Svartur föstudagur (e. Black Friday) er sá tími ársins þegar milljónir manna um allan heim klára jólagjafainnkaupin eða gera góð kaup fyrir heimilið. Svarti föstudagurinn kemur upphaflega frá Fíladelfíu í Bandaríkjunum á sjötta áratugnum. Hugtakið þótti neikvætt í þá daga og reyndu stóru verslanirnar að breyta nafninu í Big Friday, en án árangurs.
Ein af skýringunum á bakvið nafngiftina er sögð vera hvað verslanir selji mikið, enda jólagjafasölutímabilið hafið og það skilar hagnaði. Tölur yfir hagnað hafa svartan lit, á meðan tap er rautt.
Með tilkomu stafrænna auglýsingatóla eins og Google, Facebook o.fl. getum við rýnt í gögn til að skoða kauphegðun á netinu. Þar kemur ýmislegt í ljós. T.d. gaf Mastercard (Mastercard SpendingPulse) út að úttektir á Mastercard í netverslunum hefðu aukist um 12% á Svörtum föstudegi 2021, samanborið við sama dag í fyrra. Við sjáum líka skv. Finder.com að fólk væntir þess að fá mikinn afslátt á Svörtum föstudegi: lágmarkið virðist vera 25% en langflestir vænta þess að fá 50% og jafnvel allt að 90% afslátt.
Við rýndum í gögn viðskiptavina okkar, tókum meðaltalssölu á viku og bárum saman við Black Friday-vikuna. Í ljós kom að margir seldu vel þessa daga, t.d. jókst sala hjá einum viðskiptavini um 1126% samanborið við meðaltalssölu ársins 2021. Hjá öðrum viðskiptavini hjuggum við sérstaklega eftir því að eitt vörumerki hans, sem selur aðallega einn ágætlega dýran hlut, seldi 1899% meira en í meðalviku á árinu 2021.
Gott og blessað, en hvað með neytandann? Í heila viku var varla hægt að opna einn einasta miðil án þess að lenda í stórhríð tilboðsauglýsinga í tilefni Svarta föstudagsins, sem allar hljómuðu meira og minna eins. Er það gott fyrir vörumerki til lengri tíma? Varla. Þurfa fyrirtæki að endurhugsa hvernig þau koma skilaboðum á framfæri í tengslum við svona stóra tilboðsdaga? Kannski.