Colas
¡Hola!
Í júní 2025 hleypti malbikunarfyrirtækið Colas Ísland af stokkunum herferð en markmiðið var að vekja fólk, aðallega stjórnvöld, til meðvitundar um hversu bágborið ástand vegakerfisins er. Til liðs við verkefnið gekk sérlegur áhugamaður um holur, hinn glaðbeitti Nicolas sem hóf ferðalag sitt á Instagram (hola_nicolas_) og færði sig svo jafnt og þétt yfir á alla mögulega aðra samfélags- og umhverfismiðla.
Nicolas notaði spænska orðið ¡Hola!, til að koma skilaboðum áleiðis á einfaldan en áhrifaríkan hátt. Hann vakti athygli fjölmiðla og fór í viðtöl á tveimur útvarpsstöðvum með framkvæmdastjóra Colas til að ræða viðhald vega hérlendis. Herferð Colas er gott dæmi um samvinnu á öllum sviðum, þvert á miðla, ásamt skýrri samskiptastefnu
Á haustdögum kom svo út Ónýtuvegahandbókin, sem inniheldur greinargóða lýsingu á ástandi vegakerfisins, ásamt tillögum að úrbótum og vegafréttaspá. Henni fylgir ýtarlegt holukort sem vegfarendur geta notað til að leggja lykkju á leið sína á ferð um landið. Útgáfunni var fagnað eins og „alvöru“ bók væri að ræða – í verslun Pennans Eymundsson Austurstræti. Nicolas var á svæðinu, las kafla úr bókinni (upphátt) og áritaði eintök. Auk þess var handbókin send á alla sitjandi þingmenn þjóðarinnar og til forsvarsfólks allra sveitarfélaga landsins.
Sjónvarpsefnið með Nicolas var framleitt af Skoti, Þóra Hilmars leikstýrði og ljósmyndirnar tók Sveinn Speight. Hinn jákvæði og geðþekki Nicolas er leikinn af Juan Camilo Roman Estrada.