Stórt steypu-núll og flugeldar.
14/01/2021

Gleðilegt ár – loksins

Að baki er viðburðaríkt ár þar sem orðið fordæmalaust kom oft við sögu. Margt hefur breyst, við gerum hluti sem við höfum ekki gert áður, höfum kynnst nýjum aðferðum og tileinkað okkur nýjar venjur. Það má sjá jafnt í B2C (business to customer) eða B2B (business to business), eins og það heitir á markaðsmáli.
Netið hefur tekið við fjölmörgu af því sem við gerðum áður í eigin persónu á staðnum, hvort sem það snýst um að fara í matvörubúðina eða skella okkur á vörusýningu eða ráðstefnu. Núna rétt eins og áður þarf að taka djarfar ákvarðanir, gera breytingar og vera klár í nýja árið.

Það stendur yfir stafræn bylting. Hún hófst reyndar fyrir löngu þó alltof mörg fyrirtæki á Íslandi hafi ekki gripið til varna og séu klárlega orðin á eftir í reyknum frá samkeppninni. Á liðnu ári sáum við að sala á netinu margfaldaðist, þ.m.t. sala á matvöru sem þrefaldaðist. Þessi þróun heldur auðvitað áfram þótt það verði ef til vill ekki með sama hraða.

Eins og áður er eitt það mikilvægast í markaðsstarfi að byggja upp vörumerkin. Hluti af því er að skilja markhópinn og ná til neytenda. Að ná til markhópsins er sá hluti markaðsstarfsins sem tekur hvað mestum breytingum þessa dagana. Staða fjölmiðla heldur áfram að breytast og þeir íslensku fjölmiðlar sem treysta á auglýsingar eiga sífellt erfiðara uppdráttar, þrátt fyrir að notkun fjölmiðla hafi sjaldan verið jafn mikil og á síðasta ári. Þar gætu því verið vannýtt tækifæri. Hlutfall erlendra miðla heldur áfram að aukast og notkun Íslendinga á þeim miðlum er mikil. Það þarf síst minna fjármagn og mannafla til að halda við stafrænni markaðssetningu fyrirtækja svo árangur náist.

Þegar Covid-rykið er sest sjáum við landslagið skýrar, en það verður breytt. Þess vegna þarf að stökkva og grípa tækifærin áður en það verður of seint. Það hefur verið áskorun að takast á við árið 2020, en það hefur líka skilað mörgu jákvæðu eins og dæmin sanna.