Markaðsráðstefnan Krossmiðlun verður haldin á Hótel Reykjavík Grand fimmtudaginn 11. september kl. 8:30–13:00 og yfirskrift hennar að þessu sinni er Vistkerfi vörumerkja. Aðalfyrirlesari verður Matthew Moran, yfirmaður stefnumótunar í nýsköpun hjá OAG (Omnicom Advertising Group). Matthew Moran er með bakgrunn í hönnun, vörumerkjastefnu og upplifunarhönnun. Hann hefur leitt stefnumótun fyrir viðskiptavini á borð við Adidas, Airbnb, Amazon, Apple, Aperol, Campari og Tourism New Zealand svo fáeinir séu nefndir. Vinna hans felst fyrst og fremst í því að tengja saman nýja tækni, menningu og mannlega hegðun til að skapa ný tækifæri. Þrír aðrir fyrirlesarar eru þegar bókaðir á ráðstefnuna. Meira síðar.
Krossmiðlun hefur verið haldin reglulega frá árinu 2012 og fjöldi framúrskarandi fyrirlesara hefur frætt ráðstefnugesti í gegnum tíðina um strauma og stefnur í markaðsmálum frá ýmsum hliðum.