rimc radstefnan
14/07/2024

RIMC í tuttugu ár

Fimmtudaginn 26. september nk. verður RIMC ráðstefnan haldin, en 20 ár eru liðin síðan sú fyrsta fór fram. Heitið er skammstöfun og merkir Reykjavik International Marketing Conference. Upphafsmaður ráðstefnunnar er Kristján Már Hauksson, sérfræðingur í stafrænni markaðssetningu sem nú starfar hjá TBWA\Norway. Hann taldi brýnt að efla stafræna þekkingu hérlendis og greip til þess ráðs að halda eigin ráðstefnu með innfluttum fyrirlesurum, til að flytja þekkingu til landsins.

Ráðstefnan, sem hófst sem hálfs dags viðburður fyrir 20 árum síðan, stendur nú yfir í heilan dag og fyrirlesararnir verða 15 talsins. Í áranna rás hefur markaðsfólk frá LEGO, Nike, Dell, Lenovo, Hotels.com og Spotify flutt fyrirlestra á RIMC, auk þess sem fyrirtæki á borð við Google, YouTube og Facebook hafa sent fyrirlesara á ráðstefnuna. Markmiðið með RIMC hefur alltaf verið að ráðstefnugestir geti tekið heim með sér þekkingu sem nýtist þeim í daglegum rekstri smárra sem stórra fyrirtækja og haldbærar upplýsingar sem hjálpa til við vöxt og framsetningu vörumerkja. Það er einnig markmiðið í ár og við fáum ferskar fréttir af markaðsstarfi fyrirtækja sem nú standa á krossgötum vegna tilkomu gervigreindar.

Fyrirlesararnir í ár eru valdir með það í huga að skoða það sem er efst á baugi í stafræna heiminum, allt frá hugmyndavinnu til markaðsherferða. Öll sem hafa hag af öflugum markaðsmálum eiga að geta komið og bætt við þekkingu sína á RIMC.

Dan Sullivan er einn af sex aðalfyrirlesurum í ár. Hann á að baki gríðarlega merkilegt frumkvöðlastarf og er nú almannatengill fyrir Google-leit. Þar er hlutverk hans að hjálpa notendum Google-leitar að skilja betur hvernig Google-leit virkar og tryggja að teymið hjá Google heyri og bregðist við, til að bæta upplifun þeirra sem nota Google. Auk hans má sérstaklega nefna Michael Francello, sem leiddi gríðarlegar breytingar innan Shutterstock hvað varðar gervigreind og tók nýlega við svipuðu hlutverki hjá Getty – og Mikko Pietilä, svæðisstjóra og aðalhugmyndasmiðinn að TBWA\NEXT, sem er sjálfstæð eining innan TBWA sem einbeitir sér að nýtingu tækni við markaðsstarf, ekki einungis gervigreind heldur tækni sem samskiptamáta.