Árlega skila birtingaraðilar inn gögnum til Fjölmiðlanefndar um skiptingu auglýsinga milli miðla. Nýlega skiluðum við hjá Pipar\MEDIA inn gögnum fyrir árið 2020. Gögnin er ekki síst athyglisvert að skoða í ljósi Covid-ársins því vissulega eru töluverðar breytingar frá venjulegum árum. Prentmiðlar hafa trónað á toppnum í okkar dreifingu, þar á eftir hafa komið sjónvarpsauglýsingar og útvarpið í því þriðja. Árið 2019 gerðist það síðan í fyrsta skipti að útvarp fór upp fyrir sjónvarpið hjá okkur og á síðasta ári náði útvarpið toppsætinu í þeim birtingum sem Pipar\TBWA dreifir í gegnum Pipar\MEDIA og Pipar\ENGINE. Prentmiðlar og sjónvarp voru með um 22% af kökunni en útvarp með um 24% og fór útvarpið úr 21% árið áður. Síðasta ár var mikið fréttaár og við erum fréttaþyrst þjóð. Flestir vörðu sumarfríinu sínu alfarið innanlands og fylgdust vel með fréttum. Útvarpsauglýsingar eru þess eðlis að þar er hægt að bregðast við með litlum fyrirvara og koma skilaboðum áleiðis: Til að minna fólk á fara í lúguna, minna fólk á að koma í rafræn viðskipti og svo framvegis. Eins þurfti oft og iðulega að breyta skilaboðum hratt, til dæmis um samkomutakmarkanir eða lokanir. Þá reynast útvarpsbirtingar mjög skilvirkar. Aðra markverða breytingu milli ára má einnig sjá hjá innlendum netmiðlum en þeir bættu í raun mestu við sig og fóru úr 16% í rúmlega 19%.
Tími hlustenda/áhorfenda dreifist æ meir milli miðla og streymisveitur taka mikinn tíma fólks. Við verjum minni tíma í heildaráhorf og heildarhlustun á mínútu en samt tekst okkur vel að ná til fólks þar sem við sjáum gott áhorf og hlustun. Það segir okkur líka hvað gott og vandað efni skiptir miklu máli í fjölmiðlum.