rimc radstefnan 1
14/10/2024

Fjölsótt RIMC ráðstefna

Markaðsráðstefnan RIMC – Reykjavík Internet Marketing Conference – var haldin á Berjaya Reykjavik Natura Hotel fimmtudaginn 26. september sl. RIMC fagnaði 20 ára afmæli en fyrsta ráðstefnan fór fram 2004 að frumkvæði Kristjáns Más Haukssonar, stofnanda RIMC og The Engine.

Megininntak ráðstefnunnar að þessu sinni var, eins og dyggir lesendur Fimmtudags vita, gervigreind og yfirskriftin var Á öldum tækninnar. Sjö erlendir fyrirlesarar fluttu erindi. Ráðstefnan var fjölsótt og þemanu gervigreind var velt upp frá ýmsum hliðum og sjónarhornum með hverjum áhugaverðum fyrirlestrinum á fætur öðrum. Til að nefna einhverja:

Mikko Pietilä frá TBWA\Next ræddi hvernig gervigreind getur sparað tíma á ýmsum sviðum sköpunarferlisins ekki síst hvað varðar hagkvæmni í markaðssetningu. Gervigreind, rétt eins og aðrar tækninýjungar, fari hátt á loft í augnablikinu, setjist síðan og í kjölfarið kemst á jafnvægi. Gervigreind leysi mannlega sköpunargáfu ekki af hólmi, heldur verði hún aðeins verðmætari og dýrari. Enda sé hætta á að ofnotkun gervigreindar steypi allt í sama mót.

Arnoldo Cabrera frá IKEA Group fjallaði um gagnastrúktur og hvernig hann má nýta til ákvarðanatöku. Hvernig t.d. gögn um hegðun fólks á vef IKEA eru nýtt til vöruþróunar. Gervigreind hefur sparað þeim gríðarmikla handavinnu og um leið tíma sem nýtist betur í annað.

Fyrirlestur Michael Bonfils vakti sömuleiðis mikla athygli en hann sagði frá hvernig hann markaðssetti nýtt bakpokavörumerki fyrir snjóbrettafólk í þremur löndum með lágmarkstilkostnaði. Hann fór í gegnum sex skrefa ferli, allt frá rannsóknarvinnu um bestu markaðina yfir í þróun á textaauglýsingum og markaðsefni. Gervigreindartólið character.ia notaði hann til persónugerðar sem og Disc-módelið í greiningarvinnu.

Óvænt atriði á ráðstefnunni var kynning The Engine á nýju nafni og merki fyrirtækisins, sem nú heitir Ceedr.