FIMMTUDAGUR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
  • DOTTIÐ ÚR TÍSKU FYRIR SÓLARLAG?
  • „MEÐ ALLS ENGUM ANANAS“
  • OLÍS VERÐUR TÍVOLÍS
  • LITRÍKIR LURKAR Í SUMAR
  • GAGNAMAGNIÐ
  • ALLT ÞAÐ NÝJASTA Á CANNES AUGLÝSINGAHÁTÍÐINNI  2017
#87    6. júLí 2017
 

 

Dottið úr tísku fyrir sólarlag?

Það er ekki óalgengt að auglýsingabransinn reyni að tengja við yngri kynslóðirnar. Það segir sig kannski sjálft að þetta gengur ekki alltaf enda oft kynslóðabil á milli ungs fólks og þeirra sem hafa unnið skrifstofustörf til lengri tíma. Nú líður tíminn svo hratt að það sem er talið töff einn daginn getur verið dottið úr tísku fyrir sólarlag. Þess utan er ‚töff' mjög afstætt hugtak og því getur verið ansi strembið að ná til ungmenna með auglýsingum. Ef við lítum aðeins yfir landslag „töffsins“ í Reykjavík í dag þá blasir mjög sérstakt hugarfar við; ákveðið skeytingarleysi, hálfkæringur eða jafnvel kæruleysi. Það er ekkert langt frá „James Dean skítsama-karakternum“ sem hefur í raun alltaf verið talinn kúl. 

Kaupmáttur ungmenna hefur aldrei verið meiri en á sama tíma keppast krakkar í grunnskólum landsins við að klæðast Bónus-peysum, gömlum Adidas-flíkum eða jafnvel heilli fatalínu úr bláum, endurunnum IKEA burðarpokum, eins og Inklaw, eitt yngsta tískumerki Íslands, kynnti um daginn. Þá blossar upp sú spurning hvort að fólk klæði sig á þennan hátt til þess að undirstrika það hugarfar að setja enga fyrirhöfn í klæðaburð; fullkomið áreynsluleysi og vera skítsama um tísku.

Sýndarmennskan sem sprakk með tilkomu samfélagsmiðla fer að líða undir lok og einlægnin virðist vera komin í tísku. Yngra fólk hefur alist upp með internetinu og er orðið ansi vant því verða stöðugt fyrir áreiti auglýsinga. Þessi hópur fólks gæti vel verið komið með nóg af að láta selja sér eitthvað og þráir e.t.v. að fyrirtæki tali við þau á sama plani. Með tilkomu samfélagsmiðla hefur aldrei verið auðveldara fyrir vörumerki að eiga í samskiptum við viðskiptavini sína. Liggur framtíð vörumerkja kannski í heiðarlegum samskiptum?

NÝ VERKEFNI PIPARS\TBWA

„Með alls engum ananas“

Á afmælisdegi forsetans, Guðna Th. Jóhannessonar, ákvað Domino's að bregða á leik. Fá ummæli hans hafa vakið eins mikla athygli og þegar hann sagði í grínsvari sínu við ungmenni á Akureyri að hann myndi helst vilja láta banna ananas á pizzur. Við útbjuggum því sérstakan heiðurskassa merktan GTH og færðum honum ananaslausa pizzu í afmælisgjöf. Það var þó í raun aukagjöf. Aðalgjöfin var pizzuveisla fyrir börn og starfsfólk á Barnaspítala hringsins.

Olís verður Tívolís 

Á undanförnum 12 árum höfum við þróað sumarleik Olís í ýmsar áttir. Í sumar verður boðið upp á Tívolís-stemningu. Trúðar á vegum Leikhópsins Lottu ferðast með lukkuhjól milli stærstu stöðvanna og hægt er að vinna ýmiskonar glaðning. Þátttakendur geta jafnframt skráð sig í pott og eiga möguleika á að vinna eina milljón Vildarpunkta Icelandair. Af og til dúkkar einnig upp rafrænt lukkuhjól á netinu sem gæti fært þeim sem snúa veglega vinninga. Lukkuhjólið á stöðvunum er ný hönnun sem ekki hefur sést áður hér á landi og unnum við það í góðu samstarfi við Áberandi. 


Litríkir lurkar í sumar

Sumarið er ísvertíð. Ef sólin fer að skína þá stígur almenn íslöngun í réttu hlutfalli við geislafjöldann þó að góður hluti þjóðarinnar borði auðvitað ís í hvaða veðri sem er. Lurkarnir litríku frá Emmessís fengu ný klæði á vordögum. Hressar risaeðlur í sumarstuði ættaðar alla leið af steinöld og auðvitað í viðeigandi litum prýða nú umbúðirnar. 


Gagnamagnið

Á dögunum unnum við auglýsingu í samstarfi við tónlistarmanninn Daða Frey fyrir 365 ehf. Hugmyndin kviknaði að sjálfsögðu þegar ljóst var að verkefnið var að auglýsa gagnamagn. Það lá því beint við að hafa samband við Daða Frey sem smíðaði umsvifalaust ljúfan lagstúf eins og honum einum er lagið. Lagið var síðan myndskreytt og boðskapur 365 skýrður enn frekar með þessu grafíska myndbandi.


 Allt það nýjasta á Cannes auglýsingahátíðinni 2017

Auglýsingahátíðin í Cannes fór fram á dögunum með tilheyrandi verðlaunaafhendingu þar sem auglýsingum hvaðanæva að úr heiminum eru veitt gull-, silfur- og bronsljón eftir mati dómnefndar auk þess sem þær auglýsingar eða herferðir sem skara sérstaklega fram úr fá hin svokölluðu „Grand Prix“-verðlaun. Í ár fengu 23 herferðir þessi verðlaun í 28 flokkum og þar stóð „óttalausa stúlkan“ á Wall Street upp úr. En þessi stytta sem sett var upp af State Street Global Advisors og McCann New York hlaut þar fern Grand Prix verðlaun.

Adweek tók saman þessar 23 herferðir í grein sem lesa má hér. 

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
PIPAR\TBWA
Guðrúnartúni 8
105 Reykjavík
510 9000
pipar@pipar-tbwa.is
www.pipar-tbwa.is


Copyright © 2017 PIPAR\TBWA, All rights reserved.


afskrá netfang    breyta skráningu
 
Share
Tweet
Forward