margret og silja
14/09/2024

Samskipta- og almannatengslateymi

Nýlega var stofnað sérstakt teymi innan Pipars\TBWA á sviði samskipta- og almannatengsla sem Lára Ómarsdóttir stýrir. Hún á að baki mikla reynslu, m.a. í fréttamennsku og dagskrárgerð. Nýja teyminu er ekki síst ætlað að efla þjónustu fyrirtækisins enn frekar enda eru almannatengsl ekki minna mikilvægur markaðsráður en sjálf varan eða þjónustan sem koma þarf á framfæri. Teymið sem telur, þegar þetta er skrifað, fimm manns mun sömuleiðis sjá um sköpun og framleiðslu á efni fyrir samfélagsmiðla. Það er þjónusta sem við höfum verið með í mörg ár en með nýja teyminu eflum við þennan þátt enn frekar. Þörfin fyrir öfluga samskipta- og almannatengslaþjónustu sem þessa er augljós enda eru snertifletir vörumerkja við neytendur mjög víða og leiðirnar að þeim sífellt fleiri. Ímynd og orðspor fyrirtækjanna sem standa að vörumerkjunum skiptir jafnmiklu máli og það sem þau framleiða og bjóða eins og dæmin sanna. Fyrirtæki og stjórnendur þeirra verða að tala einu máli til að heildarupplifun af vörumerki eða fyrirtæki sé sannfærandi.

Við getum því sem auglýsingastofa – já, við köllum okkur ennþá auglýsingastofu – boðið upp á alla þá þjónustu sem viðskiptavinir okkar þurfa til að ná til fólks. Stefnumótun, hugmyndavinna, birtingar í öllum miðlum, stafræn markaðssetning og almannatengsl eru allt hluti af heildstæðri nálgun okkar ásamt því að öll samræming er einfaldari og boðleiðirnar styttri.

En að öðru, haustið er komið, lóan kom og fór – án þess að kveðja. Mögulega er hún ekki farin, bara þögnuð og svo laumast hún burtu þegjandi og hljóðalaust. Þetta er alltaf visst áfall þegar skyndilega heyrist hvorki í lóu né spóa lengur. Og af hverju er það frétt að lóan komi en ekki að hún fari? Geitungarnir hins vegar hafa varla látið sjá sig í þessu frekar leiðinlega sumri (vægt sagt), alla vega mjög fáir. Þeir eru hins vegar á lífi  – og í stuði.