Stofan

PIPAR\TBWA

Á PIPAR\TBWA starfa rúmlega 50 manns sem hlakka til að mæta til vinnu á morgnana. Sumir hafa verið „í bransanum í 100 ár“, aðrir eru nýskriðnir úr skóla og bakgrunnurinn er afar mismunandi. Þessi fjölbreytti en vel blandaði hópur á sér þó eitt sameiginlegt markmið – að vinna með viðskiptavinum okkar að því að ná árangri. Það er gaman!
 
Við störfum samkvæmt hugmyndafræði TBWA-keðjunnar, sem kallast Disruption. Ef það er nógu gott fyrir Apple, Absolut og Nissan, getum við sætt okkur við það. Vel skilgreind sýn, skýr markmið og náin samvinna eru uppskrift að árangri. Og samstarfið við viðskiptavini okkar er yfirleitt langt og farsælt.
 
Markaðsstarf er að breytast og við höfum fyrir löngu áttað okkur á því. Með nýjum miðlum hafa samskipti milli fyrirtækis og viðskiptavinar gjörbreyst. Það er ekki nóg að senda út skilaboð – það þarf að eiga samtal við viðskiptavini, leyfa fólki að taka þátt og „upplifa“ vöruna – það er hluti af markaðssetningunni.
 
Við riðum á vaðið með stofnun stærstu samfélagsmiðladeildar á landinu. Þar er unnið gríðarlega mikilvægt starf við markaðssetningu á netinu, sem felst m.a. í notkun samfélagsvefja á borð við Facebook, Twitter, YouTube og Pinterest. Meðal annarra verkefna deildarinnar eru PPC (Pay Per Click) auglýsingar á Facebook, Google AdWords og bestun auglýsingabirtinga með árangursmælingum.
 
Samfélagsmiðaldeildin hefur nú þróast yfir í DAN, Digital Arts Network, sem er alþjóðlegt net innan TBWA-keðjunnar sem samanstendur af u.þ.b. 1000 sérfræðingum á sviði stafrænnar markaðssetningar sem deila þekkingu sinni þvert á markaði.
 
Með nánu samstarfi samfélags- og birtingadeildar hefur sérþekking okkar á þessum nýju miðlum aukist jafnt og þétt – og með samspili viðburða- og kvikmyndadeildar er orðin til blanda sem ekki hefur áður þekkst á Íslandi. Með þessum kokkteil berum við fram sterka hugmynda-, texta- og hönnunardeild, ásamt markaðsráðgjöfum, hoknum af reynslu.
 
Í júlí 2014 sameinaðist PIPAR\TBWA hinum virtu og gamalgrónu auglýsingafyrirtækjum Fíton, Miðstræti og Auglýsingamiðlun. Við þessa sameiningu varð til stærsta auglýsingastofa landsins. Allur rekstur þessara fyrirtækja var sameinaður í Kaaberhúsinu við Guðrúnartún 8.