spjallgrimur
14/11/2024

Tilboð, gervigreind, kosningar og jól

Árið styttist í annan endann og nóvember er mættur með öllum sínum gylliboðadögum og snemmjólagjafainnkaupum, að ógleymdum öllum tónleikunum, viðburðunum og hittingunum. Allt samkvæmt hefðinni, en hann er reyndar óvenju framhlaðinn í ár – að minnsta kosti í auglýsingalandi. Ofan í þetta alltsaman bætast eins og einar Alþingiskosningar með sögulega litlum fyrirvara. Jólavertíðin er hafin! Dagur einhleypra (11.11.) er næstkomandi mánudag! Kosningadagurinn sjálfur er svo laugardagurinn 30. nóvember, daginn eftir Svartan föstudag og tveimur dögum fyrir Netmánudag. Flokkarnir þurfa að hafa alla anga úti, kynna frambjóðendur sína og stefnumál og nýta til þess allar lausar glufur. Gallinn er bara sá að á þessum tíma árs eru öll auglýsingapláss landsins yfirleitt löngu frátekin. Flokkarnir gætu því þurft að vera óvenju skapandi til að ná í gegn í yfirstandandi kosningabaráttu.

Þegar fyrirvarinn er svona stuttur þurfa þeir að kokka upp framboðslista og loforðalista á mettíma, og okkur langar auðvitað að fylgjast með þessu öllu, gleypa allar umæðurnar, auglýsingaefnið, samfélagmiðlasprellið þeirra og allt hitt – en það getur verið snúið þegar líður svona nálægt jólum og allir með yfirbókaða stundaskrá.

Á maður kannski bara að spyrja gervigreindina? Á mánudaginn fer af stað tilraunaverkefnið Spjallgrímur, sem Ceedr stendur að – hinn stafræni armur Pipars\TBWA. Spjallgrímur er spjallmenni knúið af gervigreind sem svarar spurningum um íslenska pólitík og komandi kosningar. Hlutverk Spjallgríms er margþætt. Honum er ætlað að auka áhuga almennings á komandi alþingiskosningum og freista þess að gera málefni flokka, umræður og fréttir af íslenskri pólitík í aðdraganda kosninga aðgengilegri fyrir alla aldurshópa. Hann er jafnframt hugsaður til skemmtunar, en ekki síður til að vekja umræður um hvort við getum yfirleitt treyst þessari nýju tækni fyrir svo alvarlegum og mikilvægum málefnum. Kannski getur Spjallgrímur hjálpað okkur að taka ákvörðun um hvað við ættum að kjósa. En kannski alls ekki. Fylgist með á vefslóðinni spjallgrimur.is.