Þriðjudaginn 10. desember s.l. boðuðum við til morgunfundar, E-VENT, samtals um vefverslun og áskoranir á tímum tæknirisa og aukinnar alþjóðlegrar samkeppni. Hver er staðan á íslenskri vefverslun? Eru Amazon, Boozt og Temu að valta yfir allt?
Á fundinum töluðu þau Einar Thor hjá FINDS, Kristján Már Hauksson hjá Ceedr í Noregi og Anna Ala-Ketola frá Ceedr í Finnlandi. Vefverslun er í miklum ofurvexti og langt umfram meðaltal síðastliðið ár. Þar vega Temu-áhrifin þyngst, í október fyrir ári síðan verslaði enginn við Temu, en októberverslunin í ár rauf 5 milljarða múrinn í erlendri vefverslun, sem er tvöföldun frá október í fyrra. Þar er fataverslun stærst, eða 1,8 milljarðar. Um helmingur þessara vara, 2,5 milljarðar af veltunni, koma frá dreifimiðstöð í Eistlandi, sem skýrist af því að Temu setti upp evrópska dreifimiðstöð þar. Sem betur fer er þó íslensk vefverslun einnig mikið að aukast og það verður spennandi að sjá tölur frá Rannsóknasetri verslunarinnar eftir nýliðinn nóvember, með öllum tilboðsdögum.
Fundargestir voru sammála um að það sé mjög erfitt að keppa í verði við erlenda vefverslun og sömuleiðis að taka þátt í öllum þessum tilboðsdögum og töldu að þörf væri á breytingum eða átaki. Þó lítur út fyrir að 20–25% aukning verði á innlendum markaði og því líkur á allnokkrum vexti framundan.
Í umræðu um erlenda vefverslun er óhjákvæmilegt að nefna umhverfisþáttinn, ekki síst í fataframleiðslu þar sem ódýr hraðtíska (fast fashion) er fyrirferðarmikil, en hún reiðir sig á ódýrt vinnuafl sem vinnur fyrir alltof lág laun og við ófullnægjandi skilyrði. Áhersla verður minni á gæðahráefni- og framleiðslu og fötin endast skemur. Framleiðslan kallar á mikla orku-, efna- og vatnsnotkun, að ekki sé minnst á losunina sem verður af flutningum heimshorna á milli. Á meðan eiga hægtíska (slow fashion) og vandaðar gæðavörur undir högg að sækja og umhverfisvæn staðbundin framleiðslufyrirtæki berjast í bökkum. Gamla mantran um að versla í heimabyggð og huga að gæðum og siðferði í allri kauphegðun er aldrei of oft þulin.