orkureiturinn
13/06/2024

Nýja hverfið við Laugardalinn

Á Orkureitnum við Suðurlandsbraut, umhverfis hið sögulega Orkuhús og í nánasta nágrenni Laugardals, byggja SAFÍR byggingar nýtt og spennandi íbúðahverfi í fjórum áföngum. Við komum snemma að verkinu með markaðsgreiningu, hönnun merkis og ásýndar og höfum fengið að hafa puttana í æði mörgu á öllum stigum og unnið náið með arkitektum húsanna, innanhússarkitekt og landslagsarkitektum. Við hönnun merkisins er vísað í yin og yang og hina jákvæðu orku sem lögð er áhersla á í allri vinnu frá a–ö. Auk alls auglýsinga- og markaðsefnis höfum við einnig séð um hönnun, forritun og alla virkni umfangsmikillar söluvefsíðu, orkureiturinn.is, þar sem hægt er að fá upplýsingar niður í smæstu smáatriði á borð við grunnteikningar íbúða og lit á blöndunartækjum.

Orkureiturinn er eitt stærsta fasteignaverkefni borgarinnar hin síðari ár, en alls munu verða 436 nýjar íbúðir á þessum eftirsótta stað. Reiturinn hefur þegar fengið alþjóðlegu umhverfisvottunina BREEAM Excellent, og stefnt er að Svansvottun íbúða.