Thad birtir alltaf
14/06/2024

Það birtir alltaf upp um síðir

Við erum veðurháð (veðurhrjáð?) þjóð, sem brosum í hlutfalli við það hvernig sólin deilir út geislum sínum ellegar kveinum þegar hretin dynja yfir hvert á fætur öðru. Það ætti ekki að koma á óvart en það eru til býsna mörg orð yfir hret af ýmsu tagi á íslensku. Nánast má skeyta hverju sem er fyrir framan orðið -hret og gera úr því nýtt. Kosninga-hret gæti sem dæmi verið eitt, útskrifta-hret annað. Forsetakosningar eru afstaðnar og færðu okkur nýjan tilvonandi forseta sem og hressilegt hret. Hugur margra var bundinn við kosningabaráttu svo vikum og dögum skipti. Þeirri baráttu er lokið svo nú er hægt að snúa sér að öðru.

Vorið hefur verið býsna strembið, eldgos, kuldatíð og nú síðast móða. Fækkun ferðamanna til landsins hefur vakið ugg um að hægist verulega á hagvexti og það hefur raunar gerst nú þegar. Fjöldi veitingastaða á í erfiðleikum vegna þessa og húsnæðislán þeirra sem festu vextina í kjölfar Covid-19 fara að „springa út“ og afborganir og vaxtabyrði að hækka allhressilega á næstunni. Óróleiki í heiminum og stríðsbrölt hefur ófyrirsjáanlegar afleiðingar.

Það er einmitt á svona tímum sem skiptir öllu fyrir fyrirtæki að stíga varlega til jarðar í rekstrinum. Þó að eygja megi merki samdráttar þá felast um leið í því tækifæri sem er hægt að nýta til góðs og því aldrei mikilvægara að nýta vel það markaðsfé sem er til ráðstöfunar.

Tilboð um eitt og annað og pakkadílar fljúga um þegar þrengir að. Nærtækt er að nefna Söngvakeppni Evrópu á dögunum en margir auglýsendur treystu sér alls ekki til að nýta þann annars stóra auglýsingapall í þetta skiptið. Án þess að dvelja við Söngvakeppnina, þá er það einmitt núna sem fyrirtæki geta aukið markaðshlutdeild á kostnað þeirra sem kippa að sér höndum og draga úr sýnileika sínum. Það er lag en það skiptir líka höfuðmáli að vinna með fólki sem kann sitt fag og skilar af sér góðri vinnu. Gylliboð um allt fyrir lítið sem ekkert hafa sjaldan virkað og gera ekki enn. Það kostar að vanda til verka, þeir uppskera vel sem plægja og bera á.

Góðar stundir.