Kennarasamband Íslands, ásamt aðildarfélögunum átta, leitaði til okkar í sumar til að vekja athygli á þeirri stöðu sem íslenskt menntakerfi stendur frammi fyrir og þeirri þróun sem orðið hefur síðasta áratuginn í mönnun grunnskóla, leikskóla, framhaldsskóla og tónlistarskóla. Kennarar gegna lykilhlutverki í námi og starfi barna, en hlutfall ófaglærðra við uppeldi og kennslu er hátt og starfsmannavelta víða mikil. Sjónvarpsauglýsingin sýnir því miður nokkuð raunsanna mynd af stöðunni og tölfræðin í stuðningsefninu er sláandi. Herferðin sendir skýr skilaboð um mikilvægi þess að fjárfesta í kennurum og menntakerfinu – því börnin okkar eiga skilið fagmennsku og stöðugleika. Samhliða herferðinni hefur jafnframt farið fram mikil og vönduð umræða í fjölmiðlum.
Atlavík framleiddi sjónvarpsauglýsinguna með okkur, Helgi Jóhannsson og Hörður Sveinsson leikstýrðu, en sá síðarnefndi tók einnig ljósmyndir. Arora casting sá um leikaraval og Jófríður Ákadóttir samdi tónlistina.