum fyrir lokahnykkinn á keppnistímabilinu. Við héldum sömu línu og hafði verið sett fyrir EM-ævintýri sumarsins og fengum starfsmenn Domino’s til liðs við okkur. Það þurfa nefnilega allir að vera klárir í slaginn þegar mikið er undir. Helstu kempum deildarinnar og nokkrum starfsmönnum Domino’s var stefnt í stúdíó Raphael Pinho sem myndaði af stakri smekkvísi.


Blár apríl – Dagur bjartur og góður

Blár apríl er eitt af þessum skemmtilegu og gefandi verkefnum. Í ár framleiddum við tölvuteiknaða fræðslumynd frá grunni sem ætluð er nemendum á yngsta stigi grunnskóla. Í myndinni kynnumst við Degi sem er einhverfur og heyrum sögu hans með dyggri aðstoð Ævars vísindamanns. Myndin var sýnd í grunnskólum um land allt og hefur fengið mikla umfjöllun í fjölmiðlum. Á meðan Bláum apríl stendur skýtur Dagur litli víða upp kolli, í prentauglýsingum, sjónvarpi, á vefnum, ljósaskiltum og meira að segja í bíó. Sannarlega virkur Dagur!


Happís, heppilegur fyrir sælkera

Við hönnuðum nýlega umbúðirnar fyrir Happís frá Emmessís sem nú má sjá í verslunum. Happís er gerður úr hnausþykkum íslenskum rjóma enda einstakur gæðaís. Þegar lokinu er lyft af ísboxinu blasir við innihald sem er næstum því of gott til að vera satt. Letrið í vöruheitinu var að sjálfsögðu sérteiknað og myndin ásamt litavali gefur sterklega til kynna hvaða bragðævintýri bíða neytandans. 


Hvar leynist Góueggið þitt?

Árið 2012 gerðum við páskaeggjaauglýsingu fyrir Góu í samvinnu við Caoz. Verkefni Góuunganna, að fela páskaegg, tekur þar óvænta stefnu og heppnast ekki alveg sem skyldi. Nú hefur litið dagsins ljós framhald þessarar auglýsingar þar sem gamanið hefur kárnað, því nú er kominn klaufalegur hvolpur í spilið. Hér er búið að skeyta saman auglýsingunum tveimur. Við mælum með því að hafa hljóðið á. Hvað gerist næst?

Starfsfólk óskast

Við auglýstum eftir 1.000 starfsmönnum þann 1. apríl síðastliðinn. Þetta með 1.000 var skrök en okkur vantar alla vega þrjá. Við sækjumst eftir að vinna með skemmtilegu fólki með jákvætt árangursdrifið hugarfar og glimrandi samskiptafærni. Fólki sem kann að meta útsýni yfir túrista á gangi við sundin blá og geislar af starfsgleði alla daga. Okkur vantar fólk í markaðssetningu á netinu, texta- og hugmyndasmíð og sköpun og vinnslu efnis fyrir samfélagsmiðla.Aprílgöbbin 2017


Fyrsti apríl er nýliðinn og að vanda kepptust fjölmiðlar, fyrirtæki og almenningur við að láta grunlausa hlaupa apríl. Stórfyrirtæki á borð við Google létu sitt ekki eftir liggja, en þar á bæ kynntu menn m.a. Google Gnome og Google Wind. Amazon kynnti Petlexa til sögunnar og skyndibitastaðir úti í heimi auglýstu örborgara og bláan kjúkling. KFC í Kanada bauð raddstýrðar fötur, fyrsta lóðrétta bíótjaldið var afhjúpað og IKEA í Bandaríkjunum breytti Smálöndunum í Stórland fyrir fullorðna.

Fyrir áhugasama um aprílgöbb bendum við hér á samantekt Adweek.

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
PIPAR\TBWA
Guðrúnartúni 8
105 Reykjavík
510 9000
pipar@pipar-tbwa.is
www.pipar-tbwa.is


Copyright © 2017 PIPAR\TBWA, All rights reserved.


afskrá netfang    breyta skráningu
 
Share
Tweet
Forward