Auglysingastofa
11/04/2024

Að hitta í mark!

Það ætti ekki að vera flókið að hitta í mark. Eða hvað? Hvernig er best að fara að því? Hvað er það sem skilar árangri? Eins og í öllu í lífinu er alltaf farsælast að hafa góðan grunn, sama hvort það sé verið að byggja hús eða fara í markaðsherferð.

Að undangenginni greiningarvinnu á vörumerki er hægt að gera herkænskuplanið sjálft, „strategíuna“. Í greiningarvinnunni er persónuleiki vörumerkisins krufinn og greindur og tónn raddar ákvarðaður. Hvar og hvernig vill þetta vörumerki tala, koma fram eða kannski réttara sagt koma fyrir? Er vörumerkið alvarlegt, hresst, djarft, glatt o.s.frv.? Og fyrir hvað vill vörumerkið standa? Hvernig viljum við að markhópur okkar líti okkur og hvaða sögur ætlum við að segja af vörumerkinu?

Að hafa unnið þessa heimavinnu og lagt línur, í náinni samvinnu við viðskiptavin, einfaldar eftirleikinn: Hugmyndavinnu og framleiðslu.

Þar greinum við einnig hverjar áskoranir vörumerkisins eru á markaði sem skerpir á hugmyndavinnunni og tryggir að herferðin sé ekki aðeins áhugaverð heldur einnig markviss og fjalli um það sem skiptir vörumerkið mestu máli.

Þá er það næsta skref, en það er að koma skilaboðunum til markhópsins. Í boði er aragrúi miðla og leiða til að koma skilaboðum áleiðis til mismunandi hópa og þá mikilvægast að vita hvert leiðinni er heitið og að hvaða árangri er stefnt. Þetta að sjálfsögðu flækir framleiðslu efnis og það þarf að gera mun meira efni. Þar af leiðandi þarf fleiri hendur til að markaðsmálin skili sem bestum árangri og náið og gott samstarf auglýsingastofu og viðskiptavinar er mikilvægt. Það er því sérstaklega gleðilegt að á dögunum hlotnaðist Pipar\TBWA sá ánægjulegi heiður að vera valin Auglýsingastofa ársins meðal stjórnenda markaðsmála í íslenskum fyrirtækjum.

Rannsóknarfyrirtækið Maskína sá um könnunina en niðurstöður hennar voru gerðar opinberar á Ímarkdeginum 1. mars. Í umsögn Maskínu var nefnt að viðurkenningin væri veitt fyrir framúrskarandi þjónustu, hugmyndaauðgi, fagleg vinnubrögð og áherslu á árangur viðskiptavina. Þessi heiðursnafnbót er okkur hvatning til að gera enn betur.